Verðlaunaafhending Hjólað í vinnuna 2017 fór fram í dag

26. maí 2017

Verðlaunaafhending Hjólað í vinnuna 2017 fór fram í hádeginu í dag í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal að viðstöddum húsfylli.

Vel var mætt af verðlaunahöfum og velunnurum hjólreiða og var hvert sæti í skálanum ásetið. Að vanda voru góðar veitingar á boðstólunum og stóð gómsæta súpan vel undir nafnbótinni. Við þökkum höfðingjunum hjá Fjölskyldu- og húsdýragarðinum fyrir að taka ávallt vel á móti okkar með sinni gestrisni og kræsingum.

Hafsteinn Pálsson stjórnarmeðlimur Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ bauð gesti velkomna og gaf að því loknu orðið til Sesselju Traustadóttur, framkvæmdarstýru Hjólafærni. Sesselja flutti góða og gagnmerka tölu um hjólreiðar og veitti í kjölfarið viðurkenningar til þriggja fyrirtækja sem hlotið höfðu hjólavottun um hjólavænan vinnustað. Hlaut Reiknistofa bankanna gullvottun fyrir aðstöðu sína og hlutu Reykjalundur og Íbúðalánasjóður silfurvottun.

Því næst tók Hafsteinn aftur við orðinu og kynnti til leiks alla vinningshafa í liðstjóraleiknum og einnig þann þátttakanda sem var svo lukkulegur að hafa unnið stóra vinninginn í skráningarleiknum sem Trek Dual Sport götuhjól að verðmæti 100 þús.krónur. Fulltrúi frá Reiðhjólaverslunninni Erninum var á staðnum til að afhenda verðlaunin en öll verðlaun í skráningar- og liðsstjóraleiknum eru í boði Arnarins og þökkum við þeim kærlega fyrir þann rausnarskap.

Þá kynnti Hafsteinn alla verðlaunahafa í Hjólað í vinnuna þetta árið og honum til aðstoðar við úthlutun verðlaunaplattanna var Ása Ólafsdóttir, nýr stjórnarmeðlimur í Almenningsíþróttasvið ÍSÍ. Allir þeir verðlaunahafar sem voru hlutskarpastir í vinnustaðakeppninni og einnig kílómetrakeppninni fá glæsilegan verðlaunaplatta sem viðurkenningu fyrir sína frammistöðu.

Í byrjun næstu viku þá munum við birta fleiri myndir frá verðlaunaathöfninni og einnig tilkynna um síðustu vinningshafana í myndaleiknum okkar sem er í boði Nutcase á Íslandi.