Hjólað í vinnuna í fullum gangi

10. maí 2022Nú er Hjólað í vinnuna í fullum gangi og nú þegar hafa verið hjólaðir hátt í 64 hringir í kringum landið. Okkur langar að fá fleiri til að taka þátt svo nú er um að gera að peppa samstarfsfólk til að skrá sig og vera með. Það er alls ekki orðið of seint. Það má skrá sig til leiks allan tímann á meðan keppnin stendur yfir á www.hjoladivinnuna.is

Það er vert að benda á að það eru ekki eingöngu hjólreiðar sem telja keppninni heldur telst allur virkur ferðamáti til og frá vinnu með, eins t.d og ganga, hlaupa, hjólabretti, línuskautar. Einnig má taka strætó eða rafhlaupahjól hluta úr ferð og ganga rest og skrá það. Hægt er að nota Strava til að halda utan um sínar ferðir og vegalengdir og hlaða upplýsingunum beint inn í skráningarkerfið.

Við minnum á Skráningar- og Myndaleik Hjólað í vinnuna.
Hægt er að senda inn myndir í gegnum Instagram með #hjoladivinnuna, á Facebook síðu Hjólað í vinnuna og í gegnum vef Hjólað í vinnuna. Einnig má senda inn myndbönd eða reynslusögur í gegnum vef Hjólað í vinnuna.
Nöfn allra vinningshafa eru sett inn á heimasíðu hjóla í vinnuna undir Viðburðir/Leikir/Vinningshafar

Tveir heppnir myndasmiðir verða dregnir út í þættinum Morgunverkin á Rás 2 ásamt því að besta myndin verður sérstaklega verðlaunuð og fá verðlaunahafar hjólahjálm frá Reiðhjólaversluninni Erninum.

Við drögum næst út í myndaleiknum, miðvikudaginn 11. maí

Markmið verkefnisins er að huga að daglegri hreyfingu ásamt því að vekja athygli á virkum ferðamáta og eru hjólreiðar bæði virkur og umhverfisvænn ferðamáti. Hjólreiðar eru frábær útivist, hreyfing og líkamsrækt. Með því að taka þátt í þessu verkefni er ekki einungis verið að bæta skemmtilegri hreyfingu inn í sitt daglega líf, heldur lækkar maður kolefnissporin í leiðinni og sparar peninga sem færu annars í eldsneyti. Það er semsagt ENGIN ástæða til að taka ekki þátt!

Hægt er að nálgast ítarlegar skráningarleiðbeiningar sem og aðrar upplýsingar inná vef Hjólað í vinnuna og einnig er þar að finna leiðbeiningar á ensku í skjali neðst á síðunni. Ef upp koma vandamál við skráningu er hægt að hafa samband við Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands í síma 514-4000 eða senda tölvupóst á netfangið hjoladivinnuna@isi.is.

Meðfylgjandi myndir voru sendar inn í gegnum heimasíðu Hjólað í vinnuna.

Myndir með frétt