Hjólað í vinnuna er hafið
Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands ræsti Hjólað í vinnuna með hátíðlegum hætti í morgun í Þróttarheimilinu í Laugardal. Vegna samkomutakmarkana var setningarhátíðin einungis opin boðsgestum að þessu sinni og á dagskrá voru hressileg hvatningarávörp.
Ávörp fluttu Sigríður Jónsdóttir, varaforseti ÍSÍ, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og sveitarstjórnarráðherra, Dagur B. Eggertsson borgarstjóri Reykjavíkur og Einar Sigurjónsson, þríþrautarkappi.
Sigríður Jónsdóttir bauð gesti velkomna og ræddi mikilvægi verkefnisins. Þá tók til máls Guðmundur Ingi Guðbrandsson sem lagði áherslu á baráttuna í loftslagsmálum og það hvað gott skipulag innviða skiptir miklu máli í þeirri baráttu. Lilja Alfreðsdóttir ræddi mikilvægi hreyfingar fyrir heilsuna og benti á hvað það eru mikil forréttindi að búa í borg þar sem auðvelt er að stunda hreyfingu utandyra daglega. Hún þakkaði einnig ÍSÍ fyrir þetta frábæra framtak og í leið þá vitundarvakningu sem fylgir verkefninu. Sigurður Ingi ítrekaði hversu vel hefur gengið að byggja upp gott aðgengi fyrir hjólreiðafólk og honum finnst átakið sem fer nú fram í nítjánda sinn, marka upphaf sumars. Dagur B. Eggertsson benti á að enginn ferðamáti hefur vaxið jafn hratt á undanförnum árum og samgönguhjólreiðar og hann telur að þær eiga eftir að vaxa ennfrekar með tilkomu rafhjóla. Að lokum nefndi hann að eitt af markmið Reykjavíkurborgar er að vera hjólreiðaborg á heimsmælikvarða. Einar Sigurjónsson, þríþrautarkappi, kom inn á mikilvægi þess að vera með bjöllu á hjólinu sínu, sýna tillitssemi í umferðinni, vera vingjarnlegur og umfram allt hafa gaman af því sem maður er að gera. Þar að auki sagði hann skemmtilegar sögur af sínum þríþrautarferli sem vakti lukku meðal viðstaddra.
Gestir setningarhátíðarinnar hjóluðu síðan verkefnið formlega af stað frá Þróttarheimilinu og tóku hring í Laugardalnum.
Hér er hægt að skoða myndir af setningarhátíðinni