Hjólað í vinnuna 2017 hófst í morgun!
Hjólað í vinnuna var sett í 15.sinn í morgun með setningarhátíð í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum í Laugardal. Hafsteinn Pálsson, formaður Almenningsíþróttasviðs ÍSÍ, Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra, Líf Magneudóttir forseti borgarstjórnar og Steinn Ármann Magnússon leikari og hjólreiðakappi fluttu hvatningarávörp áður en þau hjóluðu af stað ásamt öðrum gestum til að hefja verkefnið með táknrænum hætti. Veðurguðirnir voru með á nótunum og hjólaveðrið var mjög gott í morgun og ku fara batnandi á næstu dögum samkvæmt veðurspám.
Hægt er að skoða myndir frá setningarhátíðinni í morgun hér á myndavef ÍSÍ og á Facebook-síðu Hjólað í vinnuna má skoða myndbönd frá athöfninni sem var í beinni útsendingu á netinu.
Þátttakendum er bent á að hægt er að nota Strava eða Runkeeper til að halda utan um sínar vegalengdir og hlaða upplýsingunum beint inn í skráningarkerfið. Þá er vert að benda á að hjólaðar vegalengdir til og frá vinnu er ekki eingöngu það sem má skrá í keppninni heldur telst allur virkur ferðamáti með eins og ganga, hlaup, hjólabretti, línuskautar og strætó. Hægt er kynna sér reglurnar hérna á heimasíðunni.
Við minnum alla þátttakendur á skráningarleikinn og liðstjóraleikinn þar sem reiðhjólaverslunin Örninn gefur góða vinninga og myndaleikinn í boði Nutcase á Íslandi. Nú í morgun var fyrsti heppni þátttakandinn dreginn út og er það Pétur Ingi Sveinbjörnsson í liði B5-Hafnadeild hjá Vegagerðinni sem hlýtur tösku og viðgerðarsett frá Erninum í vinning.