Setningarhátíð Hjólað í vinnuna 2024

08. maí 2024

Setningarhátíð Hjólað í vinnuna 2024 fór fram nú í morgun á veitingahúsinu Á Bístró í Elliðaárdal

Á dagskrá voru hressileg hvatningarávörp góðra gesta.
Þórey Edda Elísdóttir, 1. varaforseti ÍSÍ bauð gesti velkomna og sagði stuttlega frá verkefninu og þróun þess. Að því loknu tóku Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, Einar Þorsteinsson borgarstjóri Reykjavíkur, Alma Möller, landlæknir, Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar og Bjartur Guðmundsson til máls. Öll voru þau sammála um mikilvægi verkefnisins og hvöttu þau öll landsmenn til að velja þennan umhverfisvæna, hagkvæma og heilsusamlega ferðamáta.

Willum Þór Þórsson, heilbrigðisráðherra, talaði um hvað virkur ferðamáti eins og hjólreiðar væri nauðsynlegur lífstíll sem vinnur gegn loftlagsvánni. Hjólreiðar séu einnig frábær hreyfing fyrir líkamlega og andlega heilsu og tækifæri til að efla forvarnir. Hjólað í vinnuna og önnur almenningsíþróttaverkefni séu ómælanleg verðmæti í forvörnum og góð fyrir heilbrigðiskerfið.

Alma Möller, landlæknir. minnti fólk á það hvað hreyfing hefur góð áhrif á kvíða og þunglyndi og svefnin verður betri. Ef fullorðnir hreyfa sig 30 mínútur á dag geti það dregið úr ýmsum sjúkdómum, eins og hjarta og æðasjúkdómum og einhverjum tegundum af krabbameini. Að temja sér virkan ferðamáta er bæði gott fyrir heilsu og umhverfið. Samkvæmt tölfræði embætti landlæknis eru um 17% íbúa á Íslandi sem nota virkan ferðamáta, þarna er klárlega rými til bætingar.

Einar Þorsteinsson, borgarstjóri í Reykjavík, segir svona verkefni skipta borgina miklu máli. Borgin sé búin að leggja mikla vinnu í betri hjólastíga sem leiði til aukinnar og betri hjólreiðamenningar. Í dag eru 40km af hjólastígum og hjólaumferðin aukist stöðugy frá ári til árs og það skipti máli fyrir lýðheilsu. Það eru hagsmunir borgarinnar að halda fólki heilbrigðu og vildi leggja áherslu á að hjólreiðar væru fyrir alla.

Sigrún Ágústsdóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, vildi koma á framfæri að hjólreiðafólk veldi nærandi og grænar leiðir og stíga til og frá vinnu og minnti á að það eru nokkur friðlýst svæði í og í kringum höfuðborgina. Hún var virkilega ánægð með átakið Hjólað í vinnuna því það væri góður grunnur til að byrja og halda áfram að hjóla inn í sumarið.

Bjartur Guðmundsson, markþjálfi og peppari, hvatti gesti og ræddi hvað hugarfarið og líðan fólks getur verið stór hindrun í hreyfingu og í því að nota virkan ferðamáta. Við erum stundum alltof góð í að koma með afsakanir, en það sé nauðsynlegt að setja kassann út, temja sér jákvætt hugarfar og nota virkan ferðamáta ef það er hægt, það borgi sig alltaf. 

Þegar allir höfðu lokið máli var farið út og átakið hjólað af stað.

ÍSÍ þakkar gestum og þátttakendum fyrir komuna og segjum Hjólað í vinnuna hafið í 22. skiptið!

Hér má sjá fleiri myndir af setningunni í morgun.

Gangi ykkur vel en farið varlega.

 


Myndir með frétt