Næstsíðasti keppnisdagur og vinningshafar í skráningar- og myndaleik

22. maí 2017

Í dag er næstsíðasti keppnisdagurinn í Hjólað í vinnuna 2017 og línur farnar að skýrast í flestum keppnisflokkum. Enn er þó tími í dag og á morgun til að fara í góða hjólarúnta til og frá vinnu til þess að bæta við kílómetrafjölda síns liðs og vinnustaðar. Veðrið hentar vel til hjólreiða og því er um að gera að njóta sín á reiðfáknum.

Dregið var í skráningarleiknum síðustu tvo virka daga og voru vinningshafarnir tilkynntir í Popplandi á Rás 2. Þeir eru Theodór Carl Steinþórsson í liðinu Vodafone hjá Vodafone og Steinunn Friðgeirsdóttir í liðinu Team Turtles á vinnustaðnum Libra. Við óskum þeim hamingju með heppnina og hljóta þau hjólatösku og verkfærasett frá Reiðhjólaversluninni Örninn í verðlaun.

Þá var einnig dregið í myndaleiknum þar sem þeir keppendur sem deila með okkur myndum á Facebook og Instagram með #hjólaðívinnuna geta unnið til verðlauna. Sá heppni sem dreginn var út heitir Þórhallur Jónsson er hann í liði Snæfellsstofu á vinnustaðnum Vatnajökulsþjóðgarður og hlýtur hann flottan hjálm í vinning frá Nutcase á Íslandi. Sjá má myndina sem hann deildi hér hægra megin. Enn eru tveir vinningar eftir í myndaleiknum og því um að gera að vera með og bæta í myndasafnið af þeim mörgu frábæru myndum sem teknar hafa verið.