Vinningshafar í myndaleik og myndir frá verðlaunaafhendingu
Myndasafn frá verðlaunaafhendingu Hjólað í vinnuna 2017 frá sl. föstudegi er komið inn á myndasíðu ÍSÍ og er hægt að skoða það hérna.
Í myndaleiknum var seinni lukkulegi myndasmiðurinn dreginn út úr hóp allra þeirra þátttakenda sem deildu með okkur myndum með #hjólaðívinnuna. Sá heppni er Jónas Bjarnason í Team Landsnet og hlýtur hann flottan hjálm frá Nutcase á Íslandi.
Síðast en ekki síst þá var dómnefnd fengin til þess að skoða allar þær fjölmörgu myndir sem komu til greina sem besta mynd Hjólað í vinnuna 2017. Mörgum frábærum myndum var deilt með okkur þetta árið og því var valið afar strembið fyrir dómarana. En þegar að öll atkvæði voru talin saman þá var hlutskörpust mynd sú sem Þráinn Hauksson hjá Landslag arkitektum tók af litríkum og lúnum reiðfák.
Einn dómnefndarmeðlimur orðaði það svona: "Geggjuð mynd, litirnir sjúklega flottir". Þráinn hlýtur því flottan hjálm að eigin vali frá Nutcase á Íslandi ásamt þeirri heiðursnafnbót að hafa tekið bestu myndina 2017. Vinningshafar geta sótt vinningana beint til Nutcase sem eru staðsettir í Lyngmóum 11 í Garðabæ og hægt er að hringja á undan í síma 698-8041.
Af öðrum myndasmiðum í toppsætum þá komust nokkrar myndir ofarlega á blað dómnefndar og þar má nefna skuggalegan starfsmann Sonju B. Erlu Guðfinnsdóttur í liði Léttlopa hjá Veritas, þjóðvegaflakkarann hjá Kristjáni Oddi Guðmundssyni í Team Vínbúðin - km hjá ÁTVR og ljósið við enda ganganna hjá Ester Hafsteinsdóttur í Tour de Stab hjá Actavis.
Þá þótti mynd Katrínar Atladóttur hjá CCP Clever Riders bera mikinn metnað fyrir að hjóla bókstaflega inn í vinnuna og mynd Elínar Öddu Steinarsdóttur í liði Austurlands hjá Eflu með baksætisbílstjórana krúttlegu sýnir að það eru til flottar lausnir fyrir hjólalífstílinn.
Að lokum viljum við þakka öllum myndasmiðum, þátttakendum og liðstjórum fyrir að hafa gert Hjólað í vinnuna 2017 að skemmtilegu, sólríku og heilbrigðu keppnisátaki.
Hjólið sem mest og skynsamlegast og sjáumst hress að ári í Hjólað í vinnuna 2018!