Lokadagur Hjólað í vinnuna 2017 er í dag!
Lokadagur Hjólað í vinnuna 2017 er runninn upp og því um að gera fyrir þátttakendur að taka góðan hjólarúnt til og frá vinnu á síðasta ferðadegi keppninnar. Hjólaveðrið hefur verið með besta móti á keppnistímanum og dagurinn í dag er engin undantekning með mildu og hlýju veðri víðast hvar um landið. Því er síðasti möguleiki á góðri lokaskráningu fyrir sitt lið og sinn vinnustað en hámarksfjöldi keppnisdaga sem hægt er að skrá í ár eru 15 dagar. Þó verður hægt að ljúka við að skrá sínar ferðir þar til kl. 13:00 á morgun en að þeim tíma liðnum lokast á allar skráningar og lokaúrslit verða tekin saman og birt í heild sinni á hér heimasíðunni.
Verðlaunaafhending fer svo fram föstudaginn 26. maí kl. 12:10 í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal. Verðlaunahafar eru sérstaklega hvattir til að mæta en allir þátttakendur og áhugafólk um hjólreiðar eru hjartanlega velkomnir að hjóla við og þiggja ljúfenga súpu og nýbakað brauð með.
Til viðbótar við afhendingu verðlauna í öllum flokkum keppninnar verða veittar viðurkenningar fyrir hjólavæna vottun á vinnustöðum á vegum Hjólafærni og Dr. BÆK.
Allir vinningshafar í skráningar-, liðstjóra- og myndaleik verða svo birtir hér á heimasíðunni þegar niðurstöður liggja fyrir.