Marel - sjálfbærni og hjólað í vinnuna

17. maí 2024

Við fengum fréttir frá henni Hrönn sem er Hjólað í vinnuna vítamínið í Marel.

Hún sagði okkur frá hluta af sjálfbærni stefnu Marel og þáttur í því væri að hjálpa fólki að geta gert við hjólin sín sjálf.

Hér er það sem Hrönn hafði að segja um viðhaldsnámskeiðið sem þau settu upp.

"Þegar Hjólað í vinnuna átakið byrjar eru margir sem eru að dusta rykið af hjólinu sínu til að taka þátt og átta sig þá á því að fákurinn er ekki í sínu besta formi. Þá er gott að hafa þekkingu á hvað þarf að gera, sumt getum við gert við sjálf og annað þarf hendur fagaðila. Þar sem við í Marel vinnum að sjálfbærni í sinni víðustu mynd að þá ákvaðum við að bjóða upp á hjólaviðgerðanámskeið. Þetta er í annað skiptið sem við bjóðum upp á slíkt námskeið sem og hafa þau verið vel sótt. Í ár fengum við reynslumikinn hjólreiðamann, Arnþór Gústavsson, til að sýna helstu handtökin varðandi umhirðu á reiðhjóli t.d. þrif á á hjóli, hvernig á að nota keðjumæli og til hvers, að þekkja helstu slithluti á hjólinu og greina torkennileg hljóð og orsakir þeirra. Fólki bauðst að koma með hjól með sem gefur frá sér óhljóð eða grunaði að eitthvað væri að. Námskeiðið var vel sótt og fengu allir keðjumæli sem var hannaður og framleiddur í Marel að gjöf. "

Það er gaman að fá að heyra innsýn inn í hvernig fyrirtæki eru að nýta átakið Hjólað í vinnuna og við höfum fengið fleiri svona jákvæðar og skemmtilegar sögur. 

Það má sjá þennan umrædda keðjumæli á myndinni sem fylgir fréttinni.

Endilega deilið á samfélagsmiðlum þegar þið eruð að gera eitthvað svona skemmtilegt og hjálpumst að við að efla fólk til að nýta hjólið meira dags daglega.

Myndir með frétt