Hjólað í Háskólann 2017

15. mars 2017

Almenningsíþróttasvið ÍSÍ og umhverfis- og samgöngunefnd Stúdentaráðs Háskóla Íslands munu leiða saman reiðhesta sína í sameiginlegu hjólreiðaátaki nemenda HÍ dagana 31.mars-7.apríl 2017. Hin hefðbundna keppni Hjólað í vinnuna er ávallt haldin í byrjun maí á ári hverju en sá tími er venjulega mikill álagstími fyrir háskólanema vegna vorprófa og hafa þeir oft átt erfitt með að ná fullri þátttöku sökum þess.

Hjólað í Háskólann byrjaði árið 2010 sem samfélagsverkefni fimm nemenda í Umhverfis- og byggingaverkfræðideild en færðist síðar meir undir Umhverfis- og samgöngunefnd SHÍ. Fyrirmyndin er átak ÍSÍ um Hjólað í vinnuna þar sem lögð er áhersla á fýsileika reiðhjólsins sem heilsusamlegs, umhverfisvæns og hagkvæms samgöngumáta. Enn fremur er átakinu og keppninni ætlað að styrkja jákvætt og heilbrigt félagslíf í Háskóla Íslands.

Góður grundvöllur var því fyrir samstarfi ÍSÍ og SHÍ á þeim nótum að tölvu- og skráningarkerfi heimasíðunnar Hjólað í vinnuna verður notað undir keppnina Hjólað í Háskólann 2017. Vonandi bregður engum í brún við að sjá hjólaskráningar stúdenta hér á síðunni í ótta um að þeir séu að missa af lestinni þetta árið. Til að taka af allan vafa þá hefst Hjólað í vinnuna á sínum tíma þann 3.maí og stendur til 23.maí en áður en að því kemur munu háskólanemar hita upp með sínu eigin hjólreiðaátaki.