• Okkur langar til að þakka fyrir þetta frábæra framtak, Hjólað í vinnuna.
    Við erum starfsfólk Heilsugæslunnar í Árbæ sem er ca 30 manna vinnustaður og hluti af Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. Í gegnum tíðina hefur ekki verið mikill áhugi fyrir viðburðum hjá starfsmönnum hér í Árbæ og menn mjög sjálfum sér nógir með síkt. Í fyrra skoraði liðstjóri stjórnsýslu Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins á okkur að taka þátt en ég sló það af um leið. Það mundi enginn nenna því í Árbænum. Ekki skal maður segja svona fyrirfram því annað kom í ljós í ár.
    Sólardaginn miðvikudaginn 6. maí þegar Hjólað í vinnuna byrjaði kom í ljós að starfsmaður hafði mætt á hjóli og annar gangandi og sólin skein og allir voru til í eitthvað - ég sjálf gat ekki verið með því ég er með bílasamning og þarf að keyra í vitjanir o.fl. Ég sá að það var bara afsökun - ég gat bara skilið bílinn eftir í vinnunni. Þannig varð það til að það er engin afsökun fyrir að hjóla/ganga ekki nema bara að " Nenna ekki".
    Þegar ég var að skrá liðið kom allt í einu upp melding "Ekki má skrá fleiri en 10 í lið". Og þá var ekki um annað að ræða en að búa til 2 lið. Þegar allt var talið voru komnir 8 í hvort lið. Þetta er búið að vera svo skemmtilegt og fólk kemur mun meira brosandi í vinnuna þessar vikurnar- Allri sem koma hjólandi / Gangandi koma brosandi.
    Mesti sigurinn hjá okkur hingað til er hjá konu á sextugsaldri sem hefur ekki hjólað síðan um fermingu. Hún fékk lánað hjól til að prufa og er þvílíkt dugleg. Það var ansi erfitt í beygjunum - hún fer stundum of hægt í þær. Hún hefur dottið 4 sinnum og hjálmurinn er búin að sanna sig. En þetta er allt að koma og nýi hjólarinn okkar ætlar ekki að gefast upp heldur fer henni heilmikið fram.

    kv. Jóhanna Eiríksdóttir liðstjóri liðsins Árbær hjá heilsugæslunni
  • Þetta er ekkert nema gott og gaman að hjóla í vinnuna
    Þetta er búið að vera hrikalega gott fyrir okkur. Þetta er búið að gera okkur svo kraftmiklar að við í vinnunni höfum farið á Esjuna og stenfum á það að fara aftur í næsta mánuði. Sumar af okkur eru líka byrjaðar að synda eins og brálæðingar í sundi marga metra. Ein af okkur er búin að vera að hjóla allt árið, fer bara á nagladekk þegar það er hálka. Þetta er ekkert nema gott og gaman að hjóla í vinnuna.

    Spakó Stelpur
  • Bara gaman og gott fyrir þolið
    Ég er ein úr Íþróttahúsi Háskóla Íslands að hjóla. Fór 13 km úr Hafnarfirði í svakaroki, ekki var það betra heim, mótvindur og stundum var það ekki stætt, maður varð að labba með hjólið en þetta tókst á 1 tíma og 40 mín, en bara gaman gott fyrir þolið.

    Soffía Kristinsdóttir, Íþróttahúsi Háskólans
  • Það hefur gengið misvel hjá okkur, aðallega sökum veðurs.
    Einn liðsmaður hefur verið sérstaklega duglegur að fórna sér. Hann býr 2 km frá vinnustaðnum og tekur því alltaf á sig aukakrók til að ná lágmarkinu. Í þessari viku lét hann sig hafa þetta í þrjú skipti þrátt fyrir hífandi rok. Annar liðsmaður hefur farið næstum á hverjum degi þrátt fyrir að búa í talsverði fjarlægð frá vinnunni og er búinn að hjóla eitthvað á annað hundrað km. Enn annar liðsmaður hefur farið 3 af hverjum 4 dögum á línuskautum.

    kv. Ingólfur Kr. Magnússon liðsmaður hjá Sjúkratryggingafélagi Íslands
  • Liðið mitt er frábært.
    Við höfum meirihlutann af vöskum konum sem ganga eða hjóla rösklega til vinnu og heim dag hvern. Einn karlmaður hefur bæst í hópinn núna í dag. Sumir fara meiri króka og "útúrdúra" á leið til eða frá vinnu, allt fyrir liðsheildina. Mér finnst vanta að gera gangandi átakinu hærra undir höfði ! Þau eru alveg frábær og við myndum ekki standa þar sem við erum ef ekki væri fyrir þau sem strunsa ! Hér er smá vísa, í von um að við fáum verðlaun:

    Að ganga til vinnu gjöfult tel
    gefur það góða punkta í keppni
    hjólandi liðsmenn hressa ég vel
    hreppum við verðlaun ? - (það tel ég heppni).

    Stella Aðalsteinsdóttir
    liðsstjóri Auðugust hjá Umhverfisstofnun
  • Þessi vísa kemur frá Tryggva Má, liðsstjóra í Megingjörðum, Hagaskóla.
    "Sem gömlum norðanmanni finnst mér oft ganga hægt að hjóla á móti þessu eilífðarfreti hérna fyrir sunnan en... "

    að hjól'á móti er mikið puð
    magnast fetlatakið
    svo er reyndar rokna stuð
    rok að fá'í bakið

    Kveðja
    Tryggvi Már, liðsstjóri í Megingjörðum, Hagaskóla.
  • Dofri Hermannsson var fljótur að svara. Hér kemur vísan hans:
    Hve norðanmenn þeir monta sig
    er mest af gleymsku og blindu.
    Lognið það var þrettán stig
    er þakið fauk af Lindu.
  • Rokreynslusaga úr Breiðholtinu
    Úfff, þokkalegt veður í dag! Ég var búin að ákveða með sjálfri mér í gær að hjóla aðeins lengri leið til vinnu í morgunsárið. Ég dreymdi meira að segja fuglasöng, sól og blíðu og sá sjálfa mig fyrir mér þar sem ég hjólaði innan um blóm og grös. Leiðin sem ég ætlaði að hjóla er ekki nema 5 km löng og liggur um efsta hluta Elliðaárdalsins, upp Víðidalinn Breiðholtsmeginn og það skemmtilegasta, þarna er uppáhaldshólabrekkan mín. Ok ég hef oft hjólað þessa leið og skítt með vindinn, ég hef það nú af, fer létt með það!! Hugsaði ég galvösk áður en ég lagði af stað. (Þrátt fyrir að hafa hlustað með öðru eyranu í Kára kallinn í alla nótt). En það byrjaði nú ekki vel. Ég fauk nánast af hjólinu fyrir utan húsið mitt. Uss, hugsaði ég, ég fer nú ekki að láta þetta rok hafa af mér hjólatúrinn sem ég var búin að ákveða með sjálfri mér að taka. Svo leið mín lá niður í Elliðaárdalinn þar sem strekkingsvindur tók fagnandi á móti mér og ég þurfti að stilla hjólið í 80° halla... Uss hvaða hvaða, þetta lagast örugglega... Þegar ég fæ vindinn í bakið. En það bara lagaðist ekki. Á löturhraða, með vindinn í fangið og ég verð að segja að barnastóllinn sem er aftan á hjólinu varð verulega þungur baggi. Já ekki gat ég skilið hann eftir heima þar sem yngsti meðlimurinn (15 kg) fær hjólatúr heim úr leikskóla á hverjum degi:) Brekkan efst í Viðidalnum sem liggur niður úr Breiðholtinu og niður að Elliðaánum hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Þar er nefnilega hægt að ná svo flottum hraða :) EN sorglegt fyrir mig, ég þurfti að stíga hjólið til að hafa hana.... NIÐUR! Úff. Vá klukkan var líka að verða 08:00 og þar sem ég er kennari þarf ég að mæta til vinnu á tilsettum tíma. Mér var því nauðugur einn kosturinn að STÍGA hjólið eins og ég gat til að ná til vinnu á þessum 10 mín. sem eftir voru..... ég vona að enginn hafi séð til mín... en ég hef á tilfinningunni að sjónin hafi ekki verið neitt sérstaklega tignarleg fyrir mig.... ;)

    Mér finnst ég samt vera "vinner" :) ég hjólaði þennan hring sem ég var búin að ákveða, komst heil á áfangastað á réttum tíma og uppskar bara heilmikið hrós fyrir :) Ég var heldur ekki sú eina sem hjólaði, það börðust fleiri samstarfsfélagar við Kára og standa því í sömu sporum og ég :) Við erum því öll sigurvegarar og þeir voru fleiri hér sem tóku aukahringi fyrir vinnu þrátt fyrir rokið, sandrokið, tárin, nefrennslið og aumu lærvöðvana :)

    Bestu hjólakveðjur
    Sofia Selásgarpur
  • Öflugt hjólreiðafólk úr Flensborg láta vindinn ekki stöðva sig þrátt fyrir nokkrar "flugferðir"
    Við hér í Flensborg erum með mjög öfluga og kraftmikla konu í okkar liði sem hvetur okkur hin til dáða og vílar ekki fyrir sér að hjóla af Seltjarnarnesinu og hingað í Hafnarfjörðinn. Hún tekur jafnvel smá krók út á Álftanes í leiðinni – enda er þetta nú ekki mikið mál þar sem hún situr bara á hjólinu… að hennar sögn!! Hún er meir að segja svo dásamlega að bjóðast til að koma með meðlæti með morgunkaffinu í Hafnarfjörðinn þó hún eigi ekki að mæta í vinnuna þann dag – það frestaðist reyndar vegna veðurs líkt og opna kaffihúsið.

    Í rokinu í gær voru nokkrir sem tóku smá ,, flug“ og fljóta hér tvær sögur úr fluginu sem komu á hvatningapóstlista okkar Flensborgara.

    Flugsaga 1: Sigurbjörg (þessi orkubolti af Seltjarnarnesinu) ákvað að hjóla nú eftir hádegi út í Hafnarfjörð og dútla eitthvað í skólanum. En þar sem hún er stödd á Nesveginum í hávaðaroki tekst Frú Sigurbjörg skyndilega á loft og flýgur með hjólið milli lappanna út á miðja götu en lendir þó standandi (á dekkjunum). Sem betur fer átti enginn jeppi (margir hér á Nesinu) leið hjá. En það skipti engum togum, Sigurbjörg hætti við förina út í Hafnarfjörð, sneri heim og fékk sér te.

    Flugsaga 2: Eftir að hafa farið á góða æfingu í Hress á Völlunum settist ég aftur á fákinn með vagn í eftirdragi og þar ofan í var þung æfingataska - sem betur fer ekki barn með í för því er ég var rétt búin að berjast áfram 1 km þá fauk allt heila klabbið á hliðina og ég endaði nánast úti á götu!! En mín hélt nú áfram þrátt fyrir að góðlegir bílstjórar biðu fram aðstoð sína - í vinnuna skyldi hjólað :) Farið því varlega í dag og aðra daga þegar veðurguðirnir láta móðann mása :)

    Með hjólakveðju - Bryndís Jóna Jónsdóttir
  • Fyrsti dagur í Hjólað í vinnuna hjá Selásskóla.
    Mikið var gaman að mæta til vinnu í morgun (það er það reyndar alltaf, en það var sérlega létt yfir fólkinu í morgun!). Sól, blíða, fuglasöngur, sveittir hjólreiðakappar og börn á leið í skóla. Hjá okkur eru skráðir 20 þátttakendur á öllum aldri af 43 starfsmönnum skólans. Það er frábært! Við erum himinlifandi yfir þessu. Við hjólum og göngum í vinnuna. Stemningin er flott og umræðan á kaffistofunni snýst um hjálma, hjólin, hraðamæla, vegalengdir og tilvonandi flotta glæsirass- og lærvöðva!.... úúúú :) Mikil áform eru um að vinna „hitt“ liðið og mikill samhugur er í fólki. Reyndar er samhugurinn á milli liða líka, sem er frábært!! Umræður um skemmtilegar leiðir til og frá vinnu, hvernig er hægt að lengja leiðina og hvaða brekkur séu skemmtilegastar. Þar kemur hraðamælirinn sterkur inn! Svo eru það gallarnir. Þeir eru nú sér kapituli út af yfir sig ;) Kaffistofuumræðurnar snúast því ekki um kennsluaðferðir í stærðfræði, heldur um það hver fær flottasta rassvöðvann ;)
    Frábært framtak að koma sér í vinnuna á eigin orku. Það er svo sannarlega gott að hlaða rafhlöðurnar í upphafi og lok vinnudags með góðum hjólreiðatúr!

    Bestu kveðjur; Selásgarparnir!
  • Úrsúla Junemann sendi okkur þessar línur
    Dásamlegt er að vakna og leggja af stað í vinnu. Maður mætir með rauða kinna og úfið hár, púlsinn aðeins hækkaður, eldhress og glaðvakandi. Fuglasöngurinn hljómar ennþá í eyrunum og vorlyktin frá nýútsprungnum aspartrjám er í fersku minni.

    Úrsúla Junemann Varmárskóla
  • Finnur Sigurðsson hjá Nýherja sendi okkur góð ráð og hvatningu.
    Ég heiti Finnur og er liðstjóri HjólNý hjá Nýherja. Þetta er fjórða sumarið sem ég hjóla í vinnuna, hjólaði reyndar í vetur líka eftir að ég eignaðist nagladekk. Ég byrjaði að hjóla með það fyrir augum að spara eldsneyti á bílinn, var pínu erfitt fyrst en kom svo í ljós að þetta er ekki mikið mál og satt að segja finnst mér mjög gaman að hjóla. Það er orðið þannig að það að spara eldsneyti er ekki ástæðan lengur, miklu frekar hvað þetta er skemmtilegt og heilsan betri. Lóðalyftingar í tækjum eða leikfimi í heilsuræktarstöðvum hafa aldrei heillað mig, en útivera með góðri hreyfingu passar miklu betur.

    Þegar ég byrjaði var vegalengdin á dag 21km fram og til baka, var þá að fara frá Grafarholti í Borgartún. Nú erum við í söludeild Nýherja flutt í Urðarhvarf í Kópavogi svo þetta er aðeins 11km núna, bara auðvelt og skemmtilegt.
    Ég hef lært margt síðan ég byrjaði að hjóla í vinnuna, hér eru nokkur dæmi:

    1.) Alltaf hjóla með lokaðan munninn á sumrin! Flugur eru ekki góðar á bragðið.

    2.) Ekki fara yfir götu fyrr en bíllinn er farinn framhjá! Þó þú horfir beint í augu bílstjórans og hann horfir á þig, er ekki víst að hann sjái þig.

    3.) Hallærislega grænt buff sem 8ára dóttir mín á hættir alveg að vera hallærislegt á höfðinu á mér þegar það er frost og kalt!!

    4.) Skegg er góð "Veðurkápa" á veturna.

    Ég náði að draga saman 10 manna hóp fyrir átakið núna, sumir vildu gjarna taka þátt en aðra þurfti að beita fortölum, en merkilegt nokk allir hafa að amk hjólað einu sinni eða ætla allavega. Þetta bara skemmtilegt !!

    Kveðja,
    Finnur Sigurðsson
    liðstjóri HjólNý hjá Nýherja
  • Skemmtisaga af liðsmanni í liðinu Gleðileg hjól frá Borgarholtsskóla
    Hún kemur frá yndislegum frönskukennara sem heitir Eva og er dásamlega hlý og frönsk og með henni viljum við í Borgarholtsskóla benda fólki á nauðsyn hjálmanotkunar.
    Eva hjólaði í vinnuna í gærmorgun, alsæl í morgunsárið, tók krókaleið til að njóta ferðarinnar enn meira og safna kílómetrum, hlustaði á fuglasöng og brosti til allra sem hún hitti. Þegar hún kom upp í skóla kyssti hún og knúsaði alla fallegustu karlkennarana en tók þá eftir að fólk var farið að hlæja að henni. Loks gat ein samstarfskonan ekki orða bundist og spurði:"Eva mín, hvað ertu með í hárinu?" Kom þá í ljós að hún var með stóra fuglaskítsklessu í hárinu.
    Vesalings Eva fékk engan samúð en í staðinn uppskar hún hlátur og athugasemdir eins og " Svona gerist þegar maður notar ekki hjálm"

    Kv.
    Ásta Laufey, Borgarholtsskóla
  • Góð hvatning frá fyrirtækinu Samey
    Við hér hjá Samey ákváðum að reyna að fá fleiri starfsmenn með í átakið í ár og útbjuggum því hvatningarkörfu. Dregið verður um körfuna af þeim sem taka í það minnsta einu sinni þátt í átakinu og til mikils er að vinna. Við hlökkum til að hitta aðra þátttakendur á hjólreiðastígum höfuðborgarsvæðisins, kveðja Brekkupuðararnir.

    kv. Linda Björk Jóhannsdóttir, Samey
  • Sigríður Hrefna Pálsdóttir Liðstjóri Speedy Gonzales hjá Þekkingu hf. (hjólaði í morgun úr Innbænum upp í HA á 2 gíra 20 ára DBS hjólinu sínu) og sendi þessar skemmtilegu línur.
    Afsakið, ég er aðeins of sein í vinnuna.
    Afsakið, ég mæti rennandi sveitt í vinnuna.
    Afsakið, maskarinn lekur niður á kinnina,
    en það voru brekkur, slydda og mótvindur á leiðinni í vinnuna
    og AUÐVITAÐ var HJÓLAÐ Í VINNUNA
  • Frábær keppni og hvatnig fyrir alla að hjóla í allt sumar.
    Það er skemmtileg keppni í Hjólað í vinnuna. Það byrjaði nýr starfsmaður hjá mér í byrjun maí þannig að hún gleymdist við skráningu liðsins og var bætt við daginn eftir. Þar með var fjöldi starfsmanna rangur fyrstu dagana, þetta leiðréttist greinilega ekki sjálfkrafa.Við fengum samt nokkuð harðort bréf frá öðru liði um að við værum með ranga skráningu og því ekkert að marka kílómetrafjöldann. Við höfðum gaman af og hjóluðum tvöfalt meira næsta dag. Þá varð til þessi vísa:

    Viltu ekki vinurinn

    vera bara góður.

    Ef þaninn verður þinurinn

    þungur verður róður.

    Halldór G Halldórsson liðsstjóri endajaxlanna
  • Hann er dauður en Bubbi er á lífi
    Ég hef tekið þátt í átakinu hjólað í vinnuna undanfarið og verið samviskusamur að hjóla í vinnuna. Þetta er hin besta líkamsrækt og skemmtun og svo eykur þetta samheldnina á vinnustaðnum. Á mínum vinnustað eru tvö lið sem keppa og vart má sjá hvort liðið er duglegra að hjóla. Síðasta vika var okkur erfið enda rokið ótrúlega mikið en ekki létum við það stoppa okkur.

    Þetta ágæta framtak skerpir vel á liðsheildinni og sem dæmi um það þá fór ég í magaspeglun í gær fyrir hádegi. Ekkert alvarlegt í gangi bara smá tékk á karlinum. Í tengslum við þessa speglum fær maður lyf þannig að maður má ekki aka neinu farartæki næstu sex tímana. Konan skutlaði mér á spítalann og eftir speglunina labbaði ég í vinnuna. Liðsfélagar mínir voru nú allir glaðir að sjá mig heilan en það var haft á orði að ekki hefði ég skilað mörgum kílómetrum í dag. Þegar sex tímar voru liðnir frá lyfjatökunni var mér skutlað heim og bent á að ekkert væri til fyrirstöðu að hjóla í vinnuna. Þetta var bara hressandi enda veðrið yndislegt. Á leiðinni heim úr vinunni hjólaði ég fram á unga drengi í Fossvogi sem stóðu yfir félaga sínum sem lá hreyfingarlaus á grúfu á jörðinni. Ég spurði þá vort eitthvað væri að. „Hann er dauður“ sagði einn drengjanna. Mér brá nú aðeins við þessi svör og stökk af hjólinu og hugaði að dregnum sem lá á jörðinni. Ég komst strax að því að hann var ekki dauður því ég heyrði hann gráta. Það var ákveðinn léttir. Ég skoðaði drenginn hátt og lágt og komst fljótt að því að hann var alveg heill og það var ekki síst að þakka hjálminum sem hann bar á höfðinu. Drengurinn hafði skollið í götuna þegar hann rakst á félaga sinn sem einnig var á hjóli og var í miklu áfalli. Ég kom drengnum á lappir og fullvissaði mig, hann og félagana um að allt væri í þessu fína lagi. Ég hrósaði þeim félögum sérstaklega fyrir að vera með hjálma á höfðinu og benti þeim á að hér hefði geta farið illa ef félagi þeirra hefði ekki verið með hjálm. Að þessu sögðu kvöddumst við og héldum áfram okkar ferðum. Ég var með hjálm á höfði eins og alltaf þegar ég hjóla og því ágætis fyrirmynd fyrir þessa ungu drengi.

    Ég hef alltaf verið mikill talsmaður hjálmanotkunar og trúi því að það sé heilbrigð skynsemi að nota hjálm, svona svipað og að nota öryggisbelti í bíl. Flestir sem ég mæti á ferðum mínum hjólandi eru með hjálm en mér sýnist að unglingar og eldri reiðhjólamenn séu þeir hópar sem noti þá síst. Rætt hefur verið um það hvort lögleiða eigi notkun reiðhjólahjálma og sýnist sitt hverjum. Ég er allavega mjög hamingjusamur að konan mín og Bubbi Morteins skildu sýna heilbrigða skynsemi og nota hjálma því þau eiga það sameiginlegt að hafa dottið á hjóli þar sem hjálmurinn bjargaði þeim báðum frá alvarlegu slysi. Ef það þarf að lögleiða hjálmnotkun til að bjarga fleira fólki frá alvarlegum slysum, eins og í tilfelli elskulegu eiginkonu minnar og Bubba kóngs, þá er ég því fylgjandi því ekki er bara hægt að treysta á heilbrigða skynsemi í þessum málum. Notum hausinn, notum hjálm.

    Spaði númer 5 - Vinnustaður; Slysavarnafélagið Landsbjörg
  • Um að gera að skella sér á hlaupahjólið.
    Einn af starfsmönnum Leikskólans í Stykkishólmi lét ekkert stoppa sig í að taka þátt í "hjólað í vinnuna". Hún lagði af stað í vinnuna á sínu "svaka fjallahjóli" ásamt 5 ára dóttur sinni, en tók samt með sér skiptilykil ef pedallinn myndi detta af, en það hafði gerst áður. Svo auðvitað gerist það þegar hún hafði hjólað ca. 500 metra að pedallinn datt af og henni tókst ekki að koma honum á aftur. Þannig að hún sneri við heim og sér þá hlaupahjól eldri dóttur sinnar standa upp við húsvegginn. Í öllum flýtinum (var að verða of sein í vinnuna) grípur hún hlaupahjólið og brunar af stað aftur. Síðan hefur hún komið hjólandi á hlaupahjólinu alla dagana alsæl og finnst hún vera ung aftur, (sennilega búin að leggja hlaupahjólinu).

    Kv. Magðalena leikskólanum í Stykkishólmi
  • Viðar Sigurjónsson er ekki hættur og svara um hæl
    Reyndist allt með ró og spekt,
    er reif í þakið sýndist mér,
    eitthvað sem var lygilegt,
    lognið var að flýta sér!
  • Svakalega hressandi svona hjóla túrar :)
    Jæja, dagurinn að vera búinn, andvarpa, búin með erilsama vakt. Fer úr blessuðum sjúkrahúsfötunum í léttar buxur, peysu og strigaskó. Hvernig er það með regngallan er hann orðinn þurr síðan í morgunn, jájá þetta sleppur. Guli fákurinn bíður fyrir utan, spenntur að komast heim aftur. Bruna að stað, úff rokið, sem betur fer er þó hætt að rigna. Rokið í bakið á leiðinni heim og það er niður í móti. Ansi er þetta ljúft og hressandi, nýt hraðans í botn, Kári í fullri vinnu við að ýta mér og ég þarf ekki að hafa fyrir neinu. Kræki fyrir ljósastaur, í sama bili kemur vindhviða munar engu að mér sé feikt á staurinn, Kári greinilega eitthvað að gefa í skyn. Stoppa svo á gatnamótum, vá þarf að halda við hjólið best að fjúka ekki yfir götuna. Rýk af stað aftur, næ hraðameti meðfram nýju Hringbrautinni. Skila mér heim, stíg af hjólinu, öll þreyta og erill fokinn út í veður og vind.

    Sigrún Guðný Pétursdóttir í Slysó –liðinu frá Landspítalanum.
  • Sigríður Valgerður Finnsdóttir frá Actavis svaraði fyrir suðurhornið með þessari skemmtilegu vísu.
    Í rokinu við rembumst hér
    og rennblaut dugnað sýnum
    í sól og blíðu einfalt er
    að aka hjólum fínum
  • Fengum þessa vísu senda úr blíðunni fyrir norðan frá starfsmanni ÍSÍ á Akureyri, Viðari Sigurjónssyni.
    Vatnsveður og fjaðrafok
    fer að taka völdin.
    Höfuðborgarrassgatsrok
    reif í kaffitjöldin.

    Skorum við á þátttakendur Hjólað í vinnuna út um allt land að svara Viðari.
  • Hættulegt að hjóla ekki alla leið :-)
    Það er ekki auðhlaupið að því að vera í alvöru liði í „Hjólað í vinnuna“. Þegar maður sér það að liðsfélagarnir láta ekkert stoppa sig, getur maður ekki verið minni maður en þeir (þó kona sé). Ég lagði því af stað úr Borgartúninu í gær og ferðinni var heitið í Hafnarfjörð.

    Eftir að hafa misst hjólið einu sinni undan mér í vindhviðu, kyrrstæð á gatnamótum... fannst mér ástæða til að láta sækja mig.

    Ég var því komin hálfa leið þegar ég var dregin að landi og keyrð heim. Þegar heim kom þurfti auðvitað að koma hjólinu í hjólageymsluna. Mér fannst nú asnalegt að leiða hjólið hringinn í kringum húsið til að koma því inn, svo ég settist á bak. Ég var rétt komin á góðan skrið niður brekkuna meðfram húsinu þegar vindhviða koma skyndilega og skellti mér eins og tindáta um koll. Frekar neyðarlegt....... Búin að láta sækja mig inn í Kópavog..... til að forða slysum... og ná svo að slasa sig 20 metrum frá útihurðinni!!!!

    Í morgun ákvað ég svo að leggja í hann aftur þó ég hafi verið svolítið löskuð eftir byltuna í gær. Hafði mig alla leið í vinnuna... ýmist með vindinn á hlið eða í bakið... en hef ekki gert upp við mig hvort ég fer heim á hjólinu. Vandamálið er... að það er mikið hættulegra að láta sækja sig en að hjóla alla leið!

    Kv. Hulda Ragnheiður í Ferðalöngunum í Kaupþingi
  • Lára Ág. Ólafsdóttir sendi okkur þetta úr blíðunni fyrir norðan.
    Nú þegar maður les um rok á suðvesturhorninu, tjöld að fjúka um koll og ekki hægt að úða í sig góðgæti frá Ávaxtabílnum þá rifjast upp sagan af henni Hólmfríði. Það var hérna fyrir helgi, þegar veðrið var ískalt hérna fyrir norðan og úrkoman var einhvers staðar milli þess að vera snjókoma og slydda, þá hjólaði Hólmfríður í vinnuna. Hún lét veðrið ekki á sig fá enda sönn keppnismanneskja og sterkur liðsmaður í liðinu ,,Svarti hesturinn". Þar sem veðrið var ekki sem best klæddi hún sig vel, fór í svarta og mikla regnkápu og setti stóran flókahatt á höfuðið. Hatturinn var nátt'lega það stór að hann náði yfir hjálminn og niður á axlir. Hattinn þurfti hún svo að tjóðra vel niður enda hætta á að hann færi af í næstu roku. Til að sjá minnti hún helst á miðaldanorn, nema þá var ekki búið að finna upp reiðhjólið. Þar sem Hólmfríður hjólaði áleiðis í vinnuna kemur hún að hópi töffara sem stóðu á götuhorni. Sumir voru á stuttermabolum og líklegir til afreka í götuhlaupi. Nema hvað, einum þeirra bregður hrikalega þegar Hólmfríður kemur á fartinu og spyr í fátinu: ,,Hvað er nú þetta eiginlega?" Annar varð fyrir svörum: ,,Þetta er kúl kjelling".

    Bestu kveðjur úr sunnanáttinni á Akureyri. Lára.
  • Tour de Alcoa hjá Nobburum
    Hópurinn Nobbara hjá Alcoa Fjarðaál hjólaði í morgun frá Neskaupstað, yfir Oddsskarð, niður í Eskifjörð, yfir Hólmaháls og í álver Fjarðaáls í Reyðarfirði alls um 40 km vegalengd sem liggur yfir einn af hærri fjallvegum landsins. Hérna kemur smá ferðasaga. Lagt var að stað frá sundlaug Neskaupstaðar í blíðskapar veðri kl 05:00 að morgni dags þriðjudaginn 12. maí. 10 manns mættu galvaskir og klárir í Tour de Alcoa, sem er um 40 km leið sem meðal annars liggur yfir Oddsskarð, einn af hærri fjallvegum landsins. Það var hjólað rólega inn norðfjarðarsveit, en eftir 30 minútur á hjólunum tók við fyrsta brekkan, og hún entist nánast alla leið upp að oddsskarðsgöngum eða í um 9 km. Á þessari leið upp var mikið tekið á því, dekk sprakk, morgunmatnum var skilað í einu tilviki og mótvindurinn hélt bara áfram að blása, alveg sama hvað við tautuðum og rauluðum. En upp hafðist það eftir 1 klst og 40 mínútur frá brottför fyrir fyrstu menn og var því mikið fangað, því eftir góða pásu tók við bráðskemmtileg niðurkeyrsla alla leið niður í Eskifjörð. En Adam var ekki lengi í paradís, því þegar niðurkeyrslunni var lokið tók við Hólmahálsinn, sem aldrei hefur verið jafn langur og brattur og í dag að mati hjóla garpanna. Síðustu kraftarnir voru kreystir úr lærum, sársaukinn eftir hnakkinn var bitinn í sig og upp fóru allir menn. Þá tók við önnur niðurkeyrsla og nú blasti álver Fjarðaáls við og 2 klst og 50 min frá brottför komu þreyttir, en glaðir Nobbarar í vinnuna. Hjólunum var komið fyrir á kerru, því ekki treystu menn sér í að hjóla tilbaka svona í fyrstu tilraun, en hver veit, kannski verður það gert næst.

    F.h Nobbara,
    Matthías Haraldsson
  • Saga frá Skólaeldhúsinu – Team 2009
    Þó við séum aðeins fjögur að keppa fyrir hönd Skólamatar þá er mikill metnaður í að standa okkur vel og ná góðri hreyfingu út úr þessu öllu saman. Um leið og skráð hafði verið í liðið var farið heim og pumpað í dekk, hert á bremsum og keðjur smurðar. Tveir í liðinu voru nú þegar byrjaðir í átaki og hafa staðið sig með prýði svo fyrir þá var bara að halda vinnunni áfram.
    Við hjólum á mismunandi tímum og mislangar vegalengdir en öll komumst við á leiðarenda, í misgóðu ástandi. Við höfum öll einhver markmið, sum háleitari en önnur. Einn vill vera fær um að hjóla í hvaða veðri sem er og telst það vera ansi háleitt markmið þar sem oft getur reynst erfitt að hjóla í íslenskri veðráttu. Svo eru aðrir sem hafa það einfalda markmið að geta hjólað upp götuna heim til sín án þess að þurfa komast undir læknishendur vegna oföndunar og máttleysis.
    Þó að hinar og þessar hindranir verða á vegi okkar höldum við ótrauð áfram og klárum þessa keppni og að henni lokinni verðum við að kafna úr stolti svo við höldum áfram að hjóla í og úr vinnu.

    Kveðja,
    Teamið frá Skólaeldhúsinu.
    Guðjón Vilmar, Liðstjóri
    Tinna, Söguhöfundur og myndasmiður
    Tobbi, hjólreiðarkappi
    Alli, Hjólreiðarkappi
  • Hrakningar Magnúsar í liðinu Hjólasveinar frá Borgarholtsskóla.
    Hann segir sínar farir ekki sléttar.
    Ég kom hjólandi úr Kópavoginum í morgun, mjög hressandi. Nema að einu leyti. Loftinu sem fyllir lungun getur nefnilega fylgt aðskota- eitthvað. Með ferska loftinu í Grafarvoginum fylgdi í mínu tilfelli flugnager og amk. ein þeirra fór langleiðina niður í lungu. Þetta þýddi að stórlega dró úr hraða mínum því skrokkurinn vildi greinilega ekki hafa þetta aðskotakvikindi innanborðs. Ég barðist því við að kasta ekki upp á miðri leið, vildi það nú síður því fólk héldi kannski að „hjólað í vinnuna“ væri mér alger ofraun. Komst þó heilu og höldnu alla leið og gat losað mig við kvikindið þegar hingað kom. Fyrir utan að taka undir nauðsyn þess að nota hjálm, þá mætti kannski líka huga að mexikanska lookinu, og nota andlitsgrímu ? Hremmingar mínar gerðu það að verkum, að ég notaði rétt um 1 klst. til að hjóla þessa 9.87 km en það er vegalengdin úr Lundi í Borgarholtsskóla.

    Kv.
    Ásta Laufey, Borgarholtsskóla
  • Hvatning frá Sigríði Helgu Jónsdóttur í Selásskóla
    Hjá okkur í Selásskóla er stemming í kringum átakið hjólað í vinnuna, við erum dugleg að hvetja hvort annað hvort sem við göngum eða hjólum. Það hefur reyndar heyrst að "SUMIR" fari lengri leiðina bæði í og úr vinnu, og miklar pælingar í gangi hvaða leið sé hagstæðast að hjóla þ.e. gefi flesta kílómetra. en allt er þetta samt í sátt og samlyndi. Nemendur hafa líka verið að spá í af hverju svo margir séu á hjólum og það hefur líka heyrst að við ættum að fá fleiri kílómetra fyrir allar brekkurnar sem við þurfum að hjóla en hinir sem hjóli bara á jafnsléttu. Þau hafa ekki enn áttað sig á því að við förum líka niður brekkurnar.
    Með hjóla og göngu kveðju
    Seláshetjurnar.
  • Unnur Björk Lárusdóttir frá Intrum sendi okkur þessa hvatningu til kvenna
    Ég er þátttakandi í einsmanns einvala kvennaliðinu Skjalateymi hjá Intrum á Íslandi. Hjá okkur er karlarnir duglegri að taka þátt. Konur bera við stússi með börn og bíl eftir vinnu, eins þykir þeim ekki gott að þurfa að fara í sturtu á vinnustaðnum eftir morgunsnyrtinguna heima við. Ég hjólaði í fyrra og játa að fyrrgreind rök eru að mörgu leyti réttmæt. Hins vegar ákvað ég í ár að nýta mér strætó og labba hluta leiðar. Elliðaárdalurinn, Fossvogsdalurinn og Laugardalurinn eru allt perlur innan borgarmarkanna sem gaman er að ganga um á leið í og úr vinnu. Verði maður lúinn má alltaf hoppa upp í vagn. Það er hins vegar ekki alltaf auðvelt að finna góðar gönguleiðir nálægt helstu umferðaræðum þar sem vagnarnir stoppa og í morgun sat ég föst á umferðareyju dágóða stund. Hjólakappar og gangandi vegfarendur eiga líka eftir að læra dálítið á það að samnýta hjóla- og göngubrautir þannig að ekki hljótist slys af. Umferðareglur þurfa að gilda alls staðar – ekki bara á götunum! Með góðri skipulagningu og því að gefa sér góðan tíma má hins vegar fá fína hreyfingu og tíma til að njóta lífsins í morgunsárið eða eftir langa vinnutörn. Maður sér líka svo margt sem maður sæi tæpast út um bílgluggann. Átakið göngum/hjólum í vinnuna lengi lifi!
  • Reynslusaga og hvatning frá Gísla Jónssyni, liðsstjóra StórUst hjá Umhverfisstofnun
    Ég er með nokkur í liðinu sem búa fyrir utan Reykjavík og voru eitthvað að tala um að geta ekki tekið mikið þátt. Við vinnum hjá Umhverfisstofnun sem er við Suðurlandsbraut 24 með útsýni yfir Laugardalinn. Ég skellti mér því á Borgarvefsjána og fann skemmtilega göngutúr frá bílastæðunum við Laugardalsvöll, í gegnum Laugardalinn í vinnuna (upp á nákvæmlega 1,54 km). Kortagerðarmaður liðsins bjó svo til fínt kort sem var sent öllum starfsmönnum Umhverfisstofnunar. Öllum var einnig bent á að heilsubótagangan í gegnum Laugardalinn færi í gegnum grasagarðinn þar sem fólk gæti skoðað endurnar og fjölskrúðugar plöntur og blóm á leiðinni í vinnuna. Miðað við meðalgönguhraða 4-5 km/klst tæki svona ganga um 15-20 mínútur.
    En tíminn mun leyða í ljós hversu vel hvatningin mun virka á liðsmennina sem búa fyrir utan Reykjavík.

    Þetta er eitthvað sem öll fyrirtækin við Suðurlandsbraut geta nýtt sér, og þá sérstaklega þau fyrirtæki sem eiga við mikinn bílastæðavanda að etja. Í staðinn fyrir að starfsmenn (sem búa fyrir utan Reykjavík) eyði 5-10 mínútum að hringsóla í leit að stæðum sem ætluð eru viðskiptavinum þá geta þeir lagt við Laugardalsvöllinn þar sem ofgnótt er af stæðum og fengið sér góðan heilsubótargöngutúr í náttúru Laugardalsins.

    kveðja
    Gísli Jónsson
    Liðstjóri StórUst hjá Umhverfisstofnun
      • Auður Eiríksdóttir
         27. maí, síðasti dagur í hjólaátakinu. Veðrið virtist ágætt svo ég ákvað að hjóla alla leið í vinnuna. kl 6:30 lagði ég af stað úr Mosfellsdalnum við fuglasöng og dásamlega kyrrð, mannfólkið ekki búið að ræsa bílana ennþá. Á leiðinni sá ég stokkandarpar, jaðrakana, kríur, þresti, álftir og gæsir og fleiri fugla sem fögnuðu deginum snemma eins og hjólafrúin á sínum hljóðlausa fáki. Nóg er af brekkum til að puðast upp á leiðinni milli Mosfelldals og Reykjavíkur og merkilegt hvað brekkurnar þurfa að vera brattar og enda oft í vinkilbeygjum þannig að stundum er nú bara gengið upp efsta hluta brekkunnar. Nýi stígurinn frá Langatanga að Skálatúni er einmitt þannig þegar farið er í austurátt og tel ég þetta stóran galla á annars góðri framkvæmd. En þar sem farið er meðfram Úlfarsfelli og Bauhauskastala er stígurinn frábær. Leiðin lá framhjá Keldum og um Grafarvog um nýju brýrnar í Elliðavogi sem eru mikil samgöngubót, og síðan meðfram Suðurlandsbraut á vel gerðum hjólastíg alaveg að Hlemmi og þaðan Rauðarárstíg og í Skógarhlíð. Ég var mætt í vinnuna fyrir kl 8 og þótti bara ágætt. Á heimleið seinna um daginn var alveg yndislegt veður og ég var alsæl með ferðalagið. :-) Auður
      • Ingvar Tryggvason
         Sæl og blessuð ölla saman. fyrir 3 árum byrjaði eg að hjóla. fyrsti dagurinn var daginn sem hjólað í vinnuna byrjaði 2012. Eg helt að eg ættlaði ekki að komast á leiðarenda enda voru þetta heilir 12.5 km í vinnu. þegar eg mætti í vinnu sagði mer einn vinnufélagi að það væri of lítinn loftþrystíngur í afturdekkinu hjá mer. strax þá fann eg hvað heimleiðin var þægilegri. en samt var algjört hell að hjóla alla þessa leið.Allir tóku fram úr mer og eg var allt of þúngur. Þetta var ekkert gaman en samt fann eg að þarna var komið sport sem eg gæti hugsað mer að prufa mig áfram í.Eg hafði prufað hlaup, sund og ræktina en ekkert var fyrir mig það var alltaf einhvað að, verkir her og þar. eða eins og eg segi í dag. Leti...þegar hjólað í vinnuna var 2012 hjólaði eg um 100 km í heildina. 2013 fór það í 400 km sirka en nuna er eg kominn í 1000 km. 28 kg léttari og gæti ekki verið ánægðari.hjólreiðarnar eru mitt yndi og skiptir ekki máli hvort það er rigning og rok eða sól og blíða þá er alltaf jafn gaman að hjóla.Það er tvent sem eg hef lært á þessum tíma.numer eitt. Ekki kaupa ódýrt hjól ef þú ert farinn að hjóla mikið. þá verður bara endalaust viðhald. numer tvö. Bera virðingu fyrir ollum í umferðinni gangandi, hlaupandi, hjólandi og bílum.MBK, Ingvar
      • Gunnhildur Lilja Sigmundsdóttir
        Nýjar hættur í hjóla umferðinni Af hverju varaði mig enginn við flugum, öndum og túristum??? Eftir að hafa tekið þeirri áskorun að taka þátt í Hjólað í vinnuna er ég orðin margs vísari. Ég hef ekki hjólað í laaaangan tíma og átti þetta eftir að verða fín upprifjun fyrir mig. Ég vona að þið getið lært af mér en hér eru nokkrir lærdómspunktar sem gott er að hafa í huga. Af hverju varaði mig enginn við flugum, öndum og túristum? Lærdóminn má draga af mínum fyrstu dögum í keppninni:Dagur 1Áður en keppnin hófst ákvað ég að taka eina æfingaferð. Mig langaði til að sjá hvað ég væri lengi í og úr vinnu og hversu marga km ég þyrfti að hjóla. Ég komst að því að ég er um 20 mínútur á leiðinni og leiðin er 6 km löng, sem er bara fínt fyrir byrjanda. Eitthvað var ég þó lengur heim heldur en í vinnuna. Þegar ég steig út heima hjá mér um morguninn var logn og skýjað. Ekkert mál var að stíga á hjólið og leggja af stað. Það var svolítill sandur á göngustígunum í hverfinu hjá mér og var ég pínu hrædd við að renna í sandinum. Þegar ég var komin á hjólastíginn var enginn sandur og ég varð örugg á ný.Þetta verður ekkert mál hugsaði ég. En eftir að hafa hjólað úr veðursældinni úr Nauthólsvíkinni tók á móti mér vindkviða í fangið. Það var ekki alveg eins auðvelt að hjóla á móti vindinum eins og mig minnti. Að auki vantaði mig tónlist svo ég ákvað að setja Spotify í símann minn til að hlusta á þegar ég hjóla. Nú ætti ég að vera tilbúin fyrir keppnina.Lærdómspunktur 1: Passa sig á sandinum og það er ekki auðvelt að hjóla á móti vindinum. Basic!Tími 1: 21:11 í vinnu. Dagur 2Fyrsti dagur keppninnar hófst með sól. YES! Nú átti sko hjóla aðeins hraðar. Ég lagði af stað en vóóó..., þvílík umferð! Það eru ótrúlega margir á hjólum í dag. Stígarnir eru fullir af allskonar fólki sem hjólar á allskonar hjólum í vinnuna. Nú reyndi á hæfnina að taka framúr og að vera ekki fyrir þegar aðrir taka framúr. Þessi dagur byrjaði vel. Ég var ekki búin að hjóla á neinn og enginn var búinn að hjóla á mig. Nú ætlaði ég heldur betur að gefa í og bæta tímann frá því í gær ... en bíddu nú við ... FLUGUR!!! Ekki ein heldur heilir ættbálkarnir. - Að hjóla í sól reynir á hæfileikann að hjóla með lokaðan munninn. Þegar ég var svo mætt í vinnuna með varirnar límdar saman til að koma í veg fyrir fluguát fór ég að skoða árangurinn minn. Jááá... vel gert! Ég var búin að bæta tímann minn um nokkrar sekúndur. En hvað var þetta? Ég var með nokkur like í gengum facebook á playlistann minn á Spotify. Ha? Ég man ekki eftir að hafa birt hann þar. Lærdómspunktur 2: Passa sig að hjóla með lokaðan munninn. Lærdómspunktur 3: Muna að skoða stillingarnar á Spotify, óþarfi að blasta fyrir öllum vinum og ættingjum þá tónlist sem hlustað er á hverju sinni.Tími 2: 21:09 í vinnu. Dagur 3Annar dagur keppninnar og það er rigning. YES! Bless bless flugur! Nú verður sko hjólað ennþá hraðar. Ég lagði af stað í regninu og það var dásamlegt að hjóla án þess að þurfa að vera með varnirnar klemmdar saman og stöðugt að vera að passa sig á að borða ekki flugur í morgunmat. Þetta virtist ætla ganga rosalega vel þar til að andapar var á vappi á hjólastígnum. Ég byrjaði að þjösnast á hjólabjöllunni eins og enginn væri morgundagurinn, ding ding ding ding... en þær færðu sig ekki neitt. Þá var ekkert annað eftir nema bremsa og garga „babb babb babb babb...“ Já það virkar. Bara svo það sé á hreinu þá voru engar endur sem slösuðust í þessari hjólaferð en hjartað mitt sló heldur hraðar. Lærdómspuntkur 4: Hjólabjallan virkar ekki á endur en "babb babb babb babb..." virkar nokkuð vel.Tími 3: 20:42 í vinnu.Dagur 4Þriðji dagur keppninnar og það er ágætis veður, hvorki sól né rigning. Spurning hvort að ég fengi flugur í morgunmat? Nei það var ekki mikið um þær. Það var bara svolítið annað. Þegar ég var komin úr Nauthólsvíkinni og framhjá HR alveg stórslysalaust og á góðum tíma mætti mér stór hópur af túristum í strætisvagnaskýli fyrir framan flughótelið. Þeir voru allir svo glaðir og skælbrosandi yfir að vera á Íslandi. Þeir stóðu ekki inn í strætisvagnaskýlinu heldur dreifðu þeir sér um alla gangstéttina eins og einhver dýrahjörð. Það var ekki fræðilegur möguleiki fyrir mig að komast þar framhjá. Eins gott að ég var með bjöllu. Þá var ekkert eftir nema hægja á og hamast á bjöllunni ding ding ding ding ding ding... Nei heyrðu þeir líta ekki einu sinni á mig. Þeir hljóta að skilja ekki íslenskar hjólabjöllur. Í staðinn fyrir babb babb babb eins og á endurnar var gripið í góðu enskuna „excuse me“. Nei þeir kunnu ekki heldur ensku. Ég varð því að nauðhemla og tipla á tánum með hjólið á milli lappanna og troða mér á milli þeirra.Lærdómspunktur 5: Túristar heyra ekki í íslenskum hjólabjöllum og "excuse me" virkar mjög takmarkað.Tími 4: 19:43 í vinnu.Í hvaða ævintýrum lendi ég næst?Ef þú vilt líka lenda í skemmtilegum ævintýrum eins og ég endilega skráðu þig og vertu með í Hjólað í vinnuna
      • Jón Pétur Einarsson
        Tilkynning til liðsmanna „Hjólað í vinnuna“.Það fylgir óneitanlega svona aukinni hreyfingu að maður verður svangur, allavega meira svangur en venjulega. Þá kunna einhverjir að hugsa sér gott til glóðarinnar og taka með sér nesti. Þar sem flest hjól eru þess eðlis að við hönnun þeirra hafa farangursgeymslur orðið útundan freistast margir til þess að stinga einhverju góðgæti í vasann. Það var einmitt það sem ég gerði í morgun, stakk ljómandi girnilegum banana í vasann. En 53 mínútum og 24 sekúndum síðar leit hann hinsvegar svona út (sjá mynd). Þar sem ég vissi ekki af þessari umbreytingu á banananum þegar ég falaðist eftir lyklunum til að komast inn, stakk ég hendinni óhikað á bólakaf í vasann. Skilaboðin sem heilinn fékk á meðan höndin var í vasanum voru skrítin og óvænt en þau skýrðust augnabliki síðar. Það sem upp kom ásamt lyklunum var svo ágætlega maukaður banani að ég hefði ekki náð því betur heima með töfrasprota.Kæru liðsmenn, umgangist nesti af umhyggju og virðingu og þá mun það metta ykkur betur á áfangastað. – og farið varlega í umferðinni Liðsstjórakveðja, Jón Pétur.Ps Ég setti mynd af banananum í myndasafnið :)
      • Ólafur Daníel Jónsson
        Allt er þegar þrennt er... eða ekki.Fyrir fjórum dögum þegar þetta er skrifað var ég orðinn þreyttur á því að þurfa reglulega að pumpa í afturdekkið. Það lak ekki hratt úr því og stundum entist það marga daga en stundum varla dag. Ég fjárfesti því í nýrri slöngu og bótum. Setti nýja slöngu undir og bætti þá gömlu til að eiga til vara. Fyrir þremur dögum bauðs mér að fá lánað hjól félaga míns til prufu. Tók 18 km á því í gær og fannst hjólið bærilegt. Mér hafði greinilega tekist að gera gat á það þar sem að í morgun var það algerlega loftlaust að aftan :( Jæja ég tók þá bara nýviðerða hjólið og fór á því í vinnuna. Á heimleiðinni var það allt í einu orðið gjörsamlega vindlaust að aftan og ekki gekk að pumpa í það til að klára heimferðina. Jæja allt er þegar þrennt er hugsaði ég og reiddi hjólið heim. Svo tók ég til óspilltra málanna og reif afturdekkin undan báðum hjólum, gerði við slöngurnar en það tóks ekki betur til en svo að ég sprengdi aðra þeirra þegar ég var að setja dekkið upp á gjörðina. Hana nú, fjórar bætur á fjórum dögum. Geri aðrir betur.
      • Sigrún Stefánsdóttir
         Það er líkt og að fá yfir sig halghryðju þegar flugnagerið, sem heldur sig á móts við kirkjugarðinn í Fossvogi skellur á gula hjólastakknum mínum og andlitinu. Eins gott að hafa munninn lokaðan! Í morgun sá ég svo makalaust skemmtilega sjón sem ég má til með að deila með ykkur. Maður kom hjólandi úr Kópavoginum niður í Fossvogsdalinn með kerru í eftirdragi. Ég sá farþega kerrunnar bregða fyrir eitt andartak þar sem hann sat í makindum og las myndasögubók! Þetta kalla ég afslappaðan ferðamáta.
      • Guðrún Pálsdóttir
         Óheppni, ólagni, óhamingja ... heppni, lagni, hamingjaMorgunstund gefur gull í mund, hugsaði ég er ég lagði af stað að heiman í morgun, 16. maí. Á ég ekki annars bara að vera löt í dag, ég hjólaði svo langt í gær? En, nei, þetta er gaman. Þegar ég kom í Víðidalinn ákvað ég að hjóla upp að Breiðholti og snúa til baka við Vatnsveitubrúna ... fara sem sagt hringinn í dalnum. En sem ég hjólaði upp brekkuna, með tilheyrandi gíraskiptingum, óhlýðnaðist keðjan og ég varð að stansa (óheppni). Fyrir konu á sjötugsaldri með 10 þumalputta var staðan slæm og fór stigversnandi með hverju handtaki svo að keðjan pikkfestist (ólagni). Þarf ég nú að leiða hjólið þessa þrjá km heim og fara á bílnum í vinnuna? Ó, nei, ómögulegur dagur (óhamingja).En þá stansar maður á sömu leið. Og sem hann heilsar uppgötvum við bæði að við þekkjumst. Þetta var fyrrum vinnufélagi minn og vinur, öndvegismaður (heppni). Hann er með alla fingur á réttum stað og keðjan var brátt komin á tannhjólin (lagni). Svo fékk ég hlýtt faðmlag í bónus (hamingja).Deginum bjargað, takk Borgþór, og ég tók annan aukakrók og hjólaði góða 47 km í og úr vinnu.
      • Stella Aðalsteinsdóttir hjá Umhverfisstofnun
         Á síðasta hjóladegi sprakk hjá mér í Fossvogsdalnum, eftir um 3ja km. hjólaferð. Dekkið að aftan var algjörlega vindlaust og kom hjólandi elskuleg kona, sem var með hjólapumpu. Hún gaf sér tíma (þó hún væri sein fyrir) og pumpaði í dekkið f yrir mig og óskaði mér góðs gengis. Ég komst nokkru lengra áleiðis en varð svo að fá sendibíl og fara á hjólreiðaverkstæði. Þar mátti endurnýja dekk bæði að aftan og framan á hjólinu mínu. Mér finnst þessi hjólreiðakona sérlega hjálpsöm og þakka henni hér með kærlega fyrir aðstoðina. Hjólreiðar eru heilsubót og ég hvet sem flesta til að nota hjólið meira, a.m.k. á sumrin.
      • Hafdís Skjóldal
         Hjólað í vinnuna í ár hefur verið frekar kuldalegt þar sem voraði seint hér á Akureyri, við hjá Matur og Mörk höfum verið lakari til þátttöku af þessum sökum, en þó eru flestir duglegir við að koma alltaf gangandi eða hjólandi til vinnu, í morgun voru hlífðarbuxur og úlpa eina ráðið til að komat þurr á leiðarenda, þó blotnuðu skór og sokkar , sem sagt með sól í hjata höldum við áfram mót roki og rigningu ;)
      • Ingvar J Tryggvason
         Sælt veri fólk.Ingvar heiti eg og er liðstjóri líðs „snjótittlingana“ hjá Nýherja hf.Þegar hjólað í vinnuna byrjaði í fyrra var sá dagur sem eg hjólað fyrst í vinnuna. Hafði eg verslað mer hjól hjá GAP og langaði að prufa að hjóla. Eg bý í Hafnarfirði og vinn á Köllunarklettsvegi inn í Reykjavík. Í fyrstu var þetta erfitt enda styðsta leiðin 12.7 km en þetta varð alltaf léttara og léttara og varð eg svo ánægður með þetta að hef hjólað síðan. Of lengi eg leiðina og verður leiðin út á Gróttu of fyrir valinu enda mjög skemtileg og falleg leið. Eg helt áfram að hjóla gerði eg það geglulega í allan vetur, (fór samt eftir veðri) Setti markið við 8 metrum á sek, samkvæmt spánni. Og nota eg þá strætó í staðinn. Nuna eru komnir hjá mer heilda km einhvað yfir 3500km og er eg 23 kg léttari heldur en fyrir ári síðan og mikklu ánægðari. Og eru það bara hjólreiðunum að þakka.Í morgun 24.05.2013 prufaði eg nýtt eg labbaði þessa sömu leið og svakalega var gaman að fylgjast með öllum sem hjóluðu fram hjá mér og skemtilegast fannst mer að sjá fólk í öllum aldurflokkum vera að hjóla í vinnuna og fannst mer virðingin sem allir báru fyrir öðru hjólafólki/labbandi vera til fyrirmyndar. En öðru tók eg líka eftir að fólk er ekki að passa nægilega loftþrystinginn í dekkjum á hjólinu sínu, því þeir sem voru að erfiða við að hjóla voru nánast alltaf með of lítinn þrysting í afturdekkinu á hjólinu sínu. Eins og eg sagði fyrst er eg liðstjóri Liðsins Snjótittlingana hjá Nýherja og erum við 7 í liði. Aldurforsetinn í hópnum er 68 ára og sá yngsti 38 og höfum við hjólað samanlagt 1,046 km sem mer finnst vera frábær framistaða hjá þessum hóp.Takk fyrir frábært fram með hjólað í vinnuna.Kv Ingvar.
      • Bjarni Kristjánsson
         Systir mín hringdi í mig og spurði hvort ég vildi eiga gamla hjólið hennar annars ætlaði hún að henda því. Ég tók hjólið sem var búið að liggja í geymslunni í mörg ár. Pumpaði í dekkin, stillti gíra og bremsur - og búinn að hjóla á því í vinnuna hvern dag síðan. Maður þarf ekki að eiga flottustu græjurnar til að vera með í þessu skemmtilega átaki! :-)
      • Gísli Jónsson
         Geislavarni eru komnar í gírinn með liðið Fiseindirnar. Í fyrra var gerður hjólabikar fyrir innanhúskeppnina og það stefnir í harða baráttu um bikarinn í ár. Væri búinn að setja inn mynd af bikarnum ef það væri hægt án sérstaks símaforrits.kveðja, liðstjóri Fiseindanna.
      • Góðverk
        Á leið minni frá Hafnarfirði til Reykjavíkur í morgun sá ég mann á hjóli sem virtist hafa týnt einhverju við fjöruna við Kópavogslækinn. Ég hjóla nú ekki hratt yfir og tók viðkomandi framúr mér á leiðinni upp Hamraborgina. Þar sá ég hann aftur vera að týna eitthvað upp og við Bókasafnið í Kópavogi var hann að tæma í ruslafötu sem var þar. Viðkomandi hefur því verið að nýta hjólaferðina í að týna upp rusl á leiðinni. Mjög gott mál og ég sé helst eftir því að hafa ekki hrósað viðkomandi. En vonandi les hann þessar línur og sér að einhver hefur tekið eftir góðverkinu.
      • Kempurnar á 13D
        Kempurnar á 13D eru starfsfólk á dagdeild 13D, læknar, hjúkrunarfræðingar og sjúkraliði.Við vorum 2-3 sem hafa verið að hjóla í vinnuna sl. ár, mislangt. Talað lengi um að vera með í átakinu en aldrei staðið við stóru orðin. En nú gerðist það, við fórum hægt af stað en alltaf voru einhverjir að bætast við. Nú erum við 9, hjólað er úr Mosfellsbæ, Garðabæ, Seltjarnarnesi, Fossvogi, Hlíðunum og Austurbænum. Lengst er farið 30 km og styst 1,5. Ein byrjaði í brjáluðu roki og rigningu en á leiðarenda komst hún. Nú er hún komin á bragðið og búin að draga eiginmanninn með. Stefnum á að standa okkur enn betur á næsta ári,Kveðja og takk fyrir okkur
      • Óli Sig. - GuðjónÓ ehf.
         "Hei, eigum við ekki að taka þátt í Hjólað í vinnuna?" var sagt upp úr eins manns hljóði á kaffistofunni fyrir sex árum síðan. Oftast var nefnilega talað um pólitík og fótbolta en þetta var eitthvað nýtt. "Tja, er það ekki svo erfitt" eða "Hjólið mitt er bilað" en þessar afsakanir voru fljótlega teknar af dagskrá og nokkrir félagar ákváðu að taka þátt. Síðan þá hefur þetta verið á hverju ári hjá okkur og lukkast mjög vel. Sveittir og glaðir hjólamenn hafa síðan verið dagleg sjón í maí á hverju ári. Í þessu tólf manna fyrirtæki hafa oftast fjórir til fimm starfsmenn tekið þátt í átakinu og leiddi þetta af sér að síðustu þrjú árin eða svo hafa tveir starfsmenn ákveðið að hjóla flesta daga ársins í vinnuna. Til að aðrir starfsmenn þyrftu ekki að þola ákveðna tegund af líkamslykt og að Græna Prentsmiðjan okkar sem er svo umhverfisvæn ákváðu eigendur fyrirtækisins að setja upp sturtu fyrir þetta hjólagengi og þess vegna gat maður ekki lengur verið með neinar afsakanir.. Allir hjóla mismunandi vegalengdir allt frá 11 km. upp í 60 km. á dag. Von okkar er sú að sem flestir geti tekið þátt því að ekkert jafnast á við það að hjóla og njóta útiverunnar sem þessu fylgir. Þess má að lokum geta þegar þetta er skrifað hafa þessir fjórir "Dúddar" skilað af sér rúmum 1.000 km.
      • Guðrún Kristín
        Ég hef haft ansi mikið fyrir því að geta tekið þátt í átakinu í ár. Ég fékk hjólið mitt sent frá Húsavík með flutningabíl, gekk svo úr Mjóddinni og þangað sem ég hélt að flutningamiðstöðin væri. Er ég kom svo á staðinn var hún bara alls ekki þar heldur ca. 1-2 km. í hina áttina. Ég gekk þá bara í hina áttina þar til ég fann flutningamiðstöðina, náði í hjólið, fór í Húsasmiðjuna og keypti mér hjálm og hjólaði svo heim, 8 km. leið!Það má því segja að þetta átak byrji kröftuglega hjá mér.Kv. þessi sem er í engu formi!
      • Greinó 4 - Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins

        Þegar éghjóla í vinnuna þá er dagurinn á margan hátt öðruvísi. Ég vakna t.d. 30mínútum fyrr en venjulega, kíki út um gluggann og gái til veðurs. Íhugahvaða fatnað ég eigi að velja fyrir hjólaferðina, vona að það verðurléttur stakkur en ekki vatnsheldur vindjakki. Set á mig heimatilbúiðbuff, hjálminn og dríf mig af stað. Hjóla aleiðis í vinnuna, fyrst umsinn meðfram umferðargötum en beygi fljótlega yfir á hjólastíg meðframÖskjuhlíðinni. Þegar ég hjóla framhjá fyrstu grenitrjánum sé ég oftlitla svarta og hvíta kanínu sem er furðulega oft á sama stað. Ilmurinnaf trjánum kemur mér líka í gott skap og falleg birtan sem kemur ígegnum skóginn. Á leiðinni heyri ég fuglasöng og sé hvernig gróðurinn erallur að vakna eftir veturinn. Mér líður vel og hamast upp síðustubrekkuna áleiðis í vinnuna. Mæti síðan rauð í kinnum, frískleg ogorkumeiri en þá daga sem ég vel bílinn fram yfir hjólið.

      • Fiseindirnar - Geislavarnir ríkisins

        Nafn á hjólaliði er mjögmikivægt. Hvað á kalla hjólalið geislavarna ríkisins, þar sem næstumhelmingur starfsmanna er eðlisfræðingar. Jú auðvitað Fiseindirnar.Fiseindir eru skemmtilega og léttar eindir sem ferðast um heiminn ánmikillar mótstöðu. Enda er fiseindageislun ekki jónandi og þar með ekkiheilsuspillandi geislun. Þrátt fyrir að fiseindir séu ekki sjaldgæfareindir (um 65 milljarðar fiseindir á sekundu fara í gegnum hvernfersentimeter sem er hornréttur á sólina) þá eru líkurnar að rekast áeina aðeins 1 á móti fjórum fyrir allt lífið.

      • Hlíðar - Heilsugæsla höfuðborgarsvæðis

        Í morgun var lagt afstað í yndislegu veðri, sólin var að verma jörð en snjór var meðframhjólastígum og í görðum, gaman var að sjá hvé margir voru hjólandi ímorgunsárið. Eftir að hafa hjólað í allan vetur í misjöfnu veðri er gottað finna að sumarið er í nánd og mætast brosandi hjólamenn og konur áhverju götuhorni og hjólastígum,  munum eftir að brosa og heilsa hvortöðru.

      • Fákarnir - Hrafnista Reykjavík
        Hrafnista er með nokkur lið, en okkar lið heitir Fákarnir. Við erum fimm í Fákunum og langar að senda inn vísu um okkur:


        Fákarnir

        Nú þeysast fákar fráir fram um veg.

        Mót fjallahlíðum háum þeysi ég.

        Og golan kyssir kinn, og golan kyssir kinn.

        Á harða, harða spani hendist áfram hjólafákur minn.


        Það er sem fjöllin fljúgi móti mér,

        sem kólfur loftið kljúfi hjólið fer.

        Og lund mín er svo létt, og lund mín er svo létt,

        eins og gæt´ ég gjörvallt lífið geisað fram í hjólasprett.


        Hve fjör í æðar færist fáknum með.

        Hve hjartað léttar hrærist, hlær við geð;
        að finna fjörtök stinn, að finna fjörtök stinn.

        Þú ert mesti gæðagripur, góði létti hjólafákur minn.


        María Hrund, hópstjóri, Hófý, Dagbjört, Auður Anna og Berglind
      • Brimblar1 - Brimborg

        Talandi um uppákomur , þá er Sigurður F Reynisson í Brimborg búinn að lenda í smá uppákomum !

        Það sprakk dekk hjá honum í síðustu viku , og svo brotnaði hjá honum „gírkassinn“ í gær !Og hefur Sigurður F. nánast labbað jafnmikið með hjólið og hann hefur hjólað  síðustu daga.(telst það með ?)

        Meðfylgjandi er mynd af ónýta gírkassanum (myndin sendist sér)

        f.h Brimborgarliðanna, Halldóra J

      • Ríkishjólið - Ríkislögreglustjóri

        Ég er einn af þeim sem fergangandi í gegnum þetta átak.  Ég er á ferðinni á gangstígum oggangstéttum og það er talsvert af reiðhjólum á ferðinni á sömu slóðum.Eitt sem hjólamenn mættu taka upp er að nota bjölluna þegar þeir komaaftan að okkur sem erum gangandi. 1-2 hljóðmerki nokkuð áður og viðvitum þá að þið eruð að nálgast.  Stundum bregður manni, maður erjafnvel í þungum þönkum, og svo gerist það að hjólreiðamenn verða aðhjóla út á gras til að komast framhjá manni. Allt þetta væri hægt aðfyrirbyggja með einum bjölluhljóm.

      • Teams Valiant; Like-a-Sir; Thunder; Lightning; Experience og Fabulous - Suðurhlíðarskóli

        Viðákváðum að vera djörf þetta árið og skora á nemendur í Hjólað ívinnuna. Það voru ekki allir vissir um hvort þetta gengi upp, þar semskólinn er ekki hverfisskóli, heldur sækja nemendur hann ofan úrGrafarvogi og Vatnsenda, sunnan úr Hafnarfirði og Kópavogi, utan afSeltjarnarnesi og jafnvel ofan úr Mosó. En þetta fór svona rosalega velaf stað hjá okkur að á fimmtudaginn taldist okkur til að það væru 25-27hjól á svæðinu og svo bætist við sá fjöldi sem er labbandi, áhjólaskautum og í strætó. Þar sem það er bara 41 nemandi og u.þ.b. 10starfsmenn (eftir því hvernig er talið) finnst okkur þetta mjög gott.Þótt sumir nemendur (og kennarar) komi langt að finna þau einhver ráð.Sum eru keyrð hluta af leiðinni og hjóla svo restina, önnur fara úrstrætó fyrr en venjulega og labba/hjóla það sem eftir er og enn önnursmala saman í hópreið, til dæmis nokkrar stúlkur í 3. - 6. bekk sem búa íBreiðholtinu. Ekki skemmir svo fyrir að nemendur fá að keppa viðkennara og tvö lið nemenda eru fyrir ofan kennaraliðið þegar þetta erskrifað - það kætir marga.

        Þegar raðað var í lið tókum við mið af aldri nemenda, svo meðalaldurliðanna væri nokkðu jafn, en á næsta ári getum við notað upplýsingarþessa árs til að gera liðin enn jafnari með tilliti til búsetu og virkninemendanna. Það er óhætt að segja að átakið slær í gegn hérna ogvonandi höldum við áfram út skólaárið.

        Kveðja

        Stefán, kennari í Suðurhlíðarskóla

      • UÍA - UÍA

        Fljótsdalshérað 15. maí 2012.

        Ég komst að því í morgunn að þetta er spurning um vilja og viðhorf, ekki veður.

        Upplifun morgunsins var einhvern veginn svona:

        Sleithjólið úr skaflinum og dustaði af því mesta snjóinn. Paufaðist uppsnjóuga og svellhála heimreiðina, með nístingskaldannorðanvindinn......og nóg af honum í fangið. Hugsaði með mér þegar égsneiddi hjá sköflunum á veginum ,,Rækallinn ég er líklega eins klikkuðog fólk vill vera að láta!" 5 km látlaust streð á móti vindi, varðblessunarlega til þess að mér fór á sjötta km, að hlýna á fingrunum, oglíf færðist í þá inni í þreföldu ullarvettlingunum. Þegar nær drógEgilsstöðum lægði vindinn og það fór að snjóa....góð skipti! Krapi var áveginum við Egilsstaði og var leiðinlegur en allt hafðist þetta. Varðloks, eftir 18 km hlýtt á tánum, það er þegar ég var komin undirsturtuna í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

        ÁFRAM UÍA!

        Hildur Bergsdóttir liðsstjóri UÍA liðsins
      • Einstaklingsfyrirtæki - Lingua/Norðan Jökuls ehf.
        Ef farangurinn er ekki of mikill og vegalengdin er viðráðanleg þá finnst mér alltaf skemmtilegra að hjóla og upplifa veðrið - ekki einangra sig inni í bifreið! Ég hef talað við fleiri sem vilja finna veðrið hverju sinni og njóta þess við að hjóla.

        Í næstsíðustu viku var einn dag hávaðarok á Héraði. Ég hjólaði yfir fljótið í bakarí til að kaupa nýtt brauð. Reyndar var svo hvasst að ég fauk einu sinni af stígnum á leið til baka. Einnig skemmdi ég saumaðan innkaupapoka sem slóst í stoð á brúnni. Samt fannst mér þetta helst jákvætt ævintýri eins og yfirleitt að finna veðrið. Hér er vísan sem ég samdi á meðan ég barðist við storminn:

        AÐ HJÓLA Í ROKI
        Við veðurofsann ógnarlega
        yndi hef að berjast.
        Vöðvar stækka stórkostlega,
        sterkum krafti verjast.
        Síðustu hendinguna hef ég viljandi margræða.

        Philip Vogler, Egilsstöðum
        s. 864 1173
      • ISB Eureka I - Íslandsbanki

        Hvernig er hægt að villast svona á leiðinni heim?

        Hjólað í vinnuna og úr vinnu.

        Eftir raunir gærdagsins er ég að hugsa um að hjóla bara í vinnuna og hætta að hjóla úr vinnunni. Ég var rammvilltur á leiðinni heim. Þetta ætti þó ekki að draga úr ykkur að hjóla líka úr vinnu. Ég veit að þið eruð mjög ratvís.

        Allt byrjaði þetta frekar sakleysislega. Ég byrjaði á að hjóla í vinnuna. Það gekk ágætlega enda óþreyttur eftir góðan nætursvefn.
        http://connect.garmin.com/activity/181107930

        Þegar vinnudegi var lokið lagði ég af stað í Eurovision for forpartí í kópavog. Ég þurfti að koma við í Europrís á völlunum í Hafnafyrði til að kaupa kók sem inniheldur útlenskt vatn. Sérstök ósk frá Eurovision for forpartíhaldara. En viti menn það var búið að loka búlunni endanlega. Ekkert annað að gera en að halda áfram í partíið Europrís kóklaus.
        http://connect.garmin.com/activity/181107919

        Góður matur, frábær félagsskapur og Ísland var komið í úrslitakeppnina. Allir for forpartígestir óskaplega hamingjusamir. Þá kom að því að leggja af stað til bróður mín. Á miðri leið þá fann ég hjá mér óstöðvandi löngun í að lesa leiðara Morgunblaðsins á morgun. Man ekki til þess að það hafi gerst í svo náinni fortíð. Því var ekkert annað í stöðunni en að taka stefnuna á prentsmiðju Morgunblaðsins. Sem var jú næstum því í leiðinni. Ákvað úr því að ég var á þessari leið að koma við hjá Inga. Hætti þó snarlega við þegar ég áttaði mig á hvað klukkan var orðin. Þarna var ég orðin svangur og fékk mér því skyndibita í Norðlingaholti.
        http://connect.garmin.com:80/activity/embed/181107904

        Þrátt fyrir mínar bestu tilraunir til að útvega Moggann tókst það ekki og haldið var til brósa í Grafarholti. Þar voru jú allir sofnaðir eins og við var að búast. Augljóslega var ég orðinn villtur þegar þarna var komið því heimleiðin á að vera um 6 km. Það var jú farið að rökkva töluvert. Veðurspásérfræðingar á nokkrum innlendum og útlendum stofnunum höfðu spáð því að það lægði með kvöldinu. Hvað vita þeir svo sem. En ég komst heim að lokum. Hjólaferðalag dagsins var rúmlega 91 km. Þar af um 88 á leiðinni heim og rammvilltur meira eða minna allan tíman.
        http://connect.garmin.com/activity/181107878

        Kveðja,
        Jón Elías

      • Varmárskóli yngri - Varmárskóli

        Eftir áralangri bið fengumvið reiðhjólaskýli á skólaloðina okkar. jibbiii! Að vísu er einungispláss fyrir 12 hjól og maður verður að mæta snemma til þess að fá eittaf þessum eftirsóttum stæðum. Annað verður maður að láta sér nægja aðsetja hjólið í eina af þessum byegluðum grindum sem eru búnar að þjónareiðhjólamönunnum lengi. En allir góðir hlutir gerast hægt og gaman erað sjá hve margir nemendur hjóla núna í skólann

      • Tannhjólin - Advania

        Tannhjólin byrjuðu af krafti þar sem nokkrir meðlimir hjóluðu á móti Njarðvíkurbúa fyrsta daginn.

        Gummi hjólaði úr Álfkonuhvarfi til Njarðvíkur en Huldar og Magnea hjóluðu úr Hafnarfirði.

        Stefáni þótti ekki verra að hafa ferðafélaga á leiðinni í vinnuna :)

        Nokkrum dögum síðar tók Huldar sig til og hjólaði á móti Stefáni. Hann var kominn til Njarðvíkur og ekkert bólaði á Stefáni.

        Það kom í ljós að Stefán þurfti að vera heima hjá veiku barni svo Huldar hjólaði einn í vinnuna þann daginn, rétt um 80km!

      • Stuðþjónustan - Verkís

        Maður er ekki alveg kominn meðskipulagið í kringum það að vera á hjóli. Í morgun hjólaði ég í vinnunnaog skellti mér svo í sturtu rjóð og sæl. Að lokinni sturtu var komið aðþví að klæða sig en þá uppgötvaði ég mér til mikillar armæðu að neðrihluti "outfittsins" hafði orðið eftir heima! Þá voru góð ráð dýr....entil mikillar lukku fundust regnbuxur í pokanum og var hjólað stutta leiðí Lyfju í Lágmúla til að versla sér nærbrækur og sokkabuxur! Já - maðurlendir í ýmsu í hjólað í vinnuna....

      • Teams Valiant; Like-a-Sir; Thunder; Lightning; Experience og Fabulous - Suðurhlíðarskóli

        Viðákváðum að vera djörf þetta árið og skora á nemendur í Hjólað ívinnuna. Það voru ekki allir vissir um hvort þetta gengi upp, þar semskólinn er ekki hverfisskóli, heldur sækja nemendur hann ofan úrGrafarvogi og Vatnsenda, sunnan úr Hafnarfirði og Kópavogi, utan afSeltjarnarnesi og jafnvel ofan úr Mosó. En þetta fór svona rosalega velaf stað hjá okkur að á fimmtudaginn taldist okkur til að það væru 25-27hjól á svæðinu og svo bætist við sá fjöldi sem er labbandi, áhjólaskautum og í strætó. Þar sem það er bara 41 nemandi og u.þ.b. 10starfsmenn (eftir því hvernig er talið) finnst okkur þetta mjög gott.Þótt sumir nemendur (og kennarar) komi langt að finna þau einhver ráð.Sum eru keyrð hluta af leiðinni og hjóla svo restina, önnur fara úrstrætó fyrr en venjulega og labba/hjóla það sem eftir er og enn önnursmala saman í hópreið, til dæmis nokkrar stúlkur í 3. - 6. bekk sem búa íBreiðholtinu. Ekki skemmir svo fyrir að nemendur fá að keppa viðkennara og tvö lið nemenda eru fyrir ofan kennaraliðið þegar þetta erskrifað - það kætir marga.

        Þegar raðað var í lið tókum við mið af aldri nemenda, svo meðalaldurliðanna væri nokkðu jafn, en á næsta ári getum við notað upplýsingarþessa árs til að gera liðin enn jafnari með tilliti til búsetu og virkninemendanna. Það er óhætt að segja að átakið slær í gegn hérna ogvonandi höldum við áfram út skólaárið.

        Kveðja

        Stefán, kennari í Suðurhlíðarskóla

      • OK Hjól - OK Hull ehf

        10. maí

        Sumir tóku forskot á sæluna og hjóluðu í sund í öðru bæjarfélagi á leið í vinnuna.

        Aðrir mættu á kristilegri tíma og svo var tekin hópæfing á heimleiðinni.

        Þeir sem ekki þurftu að sinna börnum og betri helmingum, fóru ástarfsmannafund í Elliðaárdal, þar sem skógarstígarnir voru kannaðireilítið.  Undirbúningur fyrir Bláalónsþraut í fullum gangi, eins og sagter.  Sumum kom á óvart hve brekkur geta verið brattar, sérstaklega upp ímóti.Eftir hjartnæmar kveðjustundir í Árbænum hélt afgangurinn út úr bænumþar sem Rauðavatn var kannað og loks áð á Dalvegi á leið heim ímiðbænum.  

        Tilfinnanlegur skortur á öli hamlaði þó vinnugleðinni.

        Útlitið er gott, en betur má ef duga skal.

      • Brimblar1 - Brimborg

        Talandi um uppákomur , þá er Sigurður F Reynisson í Brimborg búinn að lenda í smá uppákomum !

        Það sprakk dekk hjá honum í síðustu viku , og svo brotnaði hjá honum „gírkassinn“ í gær !Og hefur Sigurður F. nánast labbað jafnmikið með hjólið og hann hefur hjólað  síðustu daga.(telst það með ?)

        Meðfylgjandi er mynd af ónýta gírkassanum (myndin sendist sér)

        f.h Brimborgarliðanna, Halldóra J

      • Króm - Þekking

        Hjólað í vinnuna - dagur 1

        Undirbúningur hefur verið þó nokkur hjá liðsstjórum liðanna tveggjaog stjórn starfsmannafélagsins. Í ár verður innanhúskeppnin súveglegasta síðan við byrjuðum að taka þátt, upphaf og endir mörkuð, íhverri viku einhver uppákoma í tengslum við keppnina. Spennan því alltað áþreifanleg og fyrsta dags beðið með eftirvæntingu.

        Dagurinn rann upp og viti menn, veðurguðirnir eru með okkur þennanfyrsta dag, í gær var frost og norðanátt, í  dag glaðasólskin ogEyjafjarðaráin spegilslétt í logninu. Þessir 12 kílómetrar semliðsstjóri Króm hjólar í vinnuna voru unaðslegir í morgun, gæsir, álftirog endur buðu góðan dag og einnig aðrir hjólandi vegfarendur sem égmætti á leiðinni. Síðasta brekkan upp í háskóla var svolítið erfið enferðin öll vel þess virði að vakna hálftíma fyrr... vonum svo aðnorðanáttin haldi sér í skefjum!

        Liðsstjóri Króm

      • Skjalaskottur - Amtsbókasafn/Herak

        Skjalaskotturnar eru sex og notast ansi mikið við tvo jafnfljóta eða hjólhestinn þegarferðast skal á milli staða á Akureyri. Brekkugata 17 er vissulega ígöngufæri fyrir þau öll og því eru bílar Skjalaskottna sjaldséðir(næstum aldrei-séðir) í parkplássum þar í kring. Sumir ganga, aðrirhjóla eins og brjálæðingar, afrekin eru ýmis og allir eru sigurvegarar ásinn hátt. Lára býr í Grundargerði, Sigrún býr í Hólsgerði, Doddi býr íAkurgerði, Hólmkell býr í Grænumýri, Gunnur býr í Strandgötunni ogGuðrún Hulda í Munkaþverárstræti. Glöggir aðilar taka auðvitað eftir þvíað þessi upptalning er í nákvæmri fjarlægðarröð frá Brekkugötu 17!Þetta eru nefnilega ekki bara göngu- og hjólagarpar, heldur líkaskipulagðir með meiru og hafa sennilega hjólað eða gengið flestar,allflestar ef ekki allar götur bæjarins. Skjalaskottur horfa því meðtilhlökkun til "Hjólað í vinnuna". Og við erum þess fullviss um að beinleið í vinnuna er eitthvað sem verður ekki við lýði þessa daga, heldurverða teknir krókar á leið okkar, kílómetrar munu hrannast upp og ílokin standa uppi stoltar sex skjalaskottur, sem hafa ekki eytt krónu íbensín og umhverfið verður þar af leiðandi þakklátt!

      • Orka 1 - Efla

        Á morgun verður loksins farið af stað í hjólað í vinnuna. Liðsmenn Orka 1hafa staðið við ráslínuna í marga daga og hefur Rut verið að birgja sigupp með hafragraut og eplabitum til að mæta orkutapið.

        Björner farið að tala um að hjóla bláfjallahringinn kl. 5:00 á morgnannabara til að hita upp. Væntanlega mun hann þá ekki missa af sameiginlegamorgunmatnum á föstudag…

        ÓliJón  leggur af stað frá Reykjanesbæ í nótt og verður passlega kominntil Straumsvíkur til að mæta á fund hjá Ísal kl. 10:00.

        Ingvar hefur fundið hjólið sitt aftast í bílskúrnum (og ýmislegt annað sem var týnd í mörg ár).

        Smáranir hlaupa töluvert mikið í boltanum í hverri viku og er spurning hvernig hægt verður að reikningsfæra það í keppnina.

        Guðjón Eyólfur hjólar á Kawasaki en mun drepa á vélinni síðustu 20 km til aðvera með. Jóhannes Rúnar er staddur í útlöndum en kemur sterkur inn ínæstu viku.

        Heimirog Robert hjóla alltaf og skrá kílómetrana . Þannig allt er tílbúið ogverður hörð keppni innanhús milli liða hér hjá Eflu.>

      • Skjalaskottur - Amtsbókasafn/Herak

        Skjalaskotturnar eru sex og notast ansi mikið við tvo jafnfljóta eða hjólhestinn þegarferðast skal á milli staða á Akureyri. Brekkugata 17 er vissulega ígöngufæri fyrir þau öll og því eru bílar Skjalaskottna sjaldséðir(næstum aldrei-séðir) í parkplássum þar í kring. Sumir ganga, aðrirhjóla eins og brjálæðingar, afrekin eru ýmis og allir eru sigurvegarar ásinn hátt. Lára býr í Grundargerði, Sigrún býr í Hólsgerði, Doddi býr íAkurgerði, Hólmkell býr í Grænumýri, Gunnur býr í Strandgötunni ogGuðrún Hulda í Munkaþverárstræti. Glöggir aðilar taka auðvitað eftir þvíað þessi upptalning er í nákvæmri fjarlægðarröð frá Brekkugötu 17!Þetta eru nefnilega ekki bara göngu- og hjólagarpar, heldur líkaskipulagðir með meiru og hafa sennilega hjólað eða gengið flestar,allflestar ef ekki allar götur bæjarins. Skjalaskottur horfa því meðtilhlökkun til "Hjólað í vinnuna". Og við erum þess fullviss um að beinleið í vinnuna er eitthvað sem verður ekki við lýði þessa daga, heldurverða teknir krókar á leið okkar, kílómetrar munu hrannast upp og ílokin standa uppi stoltar sex skjalaskottur, sem hafa ekki eytt krónu íbensín og umhverfið verður þar af leiðandi þakklátt!

      • Orka 1 - Efla

        Á morgun verður loksins farið af stað í hjólað í vinnuna. Liðsmenn Orka 1hafa staðið við ráslínuna í marga daga og hefur Rut verið að birgja sigupp með hafragraut og eplabitum til að mæta orkutapið.

        Björner farið að tala um að hjóla bláfjallahringinn kl. 5:00 á morgnannabara til að hita upp. Væntanlega mun hann þá ekki missa af sameiginlegamorgunmatnum á föstudag…

        ÓliJón  leggur af stað frá Reykjanesbæ í nótt og verður passlega kominntil Straumsvíkur til að mæta á fund hjá Ísal kl. 10:00.

        Ingvar hefur fundið hjólið sitt aftast í bílskúrnum (og ýmislegt annað sem var týnd í mörg ár).

        Smáranir hlaupa töluvert mikið í boltanum í hverri viku og er spurning hvernig hægt verður að reikningsfæra það í keppnina.

        Guðjón Eyólfur hjólar á Kawasaki en mun drepa á vélinni síðustu 20 km til aðvera með. Jóhannes Rúnar er staddur í útlöndum en kemur sterkur inn ínæstu viku.

        Heimirog Robert hjóla alltaf og skrá kílómetrana . Þannig allt er tílbúið ogverður hörð keppni innanhús milli liða hér hjá Eflu.>

      • Króm - Þekking

        Hjólað í vinnuna - dagur 1

        Undirbúningur hefur verið þó nokkur hjá liðsstjórum liðanna tveggjaog stjórn starfsmannafélagsins. Í ár verður innanhúskeppnin súveglegasta síðan við byrjuðum að taka þátt, upphaf og endir mörkuð, íhverri viku einhver uppákoma í tengslum við keppnina. Spennan því alltað áþreifanleg og fyrsta dags beðið með eftirvæntingu.

        Dagurinn rann upp og viti menn, veðurguðirnir eru með okkur þennanfyrsta dag, í gær var frost og norðanátt, í  dag glaðasólskin ogEyjafjarðaráin spegilslétt í logninu. Þessir 12 kílómetrar semliðsstjóri Króm hjólar í vinnuna voru unaðslegir í morgun, gæsir, álftirog endur buðu góðan dag og einnig aðrir hjólandi vegfarendur sem égmætti á leiðinni. Síðasta brekkan upp í háskóla var svolítið erfið enferðin öll vel þess virði að vakna hálftíma fyrr... vonum svo aðnorðanáttin haldi sér í skefjum!

        Liðsstjóri Króm

      • OK Hjól - OK Hull ehf

        10. maí

        Sumir tóku forskot á sæluna og hjóluðu í sund í öðru bæjarfélagi á leið í vinnuna.

        Aðrir mættu á kristilegri tíma og svo var tekin hópæfing á heimleiðinni.

        Þeir sem ekki þurftu að sinna börnum og betri helmingum, fóru ástarfsmannafund í Elliðaárdal, þar sem skógarstígarnir voru kannaðireilítið.  Undirbúningur fyrir Bláalónsþraut í fullum gangi, eins og sagter.  Sumum kom á óvart hve brekkur geta verið brattar, sérstaklega upp ímóti.Eftir hjartnæmar kveðjustundir í Árbænum hélt afgangurinn út úr bænumþar sem Rauðavatn var kannað og loks áð á Dalvegi á leið heim ímiðbænum.  

        Tilfinnanlegur skortur á öli hamlaði þó vinnugleðinni.

        Útlitið er gott, en betur má ef duga skal.

      • OK Hjól - OK Hull ehf

        9. maí.

        Átakið fór vel af stað hjá OK Hjól, flestallir sem ætla að vera meðmættu á hjólum í vinnuna og voru þannig öðrum til hvatningar ogfyrirmyndar.  Að loknum vinnudegi fór hópurinn svo á starfsmannafund viðElliðavatn og að sjálfsögðu var hjólað þangað.

        Bergur Duracell-kanína fór mikið fram og aftur, kannaði hvað varframundan og sótti svo þá öftustu í hópnum.  Kannski ætti að minnkaeitthvað vítamínskammtinn hjá honum, svo hann fari sér ekki að voða.

        Tobba fór löngu leiðina heim og skilaði okkur hinum fyrst, eins oggóðum starfsmannastjóra sæmir, á meðan Jón Túrbó var næstum orðimmklökkur yfir þvií að fá svona fallega fylgd heim, alla leið upp fyrirsnjólínu.

        Birgir göslaðist áfram með hnakkinn alltof lágt stilltan og nánastvindlaus dekk, þar til snillingarnir komu auga á þetta og kipptu í lag. Síðan hefur ekkert til hans spurst.

        Dögg er nú í stífum daglegum æfingum fyrir Blálónsþrautina 10. júní,en á eftir að sættast við tilhugsunina um grýtta fjallvegi og rykský. Stangar stöku mýflugu úr tönnunum, annars allt í góðu.

        Snorri svitnar stöðugt yfir tímum keppinautanna á hraðbrautinni íFossvogsdalnum, en leyfilegur útivistartími setur strik í reikninginn ogkemur í veg fyrir að tímametið verði slegið....enn sem komið er.

        Allt í allt, góð byrjun, en betur má ef duga skal.
      • Breiðlokur og langlokur - Matur og mörk

        Við hjá Matur og Mörkerum að taka þátt í 3 sinn í ár. Ætlum að sjálfsögðu að bæta okkur,lentum samt í því óláni að annar liðstjórinn okkar forfallaðist og hefurekki komið til vinnu ennþá :( Við reynum samt að láta þetta ekki áokkur fá og höldum ótrauð áfram. Veðrið hefur ekki verið upp á margafiska undanfarið ,en fer nú batnandi með hverjum deginum . Það sést ekkieinn bíll á planinu hjá okkur og ef það kemur fyrir er sá hinn samipúaður niður.

      • Stuðþjónustan - Verkís

        Maður er ekki alveg kominn meðskipulagið í kringum það að vera á hjóli. Í morgun hjólaði ég í vinnunnaog skellti mér svo í sturtu rjóð og sæl. Að lokinni sturtu var komið aðþví að klæða sig en þá uppgötvaði ég mér til mikillar armæðu að neðrihluti "outfittsins" hafði orðið eftir heima! Þá voru góð ráð dýr....entil mikillar lukku fundust regnbuxur í pokanum og var hjólað stutta leiðí Lyfju í Lágmúla til að versla sér nærbrækur og sokkabuxur! Já - maðurlendir í ýmsu í hjólað í vinnuna....

      • Tannhjólin - Advania

        Tannhjólin byrjuðu af krafti þar sem nokkrir meðlimir hjóluðu á móti Njarðvíkurbúa fyrsta daginn.

        Gummi hjólaði úr Álfkonuhvarfi til Njarðvíkur en Huldar og Magnea hjóluðu úr Hafnarfirði.

        Stefáni þótti ekki verra að hafa ferðafélaga á leiðinni í vinnuna :)

        Nokkrum dögum síðar tók Huldar sig til og hjólaði á móti Stefáni. Hann var kominn til Njarðvíkur og ekkert bólaði á Stefáni.

        Það kom í ljós að Stefán þurfti að vera heima hjá veiku barni svo Huldar hjólaði einn í vinnuna þann daginn, rétt um 80km!

      • Varmárskóli yngri - Varmárskóli

        Eftir áralangri bið fengumvið reiðhjólaskýli á skólaloðina okkar. jibbiii! Að vísu er einungispláss fyrir 12 hjól og maður verður að mæta snemma til þess að fá eittaf þessum eftirsóttum stæðum. Annað verður maður að láta sér nægja aðsetja hjólið í eina af þessum byegluðum grindum sem eru búnar að þjónareiðhjólamönunnum lengi. En allir góðir hlutir gerast hægt og gaman erað sjá hve margir nemendur hjóla núna í skólann

      • Einstaklingsfyrirtæki - Lingua/Norðan Jökuls ehf.
        Ef farangurinn er ekki of mikill og vegalengdin er viðráðanleg þá finnst mér alltaf skemmtilegra að hjóla og upplifa veðrið - ekki einangra sig inni í bifreið! Ég hef talað við fleiri sem vilja finna veðrið hverju sinni og njóta þess við að hjóla.

        Í næstsíðustu viku var einn dag hávaðarok á Héraði. Ég hjólaði yfir fljótið í bakarí til að kaupa nýtt brauð. Reyndar var svo hvasst að ég fauk einu sinni af stígnum á leið til baka. Einnig skemmdi ég saumaðan innkaupapoka sem slóst í stoð á brúnni. Samt fannst mér þetta helst jákvætt ævintýri eins og yfirleitt að finna veðrið. Hér er vísan sem ég samdi á meðan ég barðist við storminn:

        AÐ HJÓLA Í ROKI
        Við veðurofsann ógnarlega
        yndi hef að berjast.
        Vöðvar stækka stórkostlega,
        sterkum krafti verjast.
        Síðustu hendinguna hef ég viljandi margræða.

        Philip Vogler, Egilsstöðum
        s. 864 1173
      • ISB Eureka I - Íslandsbanki

        Hvernig er hægt að villast svona á leiðinni heim?

        Hjólað í vinnuna og úr vinnu.

        Eftir raunir gærdagsins er ég að hugsa um að hjóla bara í vinnuna og hætta að hjóla úr vinnunni. Ég var rammvilltur á leiðinni heim. Þetta ætti þó ekki að draga úr ykkur að hjóla líka úr vinnu. Ég veit að þið eruð mjög ratvís.

        Allt byrjaði þetta frekar sakleysislega. Ég byrjaði á að hjóla í vinnuna. Það gekk ágætlega enda óþreyttur eftir góðan nætursvefn.
        http://connect.garmin.com/activity/181107930

        Þegar vinnudegi var lokið lagði ég af stað í Eurovision for forpartí í kópavog. Ég þurfti að koma við í Europrís á völlunum í Hafnafyrði til að kaupa kók sem inniheldur útlenskt vatn. Sérstök ósk frá Eurovision for forpartíhaldara. En viti menn það var búið að loka búlunni endanlega. Ekkert annað að gera en að halda áfram í partíið Europrís kóklaus.
        http://connect.garmin.com/activity/181107919

        Góður matur, frábær félagsskapur og Ísland var komið í úrslitakeppnina. Allir for forpartígestir óskaplega hamingjusamir. Þá kom að því að leggja af stað til bróður mín. Á miðri leið þá fann ég hjá mér óstöðvandi löngun í að lesa leiðara Morgunblaðsins á morgun. Man ekki til þess að það hafi gerst í svo náinni fortíð. Því var ekkert annað í stöðunni en að taka stefnuna á prentsmiðju Morgunblaðsins. Sem var jú næstum því í leiðinni. Ákvað úr því að ég var á þessari leið að koma við hjá Inga. Hætti þó snarlega við þegar ég áttaði mig á hvað klukkan var orðin. Þarna var ég orðin svangur og fékk mér því skyndibita í Norðlingaholti.
        http://connect.garmin.com:80/activity/embed/181107904

        Þrátt fyrir mínar bestu tilraunir til að útvega Moggann tókst það ekki og haldið var til brósa í Grafarholti. Þar voru jú allir sofnaðir eins og við var að búast. Augljóslega var ég orðinn villtur þegar þarna var komið því heimleiðin á að vera um 6 km. Það var jú farið að rökkva töluvert. Veðurspásérfræðingar á nokkrum innlendum og útlendum stofnunum höfðu spáð því að það lægði með kvöldinu. Hvað vita þeir svo sem. En ég komst heim að lokum. Hjólaferðalag dagsins var rúmlega 91 km. Þar af um 88 á leiðinni heim og rammvilltur meira eða minna allan tíman.
        http://connect.garmin.com/activity/181107878

        Kveðja,
        Jón Elías

      • UÍA - UÍA

        Fljótsdalshérað 15. maí 2012.

        Ég komst að því í morgunn að þetta er spurning um vilja og viðhorf, ekki veður.

        Upplifun morgunsins var einhvern veginn svona:

        Sleithjólið úr skaflinum og dustaði af því mesta snjóinn. Paufaðist uppsnjóuga og svellhála heimreiðina, með nístingskaldannorðanvindinn......og nóg af honum í fangið. Hugsaði með mér þegar égsneiddi hjá sköflunum á veginum ,,Rækallinn ég er líklega eins klikkuðog fólk vill vera að láta!" 5 km látlaust streð á móti vindi, varðblessunarlega til þess að mér fór á sjötta km, að hlýna á fingrunum, oglíf færðist í þá inni í þreföldu ullarvettlingunum. Þegar nær drógEgilsstöðum lægði vindinn og það fór að snjóa....góð skipti! Krapi var áveginum við Egilsstaði og var leiðinlegur en allt hafðist þetta. Varðloks, eftir 18 km hlýtt á tánum, það er þegar ég var komin undirsturtuna í íþróttahúsinu á Egilsstöðum.

        ÁFRAM UÍA!

        Hildur Bergsdóttir liðsstjóri UÍA liðsins
      • Breiðlokur og langlokur - Matur og mörk

        Við hjá Matur og Mörkerum að taka þátt í 3 sinn í ár. Ætlum að sjálfsögðu að bæta okkur,lentum samt í því óláni að annar liðstjórinn okkar forfallaðist og hefurekki komið til vinnu ennþá :( Við reynum samt að láta þetta ekki áokkur fá og höldum ótrauð áfram. Veðrið hefur ekki verið upp á margafiska undanfarið ,en fer nú batnandi með hverjum deginum . Það sést ekkieinn bíll á planinu hjá okkur og ef það kemur fyrir er sá hinn samipúaður niður.

      • Ríkishjólið - Ríkislögreglustjóri

        Ég er einn af þeim sem fergangandi í gegnum þetta átak.  Ég er á ferðinni á gangstígum oggangstéttum og það er talsvert af reiðhjólum á ferðinni á sömu slóðum.Eitt sem hjólamenn mættu taka upp er að nota bjölluna þegar þeir komaaftan að okkur sem erum gangandi. 1-2 hljóðmerki nokkuð áður og viðvitum þá að þið eruð að nálgast.  Stundum bregður manni, maður erjafnvel í þungum þönkum, og svo gerist það að hjólreiðamenn verða aðhjóla út á gras til að komast framhjá manni. Allt þetta væri hægt aðfyrirbyggja með einum bjölluhljóm.

      • OK Hjól - OK Hull ehf

        9. maí.

        Átakið fór vel af stað hjá OK Hjól, flestallir sem ætla að vera meðmættu á hjólum í vinnuna og voru þannig öðrum til hvatningar ogfyrirmyndar.  Að loknum vinnudegi fór hópurinn svo á starfsmannafund viðElliðavatn og að sjálfsögðu var hjólað þangað.

        Bergur Duracell-kanína fór mikið fram og aftur, kannaði hvað varframundan og sótti svo þá öftustu í hópnum.  Kannski ætti að minnkaeitthvað vítamínskammtinn hjá honum, svo hann fari sér ekki að voða.

        Tobba fór löngu leiðina heim og skilaði okkur hinum fyrst, eins oggóðum starfsmannastjóra sæmir, á meðan Jón Túrbó var næstum orðimmklökkur yfir þvií að fá svona fallega fylgd heim, alla leið upp fyrirsnjólínu.

        Birgir göslaðist áfram með hnakkinn alltof lágt stilltan og nánastvindlaus dekk, þar til snillingarnir komu auga á þetta og kipptu í lag. Síðan hefur ekkert til hans spurst.

        Dögg er nú í stífum daglegum æfingum fyrir Blálónsþrautina 10. júní,en á eftir að sættast við tilhugsunina um grýtta fjallvegi og rykský. Stangar stöku mýflugu úr tönnunum, annars allt í góðu.

        Snorri svitnar stöðugt yfir tímum keppinautanna á hraðbrautinni íFossvogsdalnum, en leyfilegur útivistartími setur strik í reikninginn ogkemur í veg fyrir að tímametið verði slegið....enn sem komið er.

        Allt í allt, góð byrjun, en betur má ef duga skal.
      • Fákarnir - Hrafnista Reykjavík
        Hrafnista er með nokkur lið, en okkar lið heitir Fákarnir. Við erum fimm í Fákunum og langar að senda inn vísu um okkur:


        Fákarnir

        Nú þeysast fákar fráir fram um veg.

        Mót fjallahlíðum háum þeysi ég.

        Og golan kyssir kinn, og golan kyssir kinn.

        Á harða, harða spani hendist áfram hjólafákur minn.


        Það er sem fjöllin fljúgi móti mér,

        sem kólfur loftið kljúfi hjólið fer.

        Og lund mín er svo létt, og lund mín er svo létt,

        eins og gæt´ ég gjörvallt lífið geisað fram í hjólasprett.


        Hve fjör í æðar færist fáknum með.

        Hve hjartað léttar hrærist, hlær við geð;
        að finna fjörtök stinn, að finna fjörtök stinn.

        Þú ert mesti gæðagripur, góði létti hjólafákur minn.


        María Hrund, hópstjóri, Hófý, Dagbjört, Auður Anna og Berglind
      • Hlíðar - Heilsugæsla höfuðborgarsvæðis

        Í morgun var lagt afstað í yndislegu veðri, sólin var að verma jörð en snjór var meðframhjólastígum og í görðum, gaman var að sjá hvé margir voru hjólandi ímorgunsárið. Eftir að hafa hjólað í allan vetur í misjöfnu veðri er gottað finna að sumarið er í nánd og mætast brosandi hjólamenn og konur áhverju götuhorni og hjólastígum,  munum eftir að brosa og heilsa hvortöðru.

      • Fiseindirnar - Geislavarnir ríkisins

        Nafn á hjólaliði er mjögmikivægt. Hvað á kalla hjólalið geislavarna ríkisins, þar sem næstumhelmingur starfsmanna er eðlisfræðingar. Jú auðvitað Fiseindirnar.Fiseindir eru skemmtilega og léttar eindir sem ferðast um heiminn ánmikillar mótstöðu. Enda er fiseindageislun ekki jónandi og þar með ekkiheilsuspillandi geislun. Þrátt fyrir að fiseindir séu ekki sjaldgæfareindir (um 65 milljarðar fiseindir á sekundu fara í gegnum hvernfersentimeter sem er hornréttur á sólina) þá eru líkurnar að rekast áeina aðeins 1 á móti fjórum fyrir allt lífið.

      • Greinó 4 - Greiningar- og ráðgjafastöð ríkisins

        Þegar éghjóla í vinnuna þá er dagurinn á margan hátt öðruvísi. Ég vakna t.d. 30mínútum fyrr en venjulega, kíki út um gluggann og gái til veðurs. Íhugahvaða fatnað ég eigi að velja fyrir hjólaferðina, vona að það verðurléttur stakkur en ekki vatnsheldur vindjakki. Set á mig heimatilbúiðbuff, hjálminn og dríf mig af stað. Hjóla aleiðis í vinnuna, fyrst umsinn meðfram umferðargötum en beygi fljótlega yfir á hjólastíg meðframÖskjuhlíðinni. Þegar ég hjóla framhjá fyrstu grenitrjánum sé ég oftlitla svarta og hvíta kanínu sem er furðulega oft á sama stað. Ilmurinnaf trjánum kemur mér líka í gott skap og falleg birtan sem kemur ígegnum skóginn. Á leiðinni heyri ég fuglasöng og sé hvernig gróðurinn erallur að vakna eftir veturinn. Mér líður vel og hamast upp síðustubrekkuna áleiðis í vinnuna. Mæti síðan rauð í kinnum, frískleg ogorkumeiri en þá daga sem ég vel bílinn fram yfir hjólið.

      • Græna merin - Safnahúsið á Egilsstöðum
        Starfsmenn safnahússins á Egilsstöðum ákváðu að taka þátt í átakinu en hafa ekki staðið sig sem skyldi því veðrið setti illilega strik í reikninginn.
        Liðið heitir eftir merku farartæki eins starfmannsins, f forláta þríhjóli sem gengur undir nafninu Græna merin – eða bara Merin. En þann 20. maí ákváðu veðurguðirnir að Egilsstaðabúar hefðu haft nægilega gott vor/sumar í bili og dengdu yfir okkur kynstrin af snjó sem hefur ekki tekið upp ennþá. Þeir alhörðustu létu þetta ekki á sig fá og gengu í vinnuna – en reiðhjólin, þar á meðal Græna merin hafa staðið við stallinn og ekki verið treyst í ófærðina því þau er ekki á skaflajánum.
      • Inn út inn inn út - Landspítali
        Í þessu liði eru innlagnastjóri og hans hyski, þ.e. meðlimir útskriftarteymis LSH. Þetta eru miklir harðjaxlar með keppnisskap sem segir sex, enda eru meðlimirnir sex! Tveir meðlima eiga ekki hjól en láta það ekki á sig fá og ganga til vinnu hvurn einasta dag sem Guð gefur. Tveir hjóla utan af hinu lága Seltjarnarnesi í Fossvog, einn hjólar bæinn og sveitirnar þverar og endilangar (enginn veit alveg hvert hann er að fara) og einn fer lengri leiðina í vinnuna - alltaf. Liðið er samstillt og heilbrigt og lætur ekki smáharðsperrur eða norðanrok tefja sig neitt.
      • Reykholtsgengið - íþróttamiðstöðin í Bláskógabyggð
        Í síðustu viku háttaði svo til að ein úr hópnum varð að koma á bíl í vinnuna vegna þess að það var verið að fara með einn bekk úr skólanum í ferðalag og það vantaði uppá sæti í rútunni sem var fengin, mín dó ekki ráðalaus og ekki vildi hún skemma fyrir okkur hinum,þannig að hún tók til það ráðs að hjóla að heiman og í vinnuna og aftur heim snarlega til að sækja bílinn, góður liðsandi hér á ferð,:)
      • Samlokur og Langlokur - Matur og Mörk
        Við í Matur og Mörk erum öll að taka þátt í leiknum , með misgóðum árangri, en allir leggja sig fram um að ganga eða hjóla. Þó held ég að nýjasti starfskrafturinn og forstjórinn séu alveg með þetta á hreinu. Og tekur það þó þau lengri tíma að fara heim úr vinnunni en vinnan sjálf. Við hin erum að rembast við að fara aðeins lengri leið annaðhvort í eða úr vinnu.Til stendur að fara í langa ferð einhvern daginn, en veðrið er eitthvað að stríða okkur, þurfum sennilega að að fá okkur gönguskíði eftir helgi.
      • Dekkjaþrælarnir - Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins
        Við hér í hjólaliðinu dekkjaþrælarnir á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins vorum svo heppnar að vera þær fyrstu sem voru dregnar út í hvatningarleiknum þetta árið. Liðsstjórinn sendi á okkur línu í tölvupósti "Vinninga má vitja hjá mér" og valt þá þessi vísa upp úr einni okkar: Vinninga má vitja hjá mér, verkfærin þú færð um hæl. Heppilegt að hafa með sér huggulegan dekkjaþræl" Mikil forvitni og umræða spannst á vinustaðnum um verðlaunin, sem voru drykkjarbrúsi, viðgerðarsett og dekkjaþræll og þá sérstaklega um dekkjaþrælinn og þaðan kemur þetta nafn Dekkjaþrælarnir á liðið okkar. Bestu hjólakveðjur,Dekkjaþrælarnir, Greiningar- og áðgjafarstöð ríkisins Kópavogi.
      • Miðbæjarrotturnar - Heilsugæsla Höfuðborgarsvæðinsins
        Þekkjum hætturnar. Við Miðbæjarrotturnar, eitt að liðum Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðinsins, tókum í fyrra þátt í hjólað í vinnuna og höfðum öll gaman af. Við reyndar lentum í því að einn liðsmaður okkar datt af hjólinu sínu í miðborginni og slasaðist á öxl. Með þrautsegju og réttri þjálfun er hann kominn á hjólið aftur okkur öllum til mikillar ánæju. Við vorum fleiri sem duttum í miðbænun og öll við svipaðar aðstæður, þ.e. vorum á of hægum hraða. Þar sem er mjög þéttbýlt og mikil umferð bæði gangandi og akandi þá verðum við að fara varlega og þá er hraðinn stundum of lítil til að halda jafnvægi. Einnig erum við oft að fara upp og niður af gangstéttum sem líka eykur hættuna á að detta. En þegar maður þekkir óvininn þá er betra að forðast hann og nú hjóla- ganga og hlaupa Miðbæjarrotturnar í vinnuna sem aldrei fyrr.
      • Berlínarbollur - Skýrr
        Enn á ný hefjum við átakið að drífa okkur út og nýta eigin krafta til að komast til og frá vinnu. Í gær slóraði ég á heimleiðinni og fór uppí Víðidal þar sem mér tókst að kyngja einni smáflugu. Eitthvað var ég að vola um þetta við vinnufélaganna daginn eftir en þar sem þetta var hvorki geitungur né býfluga, þá fannst þeim ég gera úlfalda úr míinu. kv. Berlínarbolla
      • Ráðhús Árborgar
        Hjálmanotkun: Vil byrja á því að tjá mig um hversu skemmtilegt þetta átak er og fær mann svo sannarlega til að koma sér aftur af stað eftir veturinn. En að aðalatriðinu og það er notkun hjálma hjá reiðhjólamönnum. Fyrir mér er jafn sjálfsagt að nota hjálm þegar ég hjóla eins og að tannbursta mig. Ég var nefnilega svo svakalega óheppin í nóvember sl. að detta illa af hjóli og beint á höfuðið en ég var heppin að vera með hjálm. Hjálmurinn brotnaði talsvert og ég fékk þungt höfuðhögg tók mig tvær vikur að ná mér af. Enn er ég þó að bera þess bætur og höfuðið er enn mjög viðkvæmt. Satt að segja vil ég ekki hugsa það til enda hvar ég væri í dag ef ég hefði ekki verið með hjálm þennan morgun. En það virðist vera erfitt að kenna gömlum hundum að sitja, hvað þá að nota hjálma. Mér finnst mjög grátlegt hvað ég sé marga hér á Selfossi ekki nota hjálm þegar þeir hjóla, sérstaklega fullorðið fólk sem á líka að vera fyrirmynd þeirra sem yngri eru. Einnig finnst mér afskaplega slakt að vinna með fólki sem hefur heyrt mína sögu og tekur engum sönsum heldur hefur ákveðið að nota höfuðkúpuna sína sem hjálm á sínu höfði. Hjálmur er höfuðmál.
      • Team Armstrong - Norvik
        Oft eru reiðhjól hættulegri en bílar! Átakið hjólað í vinnuna er í hámarki og ekki mun ég láta mitt eftir liggja. Frúin skellti sér á bak fáksins og brunaði af stað í vinnuna, leiðin í vinnuna er ekki löng en mjög skemmtileg og möguleiki á fleirri en einni hjólaleið. Allar eiga þær það sameiginlegta að liggja að mestu niður í móti þannig að það er hægt að gefa vel í ? Kapp hljóp í frúna á þessum fallega mánudagsmorgni , 2 græn gangbrautarljós framundan á stóru Höfðabakkabrúnni, gírarnir skrúfaðir upp í gír 19 og frúin ákveðin að ná báðum ljósunum. Gamla gaf allt í bortn, brunaði yfir gatnamótin "YES" náði báðum ljósunum, snaraði sér inn á flotta nýja gangstíginn sem liggur samhliða vesturlandsveginum. BÚMM næsta sem ég vissi var að ég lá á hliðinni í mölinni á gangstígnum, hálf undir hjólinu. Skrambinn hvar gerðist eiginlega? Stökk á fætur eins gormur og hugsaði: SJITT vona sko að enginn hafi séð þetta, stýrið á hjólinu skakkt, nýja flotta karfan framan á stýrinu doldið beygluð, og smá rispur á nýja fína fákinum. Fann að ég hafði meitt mig í hægra hnéi og var eitthvað aum í hálsinum (þar sem stýrið stakkst í hann), skrönglaðis upp á fákinn aftur og komst í vinnuna, hrufluð á hnjánum og pínu skjálfandi. Um kvöldið sá ég svo að ég var þokkalega vel bólgin á öðru hnénu, víða marin á báðum fótleggjum og öðrum olboganum . Ég var heppin þarna að ekki fór ver, og auðvitað var ég með HJÁLM. En kæru hjólreiðamenn, lausamölin er greinilega jafn hættuleg reiðhjólum og bifreiðum, förum varlega, það sem brýtur okkur ekki gerir okkur bara harðari. Ég mun halda áfram að hjóla í vinnuna, en mun fara hægar yfir og passa láta ekki fákinn fleygja mér af baki aftur.
      • Heilsutvennurnar - Lýsi Hf.
        Aldrei er of varlega farið, einn orkuboltinn lenti í því að hjóla á bíl, svo mikill var eldmóðurinn, en sem betur fer var hann með hjálm og engin alvarleg meiðsl hlutust af. Aftur á móti var bíllinn ekki eins heppinn. Áfram Lýsi !!!
      • Umhverfisgæðingar II - Umhverfisstofnun
        Umhverfisstofnun hefur verið að bæta aðstöðu fyrir hjólreiðamenn og hvetja starfsmenn til þess að geyma einkabílinn heima. Það er dálítið síðan að sett var upp sturtuaðstað og núna síðasta haust í samgönguvikunni bauðst öllum starfsmönnum samgöngusamningur. Starfsmenn fá því umbun ef þeir hjóla, labba eða taka strætó í vinnuna. Rúsinan í pylsuendanum er svo hjólastæðið sem var útbúið á smá svæði við innganginn á bílageymslunni núna í vetur. Hörðustu starfsmenn stofnunarinnar sem hjóla alla jafnan í vinnuna yfir allt árið fengu svo fjarstýringu svo þeir geta hjólað beint inn án þess að fara af hjólinu. Við erum náttúrulega voða montinn af þessu að fullyrðum að þetta séu bestu hjólastæðin á landinu. En vildum gjarnan heyra ef einhver vinnustaður býður betur. Kveðja Gísli Jónsson, liðstjóri umhverfisgæðinganna II
      • Félhjólafélagið Sprettur - Félagsvísindastofnun HÍ
        Félagsvísinda - hjólaæði - fræðikvæði

        Hér knálega geysa fram garpar og sprundir
        nú grillir í mark okkar Melunum undir
        en hvað er að sjá?
        Hver fer þar á stjá?
        Jú, Sæmundur selsnautur hjólar um grundir

        Liði vísinda tókst hann að vekja
        og af virðingu burt vill ei hrekja
        heldur fá höld í liðið
        sem um sund hefur riðið
        og sést selsbaki Edduna skekja

        Skellum hjálmi á kappann í hvelli
        síðan hjólum öll saman um velli.
        Því þótt heimsendaspár
        veki hræðslunnar fár
        enginn grandað oss getur með belli(brögðum!)

        G(H)arún á baki hjólhesti aðfarnótt 21. maí 2011 ....úúú
      • Veit það ekki :-) - Menntaskólinn við Hamrahlíð
        Samið í tilefni átaksins hjólað í vinnuna: Ef makinn er gargandi og gólandi og girndin er argandi og spólandi, þá bílinn skalt spara og brjálaður fara bara í vinnuna hjólandi. Höf.: Bjarni Stefán Konráðsson, Íþróttakennari í MH
      • Eftirlitssveit A - Fjármálaeftirlitið
        Hugsum hvert um annað í hjólaumferðinni. Örn Valdimarsson, starfsmaður hjá Fjármálaeftirlitinu ,var að hjóla heim í Garðabæ að loknum vinnudegi 16. maí og var að fara niður Kringlumýrarbrautina við hverfið sem hefur verið kallað "Milli lífs og dauða" þegar dálítið óvænt gerðist. "Ég fór í gegnum þessi fínu undirgöng sem er búið að gera þarna fyrir hjólreiðamenn. Ég ætlaði að fara meðfram Kringlumýrarbrautinni og láta mig renna niður nokkuð langa brekku. Þar sem kemur kvísl á göngustígnum sá ég þúst, eitthvað sem lá utan í smá hæð í grasi við hliðina á stígnum. Ég velti því fyrir mér hvort ég ætti að athuga þetta eitthvað nánar þegar ég rann framhjá og það varð úr að ég ákvað að stoppa og snúa við. Þá sá ég að þetta var hjólreiðamaður. Hann lá hreyfingalaus og var með hjólið klemmt á milli fótanna og hélt annarri hönd um stýrið. Ég spurði hvort allt væri í lagi. Hann sagði ekki geta hreyft sig en ég sá að hann fann mikið til og það var greinilegt að hann lá ekki þarna til að hvíla sig. Ég spurði hvað hefði gerst og maðurinn sagðist hafa fengið svima og dottið af hjólinu en sem betur fer lent til hliðar við stíginn í grasinu. Ég spurði hann hvort hann væri með verki og hann svaraði því til að hann fyndi eiginlega alls staðar til. Út í öxl, í bakinu hálsinum og mjóhryggnum. Ég gat ekkert hjálpað manninum nema hvað ég reyndi að taka hjólið undan honum og gerði það eins varlega eins og ég gat. Ég beið svo í nokkrar mínútur en sá að hann var sárkvalinn svo ég hringdi á sjúkrabíl. Ég hringdi síðan í 112 og sagði konunni sem svaraði hvar við værum staddir, hvað maðurinn væri gamall og hvar hann fyndi til. Svona tíu mínútum síðar kom sjúkrabíll og lögreglubíll og manninum var ekið í burtu. Ég veit ekkert hvað síðar varð og vona bara að manninum heilsist vel. Það var lífsreynsla að koma að manni sem hafði greinilega orðið fyrir áfalli. Hann sagði mér að hann væri 54 ára og hann hafði greinilega byrjað að hreyfa sig með átakinu "Hjólað í vinnuna". Ég verð að viðurkenna að mér brá örlítið að komast að því að við vorum ekki á ólíkum aldri og ég hafði einmitt notað tækifærið til að fara að hreyfa mig dálítið meira með þessu átaki. Eins holl og góð og hreyfingin er verðum við sennilega öll að vera vakandi fyrir því að ætla okkur ekki um of og fara hægt af stað eftir kyrrsetu.
      • Geðveikt duglega liðið og Ruglað duglega liðið - Klúbburinn Geysir
        Félagar og starfsmenn hér tóku höndum saman við að hjóla, ganga eða taka strætó í vinnuna. Við finnum mikinn ávinning nú þegar. Við erum hressari, þægilega líkamlega þreytt og sjálfsmyndin fer sífellt batnandi.
      • Ekki Hemmarnir - Háskólinn á Akureyri
        Í morgun þurfti ég að fara með bílinn á verkstæði og verkstæðið er laaangt frá bæði heimili mínu og vinnustað. Setti aftursætin fram og skellti hjólinu afturí, keyrði á verkstæðið þar sem bíllinn varð eftir og hlólaði svo í vinnuna. Geri ráð fyrir að hafa sama háttinn á þegar bíllinn verður sóttur - bara í öfugri röð...
      • Nobbarar - Alcoa Fjarðaál
        Tour de Alcoa 2011 Ræs 04:40. Brottför í blankalogni kl 05:00 frá sundlauginni í Neskaupstað. Ferðinni var heitið inn Norðfjarðarsveit, yfir Oddsskarð, niður í Eskifjörð, yfir Hólmaháls og loks í álver Alcoa Fjarðaáls í Reyðarfirði. Alls um 40 km leið. Kjör aðstæður voru til hjólreiða, blanka logn og 0°c á Oddsskarði. Dýralífið á Austfjörðum setti mikinn svip á ferðina. Í Norðfjarðarsveit flugu stórir gæsahópar og strýddu veiðimönnunum í hópnum ásamt stökköndum sem flugu úr hverjum skurði. Á leiðinni niður í Eskifjörð voru leiðangursmenn í hvalaskoðun, en hvalur velti sér í Eskifirðinum okkur til mikillar skemmtunar. Þegar niður var komið og verið var að leggja af stað út Eskifjörðinn var tófa á harðaspretti í fjallinu en skarfurinn og straumendurnar í fjöruborðinu kipptu sér ekkert upp við það. Til að toppa þessa dýraskoðunarferð stóð hreindýrahjörð og beið eftir okkur þegar komið var yfir Hólmahálsinn. Það voru þreyttir en glaðir menn sem rúlluðu niður að álverinu 2 klst og 41 min frá brottför. Kv. Nobbarar
      • Ekki Hemmarnir - Háskólinn á Akureyri
        Það er aldrei of seint að byrja að hjóla. Sagði ekki einhver að ef maður hefur einhvern tímann lært að hjóla þá gleymist það aldrei, það er geymt einhvers staðar á góðum stað. Ég hef gengið til og frá vinnu í átakinu Hjólað í vinnuna og hef verið að manna mig upp í það að prófa að hjóla, en það eru rúm 30 ár síðan ég hjólaði á venjulegu reiðhjóli. Reiðhjól í dag eru orðin svo fullkomin með ótal gírum sem maður þarf námskeið til að læra á. Í minningunni notaði maður bara fæturna til að hjóla og til að stoppa sig. Á Akureyri eru ekkert nema brekkur, langar, háar, bugðóttar og beinar og ég hef séð mig í anda bruna stjórnlaust niður Gilið á Akureyri á einhverju gírahjóli og hvolfast síðan út í sjó. Ég ólst upp í bæ á suðvesturhorninu þar sem þarf að leita mjög vel og lengi til að finna sæmilega brekku sem Akureyringar hlæja sig máttlausa að þegar maður segir þeim að þetta séu brekkurnar í bænum. Áskorun dagsins í dag var að stíga á venjulegt gíralaust hjól með aðstoð einstaklega góðs og þolinmóðs hjólakennara (samstarfskonu). Með alltof lítinn hjálm á höfði og of lágt stillt sæti á hjólinu tókst mér að yfirvinna hræðsluna og hjóla hring á hluta af bílaplaninu, örugglega við mikinn fögnuð þeirra sem á horfðu. Núna eru mér allir vegir færir og er næsta áskorun að finna fína gírahjól sonar míns og æfa mig stolt og kannski kemst ég einhvern tímann Eyjafjarðarhringinn hjólandi.
      • Ásgeir - Hagstofa Íslands
        Hagstofa Íslands hefur áður tekið þátt í "hjólað í vinnuna". En nú er eins og allt ætli um koll að keyra því áhuginn hefur aldrei verið meiri og metnaðurinn framúrskarandi. Hér tekur fólk vítamín, nærist á hveitigrasi og heimapressuðum söfum og er fullt af orku. Hjólagrindur hússins eru fullnýttar og gætu verið tví- eða þrísetnar.
      • www.Unit.is - Nethönnun
        Þetta er í fyrsta skipti sem Nethönnun tekur þátt í þessum skemmtilega leik/átaki (að ég held).
        Með smá hvatningu og áskorunum þá náðum við að senda 1 lið til þáttöku. Það er ekkert eins hressandi eins og að hjóla í vinnuna á morgnana. Svo er þetta "win/win", eyðir calorium, sparar bensínpening og minni mengun, við græðum öll hvernig sem á það er litið. Þar sem ekki er sturtuaðstaða á vinnustaðnum þá fáum við að nota sturturnar hjá www.bootcamp.is gegn vægu gjaldi. Þar getum við teygt á stirðum vöðvum eftir langan hjólreiðatúr. Þó þessu átaki ljúki í lok maí þá er ég er viss um að við verðum nokkrir sem eigum eftir að hjóla í vinnuna miklu oftar eftir þetta átak. Pétur, liðsstjóri Unit.is
      • Cykelklubben - Þekking Akureyri
        Átakið er hafið og nú er hjólað og gengið í vinnuna á hverjum degi. Þetta er í fjórða sinn sem liðsstjóri tekur þátt og man ég vart eftir þvílíkri veðurblíðu í byrjun átaksins. Hjóla ég rúma 10 km til að komast til vinnu, meðfram Eyjafjarðará sem í morgun var lygn og bauð upp á sýningu. Straumönd, grágæsir og álftir. Mætti ég líka sjö hjólreiðarknöpum á leið til vinnu fram í fjörðinn sem er góð tilbreyting við bílaumferðina. Hjólakveðjur, Sigga - Cykelklubben
      • Bleiku slæðurnar
        Við í bleiku slæðunum eru svo heppnar að hafa hana Marrit sem liðsstjóra. Hún er svo mikill hjólagarpur að hún fer allar sínar ferðir hjólandi. Hjóla áhuganum hefur hún smitað til okkar allra og erum við því næstum farnar að hjóla og ganga óvart einhverja auka hringi.
        Við vorum svo heppnar að vera dregnar út í hvatningaleiknum og fengum þessi líka glæsilegu verðlaun, sem við erum allar svo ánægðar með. Og auðvitað tók liðsstjórinn okkar sig til og hjólaði héðan úr Kópavoginum til Reykjavíkur til að sækja fyrir okkur verðlaunin.
        ........ Hvatningar orðin hennar eru pumpið í dekkin.
        Kveðja Bleiku slæðurnar á Greiningar- og ráðgjafarstöð ríkisins.
      • Duglegir og hugmyndaríkir liðsstjórar
        Liðstjórinn okkar, Jóhanna Fríða Dalkvist, hefur sko verið að standa sig í ´´peppinu´´. Meðal annars tók hún á móti okkur í gærmorgun þegar við komum til vinnu, að sjálfsögðu á hjólum og eða gangandi, með innpakkaðann pakka í sellófónpappír og innihaldið var: Gatorade drykkur, plastglas á fæti, hnetur og rúsínubland í plastglasi, epli og muffins.
        Fyrir hönd liðsmanna Tækni- og verkfræðideildar Háskólans í Reykjavík, Vilborg Jónudóttir.
      • Hafdís Skjóldal, úr liðinu Sprengjurnar hjá Matur og mörk sendi okkur þessar línur
        Við hjá Mat og mörk á Akureyri ákváðum að taka þátt í Hjólað í vinnuna nú í ár,höfðum talað um þetta síðustu 2ár en aldrei gert neitt úr því fyrr. Reyndar ganga 6 af okkur annað hvort aðra eða báðar leiðir ( í og úr vinnu)allt árið um kring, Þetta byrjaði mjög rólega allir hjóluðu eða gengu beina leið í vinnuna og svo heim, síðan læddist keppnisskapið að fólki og nú er svo komið að keppnin er orðin æði hörð, fólk er allt að einn klukkutíma á heimleið sem áður tók aðeins 5 mín, og hringir í mig þegar heim er komið til að athuga hvot þeim hafi tekist að komast í fyrsta sæti.Það verður gaman að sjá þegar yfir líkur hvað sá eða sú sem kemst lengst ,hefur lagt að baki í bænum okkar sem kallaður er 5 mín bærinn . Kv matur og mörk
      • „Hjólað í vinnuna“ eða „Hjólað langa leið í vinnuna“
        Þetta er í fyrsta sinn sem ég tek þátt í átakinu en áhugi þess innan Háskólans á Akureyri hefur verið mikill. Það sem ég hef rekið mig á er að bærinn er ekki stór og vegalengdir í samræmi við það. Nokkuð hefur verið um að hvetjandi tölvupóstar hafa verið sendir á milli manna innan skólans með upplýsingum um stöðu í keppninni, hvernig liðunum gangi og jafnvel hver er búinn að fara lengst. Þetta hefur valdið því að hugafarið hjá mér hefur breyst, í staðinn fyrir viðhorfið „að vera með“ hefur nú keppnisskapið látið á sér kræla. Vandinn er hinsvegar sá að ég á heima skammt frá skólanum og fer ekki á marga vinnutengda fundi úti í bæ. Til að leggja mitt af mörkum til liðsins og skólans og veita félögum mínum samkeppni fer ég því ekki stystu leiðina í og úr vinnu heldur reyni að finna skemmtilegar leiðir sem gefa mér fleiri kílómetra! Fyrir mér er þetta því ekki lengur spurning um að hjóla í vinnuna eða ekki, heldur hversu langa leið ég ætla að hjóla.
        Kveðja frá Akureyri
        Sonja í „Siggunum“
      • Reynslusaga liðstjóra Hemmanna og Sigganna í Háskólanum á Akureyri
        Þegar ég gekk í vinnuna í morgun var ég að hugsa um hve hressandi það væri að ganga í vinnuna í stað þess að koma í bílnum. Ég hlustaði á fuglasönginn og naut útsýnisins og góða veðursins. Einnig varð mér hugsað til þess að ég væri orðin liðstjóri tveggja liða innan míns vinnustaðar, því við vorum of mörg til að komast fyrir í einu liði. Þegar ég var í grunnskóla þá var leikfimi ein af mínum lélegustu greinum og ég var ein af þeim sem var valin síðust í öll lið því ég var ekki talin líkleg til sýna góðan árangur. Ég var hins vegar góð í marki í handbolta. Kannski getur þetta verið hvatning fyrir alla þá sem voru valdir síðastir í öll lið í skóla. Það er enn von til þess að þeir geti líka orðið liðstjórar. Ég er ekki vön því að ganga oft í vinnuna og mín helsta hreyfing í vinnunni er að fara og sækja mér kaffi í bollann minn inn í mötuneyti. Þetta átak hefur hins vegar hvatt mig og aðra til að nota umhverfisvænan máta til að komast til og frá vinnustað og það er allt í einu orðið auðveldara að fá bílastæði við skólann hef ég heyrt.
        Hafdís Skúladóttir
      • Hvatning frá Kristjönu Sigmundsdóttur hjá Heilsugæslunni í Hlíðum
        Við í Hlíðunum, erum búin að pússa, smyrja, og herða upp hjólin og erum tilbúin að takasta á við hvað sem er minnug þess hvað veðrið var slæmt fyrstu vikuna í fyrra, en létum ekki bugast þá og gerum það ekki núna ef vindar blása.
      • Ofur Sprækir Vinnufélagar
        Það hafa ALDREI fleiri verið með í okkar fyrirtæki en í ár. Við byrjuðum með 1 lið fyrir 4 árum og þá vorum við 3 af ca. 40 manna starfshóp. Í dag eru liðin 3 og þurfti því að finna 2 listjóra til viðbótar :) þar sem við erum 21 af 40 manna hóp sem erum að taka þátt. Ég vil meina að liðshvatning, og sturtan góða sem kom í vetur á vinnustaðinn, hefur haft mikið að segja. Liðið okkar heitir "Ofur Sprækir Vinnufélagar" inniheldur 7 liðsmenn. Ein hefur reyndar flogið 2 svar á höfuðið en sem betur fer varð henni ekki meint af byltunum enda HJÁLMURINN alltaf til staðar. Við höfum bent henni á að við erum að keppa um daga og kílómetra EKKI HRAÐA. Önnur byltar var þegar hún ætlaði að sveiga hjá öskubíl borgarinnar á Laugarveginum en féll marflöt fyrir fætur strákanna. Það eru líka 3 fraukur í liðinu sem búa í öðru bæjarfélagi sem hittast flest alla morgna og fá sér göngutúr um miðbæinn áður en þær koma til vinnu. Þær eru búnar að skoða flest hús, garða og glugga miðbæjarins.

        Bestu kveður og takk fyrir skemmtilegan leik
        Kristín Nielsen
        Ps.
        Ég vil vekja athygli á því að margir liðsmenn halda áfram að hjóla og ganga til vinnu eftir að leik lýkur.
      • Ábending til hjólandi vegfarenda
        Ég er virkur þátttakandi í átakinu „ Hjólað í vinnuna“ og er mjög ánægð með þessa hvatningu til að nota hjólið meira. Á hverjum morgni hjóla ég úr Garðabæ í Ármúlann, og svo heim aftur sömu leið í lok dags. Þetta er frábær hreyfing. Þar sem þátttaka í átakinu er mjög mikil, þá vil ég biðja ykkur að setja áminningu um að við hjólreiðamenn verðum að taka tillit til gangandi vegfaranda sem einnig nota göngustígana. Nokkrum sinnum hef ég þurft að fara fram úr 2 fullorðnum konum sem ganga saman göngustíginn frá Sunnuhlíð í Kópavogi og að Safnahúsi Kópavogs. Í morgun var ég rétt komin fram úr þeim þegar ég mætti hjólreiðamanni á fleygiferð niður stíginn og hann mátti hafa sig allan við að keyra ekki á konurnar þar sem þær komu fyrir horn á stígnum. Þeim var greinilega brugðið og það er eflaust mikið af gangandi vegfarendum á göngustígunum sem hugsar okkur þegjandi þörfina. Mikið væri ég þakklát ef þið gætuð sett áminningu á síðu átaksins til að minna hjólreiðamenn á að hafa í huga að það eru gangandi vegfarendur á göngustígunum með okkur.
        Kveðja frá Ágústu B. Jónsdóttur
      • Hjólað í skólann
        Við í Sjálandsskóla tökum að venju þátt í hjólað í vinnuna. Við reyndar útvíkkum keppnina sem við köllum hjólað í skólann. Allir nemendur eru hvattir til að koma hjólandi eða gangandi í skólann - kennararnir skrá niður þá sem hjóla eða ganga og yngri nemendurnir fá perlur á band fyrir hvern hjólaðan/gengin dag.
        Á miðvikudaginn tókum við stöðuna og fengum þá frábæru niðurstöðu að fyrstu 6 dagana í átakinu höfðu 80,6% nemenda komið hjólandi/gangandi í skólann.
        Bestu kveðjur úr Garðabænum, Ólöf S. Sigurðardóttir.
      • Hvatning fá Valkyrjum á Hárgreiðslustofunni Valhöll
        Við erum 3 Valkyrjur á Hárgreiðslustofunni Valhöll 101 Rvk og komun úr sitt hvorri áttinni Kópavogi, Skipasundi og Árbæ þar sem undirrituð býr. Mig langar til að lýsa leiðinni fyrir ykkur sem er út Heiðarás og beint á hjólastíg, niður Elliðárdal, Fossvogsdal yfir Kringlumýrabrú, Nauthólsvík í átt að Valsheimili undir nýju undirgöngin þar svo taka brýrnar við yfir Hringbraut. Þannig að ég fer fyrst yfir götu á Sóleyjargötu. Það er bara dásamlegt að geta hjólað þessa yndislegu leið. Takk fyrir hvatningu á hverjum degi, áfram þið.
        kv. Helga
      • Hreppsskrifstofan á Reykhólum
        Hér á hreppsskrifstofunni á Reykhólum erum við þrjú að vinna. Við tökum öll þátt í átakinu. Í gær (6.maí) var þoka – mjög blaut – tvær kellur létu sig hafa það og komu frekar blautar til vinnu um morguninn. Sá þriðji hafði tekið bílinn, vegna vætu. Þegar liðsstjórinn skráði svo á síðu átaksins ferðir liðsins kom í ljós að við vorum í 5. sæti. Þetta var auðvitað algjörlega óásættanlegt og var þetta aðeins rætt yfir kaffibolla hvernig liðakeppnin virkar, að talið sé bæði í kílómetrum og dögum. Ekki þurfti frekari fortölur, stjórinn (sem fer alltaf heim í hádeginu) kom á hljólinu úr hádegismat og það besta, hafði bara skellt sér í pollagallann.
      • Skemmtileg innanhúskeppni hjá Umhverfisstofnun
        Í fyrra bjó ég til bikar sem lið Umhverfisstofnunar myndu keppa að. Það lið sem myndi hjóla flesta kílómetrana myndi vinna þenna glæsilega umhverfisvæna bikar. Bikarinn er handunninnn og gerður úr endurnýttu efni. Nánar tiltekið afgangstimbri og vírtein sem áður var sýnatökuhaldari og þar áður herðatré. Keppnin um bikarinn var hörð og aðeins fáir kílómetra skildu efstu liðin að í fyrra. En liðið sem ég er liðstjóri fyrir vann bikarinn. Til þess að hvetja mitt fólk og hin liðin innan Umhverfisstofnun þá kallast liðið okkar Bikarmeistararnir þetta árið því við ætlum auðvitað að vinna bikarinn aftur þetta árið. En við ætlumst samt til þess að okkur verði veitt hörð samkeppni svo að Umhverfisstofnun nái vinningssæti þetta árið.
        Gísli Jónsson, liðstjóri Bikarmeistaranna hjá Umhverfisstofnun
      • Okkur langar til að þakka fyrir þetta frábæra framtak, Hjólað í vinnuna.
        Við erum starfsfólk Heilsugæslunnar í Árbæ sem er ca 30 manna vinnustaður og hluti af Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins. Í gegnum tíðina hefur ekki verið mikill áhugi fyrir viðburðum hjá starfsmönnum hér í Árbæ og menn mjög sjálfum sér nógir með síkt. Í fyrra skoraði liðstjóri stjórnsýslu Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins á okkur að taka þátt en ég sló það af um leið. Það mundi enginn nenna því í Árbænum. Ekki skal maður segja svona fyrirfram því annað kom í ljós í ár.
        Sólardaginn miðvikudaginn 6. maí þegar Hjólað í vinnuna byrjaði kom í ljós að starfsmaður hafði mætt á hjóli og annar gangandi og sólin skein og allir voru til í eitthvað - ég sjálf gat ekki verið með því ég er með bílasamning og þarf að keyra í vitjanir o.fl. Ég sá að það var bara afsökun - ég gat bara skilið bílinn eftir í vinnunni. Þannig varð það til að það er engin afsökun fyrir að hjóla/ganga ekki nema bara að " Nenna ekki".
        Þegar ég var að skrá liðið kom allt í einu upp melding "Ekki má skrá fleiri en 10 í lið". Og þá var ekki um annað að ræða en að búa til 2 lið. Þegar allt var talið voru komnir 8 í hvort lið. Þetta er búið að vera svo skemmtilegt og fólk kemur mun meira brosandi í vinnuna þessar vikurnar- Allri sem koma hjólandi / Gangandi koma brosandi.
        Mesti sigurinn hjá okkur hingað til er hjá konu á sextugsaldri sem hefur ekki hjólað síðan um fermingu. Hún fékk lánað hjól til að prufa og er þvílíkt dugleg. Það var ansi erfitt í beygjunum - hún fer stundum of hægt í þær. Hún hefur dottið 4 sinnum og hjálmurinn er búin að sanna sig. En þetta er allt að koma og nýi hjólarinn okkar ætlar ekki að gefast upp heldur fer henni heilmikið fram.

        kv. Jóhanna Eiríksdóttir liðstjóri liðsins Árbær hjá heilsugæslunni
      • Þetta er ekkert nema gott og gaman að hjóla í vinnuna
        Þetta er búið að vera hrikalega gott fyrir okkur. Þetta er búið að gera okkur svo kraftmiklar að við í vinnunni höfum farið á Esjuna og stenfum á það að fara aftur í næsta mánuði. Sumar af okkur eru líka byrjaðar að synda eins og brálæðingar í sundi marga metra. Ein af okkur er búin að vera að hjóla allt árið, fer bara á nagladekk þegar það er hálka. Þetta er ekkert nema gott og gaman að hjóla í vinnuna.

        Spakó Stelpur
      • Bara gaman og gott fyrir þolið
        Ég er ein úr Íþróttahúsi Háskóla Íslands að hjóla. Fór 13 km úr Hafnarfirði í svakaroki, ekki var það betra heim, mótvindur og stundum var það ekki stætt, maður varð að labba með hjólið en þetta tókst á 1 tíma og 40 mín, en bara gaman gott fyrir þolið.

        Soffía Kristinsdóttir, Íþróttahúsi Háskólans
      • Það hefur gengið misvel hjá okkur, aðallega sökum veðurs.
        Einn liðsmaður hefur verið sérstaklega duglegur að fórna sér. Hann býr 2 km frá vinnustaðnum og tekur því alltaf á sig aukakrók til að ná lágmarkinu. Í þessari viku lét hann sig hafa þetta í þrjú skipti þrátt fyrir hífandi rok. Annar liðsmaður hefur farið næstum á hverjum degi þrátt fyrir að búa í talsverði fjarlægð frá vinnunni og er búinn að hjóla eitthvað á annað hundrað km. Enn annar liðsmaður hefur farið 3 af hverjum 4 dögum á línuskautum.

        kv. Ingólfur Kr. Magnússon liðsmaður hjá Sjúkratryggingafélagi Íslands
      • Liðið mitt er frábært.
        Við höfum meirihlutann af vöskum konum sem ganga eða hjóla rösklega til vinnu og heim dag hvern. Einn karlmaður hefur bæst í hópinn núna í dag. Sumir fara meiri króka og "útúrdúra" á leið til eða frá vinnu, allt fyrir liðsheildina. Mér finnst vanta að gera gangandi átakinu hærra undir höfði ! Þau eru alveg frábær og við myndum ekki standa þar sem við erum ef ekki væri fyrir þau sem strunsa ! Hér er smá vísa, í von um að við fáum verðlaun:

        Að ganga til vinnu gjöfult tel
        gefur það góða punkta í keppni
        hjólandi liðsmenn hressa ég vel
        hreppum við verðlaun ? - (það tel ég heppni).

        Stella Aðalsteinsdóttir
        liðsstjóri Auðugust hjá Umhverfisstofnun
      • Þessi vísa kemur frá Tryggva Má, liðsstjóra í Megingjörðum, Hagaskóla.
        "Sem gömlum norðanmanni finnst mér oft ganga hægt að hjóla á móti þessu eilífðarfreti hérna fyrir sunnan en... "

        að hjól'á móti er mikið puð
        magnast fetlatakið
        svo er reyndar rokna stuð
        rok að fá'í bakið

        Kveðja
        Tryggvi Már, liðsstjóri í Megingjörðum, Hagaskóla.
      • Dofri Hermannsson var fljótur að svara. Hér kemur vísan hans:
        Hve norðanmenn þeir monta sig
        er mest af gleymsku og blindu.
        Lognið það var þrettán stig
        er þakið fauk af Lindu.
      • Rokreynslusaga úr Breiðholtinu
        Úfff, þokkalegt veður í dag! Ég var búin að ákveða með sjálfri mér í gær að hjóla aðeins lengri leið til vinnu í morgunsárið. Ég dreymdi meira að segja fuglasöng, sól og blíðu og sá sjálfa mig fyrir mér þar sem ég hjólaði innan um blóm og grös. Leiðin sem ég ætlaði að hjóla er ekki nema 5 km löng og liggur um efsta hluta Elliðaárdalsins, upp Víðidalinn Breiðholtsmeginn og það skemmtilegasta, þarna er uppáhaldshólabrekkan mín. Ok ég hef oft hjólað þessa leið og skítt með vindinn, ég hef það nú af, fer létt með það!! Hugsaði ég galvösk áður en ég lagði af stað. (Þrátt fyrir að hafa hlustað með öðru eyranu í Kára kallinn í alla nótt). En það byrjaði nú ekki vel. Ég fauk nánast af hjólinu fyrir utan húsið mitt. Uss, hugsaði ég, ég fer nú ekki að láta þetta rok hafa af mér hjólatúrinn sem ég var búin að ákveða með sjálfri mér að taka. Svo leið mín lá niður í Elliðaárdalinn þar sem strekkingsvindur tók fagnandi á móti mér og ég þurfti að stilla hjólið í 80° halla... Uss hvaða hvaða, þetta lagast örugglega... Þegar ég fæ vindinn í bakið. En það bara lagaðist ekki. Á löturhraða, með vindinn í fangið og ég verð að segja að barnastóllinn sem er aftan á hjólinu varð verulega þungur baggi. Já ekki gat ég skilið hann eftir heima þar sem yngsti meðlimurinn (15 kg) fær hjólatúr heim úr leikskóla á hverjum degi:) Brekkan efst í Viðidalnum sem liggur niður úr Breiðholtinu og niður að Elliðaánum hefur alltaf verið í uppáhaldi hjá mér. Þar er nefnilega hægt að ná svo flottum hraða :) EN sorglegt fyrir mig, ég þurfti að stíga hjólið til að hafa hana.... NIÐUR! Úff. Vá klukkan var líka að verða 08:00 og þar sem ég er kennari þarf ég að mæta til vinnu á tilsettum tíma. Mér var því nauðugur einn kosturinn að STÍGA hjólið eins og ég gat til að ná til vinnu á þessum 10 mín. sem eftir voru..... ég vona að enginn hafi séð til mín... en ég hef á tilfinningunni að sjónin hafi ekki verið neitt sérstaklega tignarleg fyrir mig.... ;)

        Mér finnst ég samt vera "vinner" :) ég hjólaði þennan hring sem ég var búin að ákveða, komst heil á áfangastað á réttum tíma og uppskar bara heilmikið hrós fyrir :) Ég var heldur ekki sú eina sem hjólaði, það börðust fleiri samstarfsfélagar við Kára og standa því í sömu sporum og ég :) Við erum því öll sigurvegarar og þeir voru fleiri hér sem tóku aukahringi fyrir vinnu þrátt fyrir rokið, sandrokið, tárin, nefrennslið og aumu lærvöðvana :)

        Bestu hjólakveðjur
        Sofia Selásgarpur
      • Öflugt hjólreiðafólk úr Flensborg láta vindinn ekki stöðva sig þrátt fyrir nokkrar "flugferðir"
        Við hér í Flensborg erum með mjög öfluga og kraftmikla konu í okkar liði sem hvetur okkur hin til dáða og vílar ekki fyrir sér að hjóla af Seltjarnarnesinu og hingað í Hafnarfjörðinn. Hún tekur jafnvel smá krók út á Álftanes í leiðinni – enda er þetta nú ekki mikið mál þar sem hún situr bara á hjólinu… að hennar sögn!! Hún er meir að segja svo dásamlega að bjóðast til að koma með meðlæti með morgunkaffinu í Hafnarfjörðinn þó hún eigi ekki að mæta í vinnuna þann dag – það frestaðist reyndar vegna veðurs líkt og opna kaffihúsið.

        Í rokinu í gær voru nokkrir sem tóku smá ,, flug“ og fljóta hér tvær sögur úr fluginu sem komu á hvatningapóstlista okkar Flensborgara.

        Flugsaga 1: Sigurbjörg (þessi orkubolti af Seltjarnarnesinu) ákvað að hjóla nú eftir hádegi út í Hafnarfjörð og dútla eitthvað í skólanum. En þar sem hún er stödd á Nesveginum í hávaðaroki tekst Frú Sigurbjörg skyndilega á loft og flýgur með hjólið milli lappanna út á miðja götu en lendir þó standandi (á dekkjunum). Sem betur fer átti enginn jeppi (margir hér á Nesinu) leið hjá. En það skipti engum togum, Sigurbjörg hætti við förina út í Hafnarfjörð, sneri heim og fékk sér te.

        Flugsaga 2: Eftir að hafa farið á góða æfingu í Hress á Völlunum settist ég aftur á fákinn með vagn í eftirdragi og þar ofan í var þung æfingataska - sem betur fer ekki barn með í för því er ég var rétt búin að berjast áfram 1 km þá fauk allt heila klabbið á hliðina og ég endaði nánast úti á götu!! En mín hélt nú áfram þrátt fyrir að góðlegir bílstjórar biðu fram aðstoð sína - í vinnuna skyldi hjólað :) Farið því varlega í dag og aðra daga þegar veðurguðirnir láta móðann mása :)

        Með hjólakveðju - Bryndís Jóna Jónsdóttir
      • Fyrsti dagur í Hjólað í vinnuna hjá Selásskóla.
        Mikið var gaman að mæta til vinnu í morgun (það er það reyndar alltaf, en það var sérlega létt yfir fólkinu í morgun!). Sól, blíða, fuglasöngur, sveittir hjólreiðakappar og börn á leið í skóla. Hjá okkur eru skráðir 20 þátttakendur á öllum aldri af 43 starfsmönnum skólans. Það er frábært! Við erum himinlifandi yfir þessu. Við hjólum og göngum í vinnuna. Stemningin er flott og umræðan á kaffistofunni snýst um hjálma, hjólin, hraðamæla, vegalengdir og tilvonandi flotta glæsirass- og lærvöðva!.... úúúú :) Mikil áform eru um að vinna „hitt“ liðið og mikill samhugur er í fólki. Reyndar er samhugurinn á milli liða líka, sem er frábært!! Umræður um skemmtilegar leiðir til og frá vinnu, hvernig er hægt að lengja leiðina og hvaða brekkur séu skemmtilegastar. Þar kemur hraðamælirinn sterkur inn! Svo eru það gallarnir. Þeir eru nú sér kapituli út af yfir sig ;) Kaffistofuumræðurnar snúast því ekki um kennsluaðferðir í stærðfræði, heldur um það hver fær flottasta rassvöðvann ;)
        Frábært framtak að koma sér í vinnuna á eigin orku. Það er svo sannarlega gott að hlaða rafhlöðurnar í upphafi og lok vinnudags með góðum hjólreiðatúr!

        Bestu kveðjur; Selásgarparnir!
      • Úrsúla Junemann sendi okkur þessar línur
        Dásamlegt er að vakna og leggja af stað í vinnu. Maður mætir með rauða kinna og úfið hár, púlsinn aðeins hækkaður, eldhress og glaðvakandi. Fuglasöngurinn hljómar ennþá í eyrunum og vorlyktin frá nýútsprungnum aspartrjám er í fersku minni.

        Úrsúla Junemann Varmárskóla
      • Finnur Sigurðsson hjá Nýherja sendi okkur góð ráð og hvatningu.
        Ég heiti Finnur og er liðstjóri HjólNý hjá Nýherja. Þetta er fjórða sumarið sem ég hjóla í vinnuna, hjólaði reyndar í vetur líka eftir að ég eignaðist nagladekk. Ég byrjaði að hjóla með það fyrir augum að spara eldsneyti á bílinn, var pínu erfitt fyrst en kom svo í ljós að þetta er ekki mikið mál og satt að segja finnst mér mjög gaman að hjóla. Það er orðið þannig að það að spara eldsneyti er ekki ástæðan lengur, miklu frekar hvað þetta er skemmtilegt og heilsan betri. Lóðalyftingar í tækjum eða leikfimi í heilsuræktarstöðvum hafa aldrei heillað mig, en útivera með góðri hreyfingu passar miklu betur.

        Þegar ég byrjaði var vegalengdin á dag 21km fram og til baka, var þá að fara frá Grafarholti í Borgartún. Nú erum við í söludeild Nýherja flutt í Urðarhvarf í Kópavogi svo þetta er aðeins 11km núna, bara auðvelt og skemmtilegt.
        Ég hef lært margt síðan ég byrjaði að hjóla í vinnuna, hér eru nokkur dæmi:

        1.) Alltaf hjóla með lokaðan munninn á sumrin! Flugur eru ekki góðar á bragðið.

        2.) Ekki fara yfir götu fyrr en bíllinn er farinn framhjá! Þó þú horfir beint í augu bílstjórans og hann horfir á þig, er ekki víst að hann sjái þig.

        3.) Hallærislega grænt buff sem 8ára dóttir mín á hættir alveg að vera hallærislegt á höfðinu á mér þegar það er frost og kalt!!

        4.) Skegg er góð "Veðurkápa" á veturna.

        Ég náði að draga saman 10 manna hóp fyrir átakið núna, sumir vildu gjarna taka þátt en aðra þurfti að beita fortölum, en merkilegt nokk allir hafa að amk hjólað einu sinni eða ætla allavega. Þetta bara skemmtilegt !!

        Kveðja,
        Finnur Sigurðsson
        liðstjóri HjólNý hjá Nýherja
      • Skemmtisaga af liðsmanni í liðinu Gleðileg hjól frá Borgarholtsskóla
        Hún kemur frá yndislegum frönskukennara sem heitir Eva og er dásamlega hlý og frönsk og með henni viljum við í Borgarholtsskóla benda fólki á nauðsyn hjálmanotkunar.
        Eva hjólaði í vinnuna í gærmorgun, alsæl í morgunsárið, tók krókaleið til að njóta ferðarinnar enn meira og safna kílómetrum, hlustaði á fuglasöng og brosti til allra sem hún hitti. Þegar hún kom upp í skóla kyssti hún og knúsaði alla fallegustu karlkennarana en tók þá eftir að fólk var farið að hlæja að henni. Loks gat ein samstarfskonan ekki orða bundist og spurði:"Eva mín, hvað ertu með í hárinu?" Kom þá í ljós að hún var með stóra fuglaskítsklessu í hárinu.
        Vesalings Eva fékk engan samúð en í staðinn uppskar hún hlátur og athugasemdir eins og " Svona gerist þegar maður notar ekki hjálm"

        Kv.
        Ásta Laufey, Borgarholtsskóla
      • Góð hvatning frá fyrirtækinu Samey
        Við hér hjá Samey ákváðum að reyna að fá fleiri starfsmenn með í átakið í ár og útbjuggum því hvatningarkörfu. Dregið verður um körfuna af þeim sem taka í það minnsta einu sinni þátt í átakinu og til mikils er að vinna. Við hlökkum til að hitta aðra þátttakendur á hjólreiðastígum höfuðborgarsvæðisins, kveðja Brekkupuðararnir.

        kv. Linda Björk Jóhannsdóttir, Samey
      • Sigríður Hrefna Pálsdóttir Liðstjóri Speedy Gonzales hjá Þekkingu hf. (hjólaði í morgun úr Innbænum upp í HA á 2 gíra 20 ára DBS hjólinu sínu) og sendi þessar skemmtilegu línur.
        Afsakið, ég er aðeins of sein í vinnuna.
        Afsakið, ég mæti rennandi sveitt í vinnuna.
        Afsakið, maskarinn lekur niður á kinnina,
        en það voru brekkur, slydda og mótvindur á leiðinni í vinnuna
        og AUÐVITAÐ var HJÓLAÐ Í VINNUNA
      • Frábær keppni og hvatnig fyrir alla að hjóla í allt sumar.
        Það er skemmtileg keppni í Hjólað í vinnuna. Það byrjaði nýr starfsmaður hjá mér í byrjun maí þannig að hún gleymdist við skráningu liðsins og var bætt við daginn eftir. Þar með var fjöldi starfsmanna rangur fyrstu dagana, þetta leiðréttist greinilega ekki sjálfkrafa.Við fengum samt nokkuð harðort bréf frá öðru liði um að við værum með ranga skráningu og því ekkert að marka kílómetrafjöldann. Við höfðum gaman af og hjóluðum tvöfalt meira næsta dag. Þá varð til þessi vísa:

        Viltu ekki vinurinn

        vera bara góður.

        Ef þaninn verður þinurinn

        þungur verður róður.

        Halldór G Halldórsson liðsstjóri endajaxlanna
      • Hann er dauður en Bubbi er á lífi
        Ég hef tekið þátt í átakinu hjólað í vinnuna undanfarið og verið samviskusamur að hjóla í vinnuna. Þetta er hin besta líkamsrækt og skemmtun og svo eykur þetta samheldnina á vinnustaðnum. Á mínum vinnustað eru tvö lið sem keppa og vart má sjá hvort liðið er duglegra að hjóla. Síðasta vika var okkur erfið enda rokið ótrúlega mikið en ekki létum við það stoppa okkur.

        Þetta ágæta framtak skerpir vel á liðsheildinni og sem dæmi um það þá fór ég í magaspeglun í gær fyrir hádegi. Ekkert alvarlegt í gangi bara smá tékk á karlinum. Í tengslum við þessa speglum fær maður lyf þannig að maður má ekki aka neinu farartæki næstu sex tímana. Konan skutlaði mér á spítalann og eftir speglunina labbaði ég í vinnuna. Liðsfélagar mínir voru nú allir glaðir að sjá mig heilan en það var haft á orði að ekki hefði ég skilað mörgum kílómetrum í dag. Þegar sex tímar voru liðnir frá lyfjatökunni var mér skutlað heim og bent á að ekkert væri til fyrirstöðu að hjóla í vinnuna. Þetta var bara hressandi enda veðrið yndislegt. Á leiðinni heim úr vinunni hjólaði ég fram á unga drengi í Fossvogi sem stóðu yfir félaga sínum sem lá hreyfingarlaus á grúfu á jörðinni. Ég spurði þá vort eitthvað væri að. „Hann er dauður“ sagði einn drengjanna. Mér brá nú aðeins við þessi svör og stökk af hjólinu og hugaði að dregnum sem lá á jörðinni. Ég komst strax að því að hann var ekki dauður því ég heyrði hann gráta. Það var ákveðinn léttir. Ég skoðaði drenginn hátt og lágt og komst fljótt að því að hann var alveg heill og það var ekki síst að þakka hjálminum sem hann bar á höfðinu. Drengurinn hafði skollið í götuna þegar hann rakst á félaga sinn sem einnig var á hjóli og var í miklu áfalli. Ég kom drengnum á lappir og fullvissaði mig, hann og félagana um að allt væri í þessu fína lagi. Ég hrósaði þeim félögum sérstaklega fyrir að vera með hjálma á höfðinu og benti þeim á að hér hefði geta farið illa ef félagi þeirra hefði ekki verið með hjálm. Að þessu sögðu kvöddumst við og héldum áfram okkar ferðum. Ég var með hjálm á höfði eins og alltaf þegar ég hjóla og því ágætis fyrirmynd fyrir þessa ungu drengi.

        Ég hef alltaf verið mikill talsmaður hjálmanotkunar og trúi því að það sé heilbrigð skynsemi að nota hjálm, svona svipað og að nota öryggisbelti í bíl. Flestir sem ég mæti á ferðum mínum hjólandi eru með hjálm en mér sýnist að unglingar og eldri reiðhjólamenn séu þeir hópar sem noti þá síst. Rætt hefur verið um það hvort lögleiða eigi notkun reiðhjólahjálma og sýnist sitt hverjum. Ég er allavega mjög hamingjusamur að konan mín og Bubbi Morteins skildu sýna heilbrigða skynsemi og nota hjálma því þau eiga það sameiginlegt að hafa dottið á hjóli þar sem hjálmurinn bjargaði þeim báðum frá alvarlegu slysi. Ef það þarf að lögleiða hjálmnotkun til að bjarga fleira fólki frá alvarlegum slysum, eins og í tilfelli elskulegu eiginkonu minnar og Bubba kóngs, þá er ég því fylgjandi því ekki er bara hægt að treysta á heilbrigða skynsemi í þessum málum. Notum hausinn, notum hjálm.

        Spaði númer 5 - Vinnustaður; Slysavarnafélagið Landsbjörg
      • Um að gera að skella sér á hlaupahjólið.
        Einn af starfsmönnum Leikskólans í Stykkishólmi lét ekkert stoppa sig í að taka þátt í "hjólað í vinnuna". Hún lagði af stað í vinnuna á sínu "svaka fjallahjóli" ásamt 5 ára dóttur sinni, en tók samt með sér skiptilykil ef pedallinn myndi detta af, en það hafði gerst áður. Svo auðvitað gerist það þegar hún hafði hjólað ca. 500 metra að pedallinn datt af og henni tókst ekki að koma honum á aftur. Þannig að hún sneri við heim og sér þá hlaupahjól eldri dóttur sinnar standa upp við húsvegginn. Í öllum flýtinum (var að verða of sein í vinnuna) grípur hún hlaupahjólið og brunar af stað aftur. Síðan hefur hún komið hjólandi á hlaupahjólinu alla dagana alsæl og finnst hún vera ung aftur, (sennilega búin að leggja hlaupahjólinu).

        Kv. Magðalena leikskólanum í Stykkishólmi
      • Viðar Sigurjónsson er ekki hættur og svara um hæl
        Reyndist allt með ró og spekt,
        er reif í þakið sýndist mér,
        eitthvað sem var lygilegt,
        lognið var að flýta sér!
      • Svakalega hressandi svona hjóla túrar :)
        Jæja, dagurinn að vera búinn, andvarpa, búin með erilsama vakt. Fer úr blessuðum sjúkrahúsfötunum í léttar buxur, peysu og strigaskó. Hvernig er það með regngallan er hann orðinn þurr síðan í morgunn, jájá þetta sleppur. Guli fákurinn bíður fyrir utan, spenntur að komast heim aftur. Bruna að stað, úff rokið, sem betur fer er þó hætt að rigna. Rokið í bakið á leiðinni heim og það er niður í móti. Ansi er þetta ljúft og hressandi, nýt hraðans í botn, Kári í fullri vinnu við að ýta mér og ég þarf ekki að hafa fyrir neinu. Kræki fyrir ljósastaur, í sama bili kemur vindhviða munar engu að mér sé feikt á staurinn, Kári greinilega eitthvað að gefa í skyn. Stoppa svo á gatnamótum, vá þarf að halda við hjólið best að fjúka ekki yfir götuna. Rýk af stað aftur, næ hraðameti meðfram nýju Hringbrautinni. Skila mér heim, stíg af hjólinu, öll þreyta og erill fokinn út í veður og vind.

        Sigrún Guðný Pétursdóttir í Slysó –liðinu frá Landspítalanum.
      • Sigríður Valgerður Finnsdóttir frá Actavis svaraði fyrir suðurhornið með þessari skemmtilegu vísu.
        Í rokinu við rembumst hér
        og rennblaut dugnað sýnum
        í sól og blíðu einfalt er
        að aka hjólum fínum
      • Fengum þessa vísu senda úr blíðunni fyrir norðan frá starfsmanni ÍSÍ á Akureyri, Viðari Sigurjónssyni.
        Vatnsveður og fjaðrafok
        fer að taka völdin.
        Höfuðborgarrassgatsrok
        reif í kaffitjöldin.

        Skorum við á þátttakendur Hjólað í vinnuna út um allt land að svara Viðari.
      • Hættulegt að hjóla ekki alla leið :-)
        Það er ekki auðhlaupið að því að vera í alvöru liði í „Hjólað í vinnuna“. Þegar maður sér það að liðsfélagarnir láta ekkert stoppa sig, getur maður ekki verið minni maður en þeir (þó kona sé). Ég lagði því af stað úr Borgartúninu í gær og ferðinni var heitið í Hafnarfjörð.

        Eftir að hafa misst hjólið einu sinni undan mér í vindhviðu, kyrrstæð á gatnamótum... fannst mér ástæða til að láta sækja mig.

        Ég var því komin hálfa leið þegar ég var dregin að landi og keyrð heim. Þegar heim kom þurfti auðvitað að koma hjólinu í hjólageymsluna. Mér fannst nú asnalegt að leiða hjólið hringinn í kringum húsið til að koma því inn, svo ég settist á bak. Ég var rétt komin á góðan skrið niður brekkuna meðfram húsinu þegar vindhviða koma skyndilega og skellti mér eins og tindáta um koll. Frekar neyðarlegt....... Búin að láta sækja mig inn í Kópavog..... til að forða slysum... og ná svo að slasa sig 20 metrum frá útihurðinni!!!!

        Í morgun ákvað ég svo að leggja í hann aftur þó ég hafi verið svolítið löskuð eftir byltuna í gær. Hafði mig alla leið í vinnuna... ýmist með vindinn á hlið eða í bakið... en hef ekki gert upp við mig hvort ég fer heim á hjólinu. Vandamálið er... að það er mikið hættulegra að láta sækja sig en að hjóla alla leið!

        Kv. Hulda Ragnheiður í Ferðalöngunum í Kaupþingi
      • Lára Ág. Ólafsdóttir sendi okkur þetta úr blíðunni fyrir norðan.
        Nú þegar maður les um rok á suðvesturhorninu, tjöld að fjúka um koll og ekki hægt að úða í sig góðgæti frá Ávaxtabílnum þá rifjast upp sagan af henni Hólmfríði. Það var hérna fyrir helgi, þegar veðrið var ískalt hérna fyrir norðan og úrkoman var einhvers staðar milli þess að vera snjókoma og slydda, þá hjólaði Hólmfríður í vinnuna. Hún lét veðrið ekki á sig fá enda sönn keppnismanneskja og sterkur liðsmaður í liðinu ,,Svarti hesturinn". Þar sem veðrið var ekki sem best klæddi hún sig vel, fór í svarta og mikla regnkápu og setti stóran flókahatt á höfuðið. Hatturinn var nátt'lega það stór að hann náði yfir hjálminn og niður á axlir. Hattinn þurfti hún svo að tjóðra vel niður enda hætta á að hann færi af í næstu roku. Til að sjá minnti hún helst á miðaldanorn, nema þá var ekki búið að finna upp reiðhjólið. Þar sem Hólmfríður hjólaði áleiðis í vinnuna kemur hún að hópi töffara sem stóðu á götuhorni. Sumir voru á stuttermabolum og líklegir til afreka í götuhlaupi. Nema hvað, einum þeirra bregður hrikalega þegar Hólmfríður kemur á fartinu og spyr í fátinu: ,,Hvað er nú þetta eiginlega?" Annar varð fyrir svörum: ,,Þetta er kúl kjelling".

        Bestu kveðjur úr sunnanáttinni á Akureyri. Lára.
      • Tour de Alcoa hjá Nobburum
        Hópurinn Nobbara hjá Alcoa Fjarðaál hjólaði í morgun frá Neskaupstað, yfir Oddsskarð, niður í Eskifjörð, yfir Hólmaháls og í álver Fjarðaáls í Reyðarfirði alls um 40 km vegalengd sem liggur yfir einn af hærri fjallvegum landsins. Hérna kemur smá ferðasaga. Lagt var að stað frá sundlaug Neskaupstaðar í blíðskapar veðri kl 05:00 að morgni dags þriðjudaginn 12. maí. 10 manns mættu galvaskir og klárir í Tour de Alcoa, sem er um 40 km leið sem meðal annars liggur yfir Oddsskarð, einn af hærri fjallvegum landsins. Það var hjólað rólega inn norðfjarðarsveit, en eftir 30 minútur á hjólunum tók við fyrsta brekkan, og hún entist nánast alla leið upp að oddsskarðsgöngum eða í um 9 km. Á þessari leið upp var mikið tekið á því, dekk sprakk, morgunmatnum var skilað í einu tilviki og mótvindurinn hélt bara áfram að blása, alveg sama hvað við tautuðum og rauluðum. En upp hafðist það eftir 1 klst og 40 mínútur frá brottför fyrir fyrstu menn og var því mikið fangað, því eftir góða pásu tók við bráðskemmtileg niðurkeyrsla alla leið niður í Eskifjörð. En Adam var ekki lengi í paradís, því þegar niðurkeyrslunni var lokið tók við Hólmahálsinn, sem aldrei hefur verið jafn langur og brattur og í dag að mati hjóla garpanna. Síðustu kraftarnir voru kreystir úr lærum, sársaukinn eftir hnakkinn var bitinn í sig og upp fóru allir menn. Þá tók við önnur niðurkeyrsla og nú blasti álver Fjarðaáls við og 2 klst og 50 min frá brottför komu þreyttir, en glaðir Nobbarar í vinnuna. Hjólunum var komið fyrir á kerru, því ekki treystu menn sér í að hjóla tilbaka svona í fyrstu tilraun, en hver veit, kannski verður það gert næst.

        F.h Nobbara,
        Matthías Haraldsson
      • Saga frá Skólaeldhúsinu – Team 2009
        Þó við séum aðeins fjögur að keppa fyrir hönd Skólamatar þá er mikill metnaður í að standa okkur vel og ná góðri hreyfingu út úr þessu öllu saman. Um leið og skráð hafði verið í liðið var farið heim og pumpað í dekk, hert á bremsum og keðjur smurðar. Tveir í liðinu voru nú þegar byrjaðir í átaki og hafa staðið sig með prýði svo fyrir þá var bara að halda vinnunni áfram.
        Við hjólum á mismunandi tímum og mislangar vegalengdir en öll komumst við á leiðarenda, í misgóðu ástandi. Við höfum öll einhver markmið, sum háleitari en önnur. Einn vill vera fær um að hjóla í hvaða veðri sem er og telst það vera ansi háleitt markmið þar sem oft getur reynst erfitt að hjóla í íslenskri veðráttu. Svo eru aðrir sem hafa það einfalda markmið að geta hjólað upp götuna heim til sín án þess að þurfa komast undir læknishendur vegna oföndunar og máttleysis.
        Þó að hinar og þessar hindranir verða á vegi okkar höldum við ótrauð áfram og klárum þessa keppni og að henni lokinni verðum við að kafna úr stolti svo við höldum áfram að hjóla í og úr vinnu.

        Kveðja,
        Teamið frá Skólaeldhúsinu.
        Guðjón Vilmar, Liðstjóri
        Tinna, Söguhöfundur og myndasmiður
        Tobbi, hjólreiðarkappi
        Alli, Hjólreiðarkappi
      • Hrakningar Magnúsar í liðinu Hjólasveinar frá Borgarholtsskóla.
        Hann segir sínar farir ekki sléttar.
        Ég kom hjólandi úr Kópavoginum í morgun, mjög hressandi. Nema að einu leyti. Loftinu sem fyllir lungun getur nefnilega fylgt aðskota- eitthvað. Með ferska loftinu í Grafarvoginum fylgdi í mínu tilfelli flugnager og amk. ein þeirra fór langleiðina niður í lungu. Þetta þýddi að stórlega dró úr hraða mínum því skrokkurinn vildi greinilega ekki hafa þetta aðskotakvikindi innanborðs. Ég barðist því við að kasta ekki upp á miðri leið, vildi það nú síður því fólk héldi kannski að „hjólað í vinnuna“ væri mér alger ofraun. Komst þó heilu og höldnu alla leið og gat losað mig við kvikindið þegar hingað kom. Fyrir utan að taka undir nauðsyn þess að nota hjálm, þá mætti kannski líka huga að mexikanska lookinu, og nota andlitsgrímu ? Hremmingar mínar gerðu það að verkum, að ég notaði rétt um 1 klst. til að hjóla þessa 9.87 km en það er vegalengdin úr Lundi í Borgarholtsskóla.

        Kv.
        Ásta Laufey, Borgarholtsskóla
      • Hvatning frá Sigríði Helgu Jónsdóttur í Selásskóla
        Hjá okkur í Selásskóla er stemming í kringum átakið hjólað í vinnuna, við erum dugleg að hvetja hvort annað hvort sem við göngum eða hjólum. Það hefur reyndar heyrst að "SUMIR" fari lengri leiðina bæði í og úr vinnu, og miklar pælingar í gangi hvaða leið sé hagstæðast að hjóla þ.e. gefi flesta kílómetra. en allt er þetta samt í sátt og samlyndi. Nemendur hafa líka verið að spá í af hverju svo margir séu á hjólum og það hefur líka heyrst að við ættum að fá fleiri kílómetra fyrir allar brekkurnar sem við þurfum að hjóla en hinir sem hjóli bara á jafnsléttu. Þau hafa ekki enn áttað sig á því að við förum líka niður brekkurnar.
        Með hjóla og göngu kveðju
        Seláshetjurnar.
      • Unnur Björk Lárusdóttir frá Intrum sendi okkur þessa hvatningu til kvenna
        Ég er þátttakandi í einsmanns einvala kvennaliðinu Skjalateymi hjá Intrum á Íslandi. Hjá okkur er karlarnir duglegri að taka þátt. Konur bera við stússi með börn og bíl eftir vinnu, eins þykir þeim ekki gott að þurfa að fara í sturtu á vinnustaðnum eftir morgunsnyrtinguna heima við. Ég hjólaði í fyrra og játa að fyrrgreind rök eru að mörgu leyti réttmæt. Hins vegar ákvað ég í ár að nýta mér strætó og labba hluta leiðar. Elliðaárdalurinn, Fossvogsdalurinn og Laugardalurinn eru allt perlur innan borgarmarkanna sem gaman er að ganga um á leið í og úr vinnu. Verði maður lúinn má alltaf hoppa upp í vagn. Það er hins vegar ekki alltaf auðvelt að finna góðar gönguleiðir nálægt helstu umferðaræðum þar sem vagnarnir stoppa og í morgun sat ég föst á umferðareyju dágóða stund. Hjólakappar og gangandi vegfarendur eiga líka eftir að læra dálítið á það að samnýta hjóla- og göngubrautir þannig að ekki hljótist slys af. Umferðareglur þurfa að gilda alls staðar – ekki bara á götunum! Með góðri skipulagningu og því að gefa sér góðan tíma má hins vegar fá fína hreyfingu og tíma til að njóta lífsins í morgunsárið eða eftir langa vinnutörn. Maður sér líka svo margt sem maður sæi tæpast út um bílgluggann. Átakið göngum/hjólum í vinnuna lengi lifi!
      • Reynslusaga og hvatning frá Gísla Jónssyni, liðsstjóra StórUst hjá Umhverfisstofnun
        Ég er með nokkur í liðinu sem búa fyrir utan Reykjavík og voru eitthvað að tala um að geta ekki tekið mikið þátt. Við vinnum hjá Umhverfisstofnun sem er við Suðurlandsbraut 24 með útsýni yfir Laugardalinn. Ég skellti mér því á Borgarvefsjána og fann skemmtilega göngutúr frá bílastæðunum við Laugardalsvöll, í gegnum Laugardalinn í vinnuna (upp á nákvæmlega 1,54 km). Kortagerðarmaður liðsins bjó svo til fínt kort sem var sent öllum starfsmönnum Umhverfisstofnunar. Öllum var einnig bent á að heilsubótagangan í gegnum Laugardalinn færi í gegnum grasagarðinn þar sem fólk gæti skoðað endurnar og fjölskrúðugar plöntur og blóm á leiðinni í vinnuna. Miðað við meðalgönguhraða 4-5 km/klst tæki svona ganga um 15-20 mínútur.
        En tíminn mun leyða í ljós hversu vel hvatningin mun virka á liðsmennina sem búa fyrir utan Reykjavík.

        Þetta er eitthvað sem öll fyrirtækin við Suðurlandsbraut geta nýtt sér, og þá sérstaklega þau fyrirtæki sem eiga við mikinn bílastæðavanda að etja. Í staðinn fyrir að starfsmenn (sem búa fyrir utan Reykjavík) eyði 5-10 mínútum að hringsóla í leit að stæðum sem ætluð eru viðskiptavinum þá geta þeir lagt við Laugardalsvöllinn þar sem ofgnótt er af stæðum og fengið sér góðan heilsubótargöngutúr í náttúru Laugardalsins.

        kveðja
        Gísli Jónsson
        Liðstjóri StórUst hjá Umhverfisstofnun
      • Kolbeinn Sigurbjörnsson
        sendi okkur fréttir af Ólafi H Baldvinssyni, starfsmanni hjá Vegagerðinni á Akureyri. Hann býr í Fnjóskadal og hjólaði í vinnuna í morgun um 40 km leið !

      • Ingibjörg Þórðardóttir , liðstjóri verkótrimm hjá Verkmenntaskóla Austurlands
        sendi inn þessa sögu sem hún fékk frá einum af liðsmönnunum sínum.

        Ég (Hrönn Grímsdóttir, námsráðgjafi í Verkmenntaskóla Austurlands) fer alltaf með Frey son minn fyrst til dagmömmu á hjólinu áður en ég mæti í vinnuna. Stundum fer ég með tölvuna heim og um daginn var ég með tölvuna og feita möppu sem ég varð að taka með mér. Þetta var ég svo með á bakinu, risahlunk alveg. Eins og þið vitið sem hafið hjólað með barn í stól aftaná hjólinu þá er ekkert pláss milli þín og barnsins. Ég varð því að gjöra svo vel að hjóla standandi. Þegar ég var búin að hjóla spölkorn tók ég eftir því að það heyrðust alltaf einhverjir dinkir og smá vol í Frey, honum sem finnst alltaf svo gaman að hjóla. Ég lít við og tékka á honum, jú hann er vel fastur, lít niður og athuga hvort það sé eitthvað laust, en nei allt fast. Ég held áfram og ennþá heyrast dinkirnir. Loksins uppgötva ég að það er hausinn á barninu sem er að lemjast við stólinn, hann var þó sem betur fer með hjálm. Þegar maður hjólar standandi þá sveiflast hjólið til hliðanna þannig að þetta var ekki þægileg hjólaferð fyrir snáðann. Þar sem ég er fórnfús móðir með eindæmum ákvað ég að tilla mér eins framarlega og ég gat á mjóa endann á sætinu og kveljast þannig sjálf það sem eftir var af ferðinni. En maður hjólar náttúrulega hvað sem það kostar.

        Kv. Hrönn
      • Lilja Petra, liðstjóri Hjartverja hjá Hjartavernd í Kópavogi
        sendi þessa skemmtilegu sögu sem kemur frá einum liðsmanni í liðinu hennar.

        Kæri liðstjóri

        Maðurinn með bleika hjálminn sem hjólar á móti mér á morgnana er farinn að heilsa mér. Ég heilsa til baka þar til ég heyri nánar frá þér. Og svo var það pabbi Hákons, sem spilaði fótbolta með Eiríki mínum í gamla daga, sem hjólaði fram úr mér í erfiðustu brekkunni við Grenigrund!! Ég ekki sátt, á ég að kæra hann fyrir að vera ekki með hjálm? Kannski var hann bara svo hræddur út af sprengjunni sem fannst í garðinum hans í gær. Og síðast en ekki síst!!!! Það sprakk hjá mér á leiðinni heim í gær, stakkst skrúfa beint í afturdekkið rétt hjá Smáralind. Ég hringdi strax í eiginmanninn sem kom brunandi, hjólið upp í bílinn, á viðgerðaverkstæði rétt fyrir kl 6, og það var búið að setja nýja slöngu og smyrja áður en við vorum búin að borga fyrir þjónustuna. Alveg eins og í formúlunni, en það er ekki hægt að skrá 6.53 km á mig, verð að fara niður í 2 km fyrir heimferðina í gær.

        Guðný Lilja Petra fjallageit liðstjóri án hjóls
      • Björn Barkarson hjá VSÓ bendir á blogg í tilefni af þátttöku VSÓ Ráðgjafar í Hjólað í vinnuna.
        VSÓ setti upp bloggsíðu þar sem öllum þátttakendum innan fyrirtækisins gefst kostur á að blogga um lífsreynslu sína af því að hjóla eða ganga til vinnu þessar tvær og hálfa viku sem átakið stendur yfir. Bloggið er n.k. blanda af persónulegri og fræðilegri umfjöllun um þennan samgöngumáta. Slóðin á bloggsíðuna er: vsohjol2008.blogspot.com/
      • Gílsi Rúnar Magnússon, liðsstjóri Tröllaskagateymisins hjá Skýrr
        sendi inn þessa skemmtilega útskýringu á nafni liðsins. Þar sem Akureyrarútibúið og Sauðárkróksútibúið hjá Skýrr hafa sameinast í eitt sameiginlegt hjólalið að þessu sinni þótti þeim Tröllaskagateymið vera viðeigandi nafn á liðinu. Tröllaskagi er skagi fyrir miðju Norðurlandi Íslands á milli Skagafjarðar og Eyjafjarðar.
      • Helga Kristiansen liðsstjóri hjá þjónustu 1 í OR sendi okkur þessa kveðju.
        Dugnaðurinn er alveg að fara með mig og aðra í liðinu mínu meðalaldur yfir 50. Verst er þó hvað það er vont að sitja, eftir hjólaferðir síðustu daga.
      • Auður Eiríksdóttir hjólar úr Mosfellsdal.
        Á Krabbameinsfélagi Íslands eru 6 lið sem taka þátt í að hjóla og ganga í vinnuna.Veðrið hefur leikið við okkur og er þátttaka okkar í ár sú mesta frá upphafi og margir kílómetrar lagðir að baki.
        Hér eru margir göngugarpar og eru dæmi þess að fólk gangi 10 km leið heim til sín. Einn daginn fór mesti göngugarpurinn 18 km leið þ.e. gekk báðar leiðir til og frá vinnu. Hér eru líka margir sem hjóla og fara þetta 8 – 20 km á dag.
        Ég sem þetta rita bý í Mosfellsdal og var ekki um annað að ræða fyrsta daginn en að hjóla að heiman alla leið í Skógarhlíð um 25 km. Leiðin liggur að miklu leyti meðfram sjónum og er dásamlegt að vera eldsnemma að morgni að hjóla og virða fyrir sér fuglalífið. Þá liggur leiðin um Grafarvogshverfin og Elliðaárdal og þaðan í Fossvoginn og meðfram Öskjuhlíðinni. Losna ég að mestu við umferðargötur en er annars ánægð með hvað bílstjórar eru tillitssamir þar sem ég þarf að fara yfir götur.
        Á lokadegi þarf að taka þetta með stæl og geri ég ráð fyrir að hjóla báðar leiðir og lagði ég af stað kl 6:20 í morgun úr Mosfelldalnum. Í Bryggjuhverfinu hitti ég liðstjórann minn sem bauð mér upp á heitt kakó og fylgdumst við síðan að og vorum komnar til vinnu kl 8:30.
        Bestu kveðjur
        Auður Eiríksdóttir
      • Anna Þóra , liðstjóri Armstrong Uno
        sendi þessa frásögn af ferðum hennar og annara liðsmanna liðsins.

        Komið þið sæl öll sömul!

        Okkur langaði að deila með ykkur smá frásögn af ferðum okkar svona rétt áður en átakinu líkur.Undanfarna daga höfum við verið að fara í nokkrar ferðir miserfiðar reyndar.Þann 18 maí hjóluðum við til Hveragerðis og reyndist sú ferð vera auðveld þó að löng væri (þó svo að bæta mætti aðstöðu hjólafólks svo að ekki þurfi að hjóla á miðjum þjóðvegi).Í gær 21 maí datt okkur svo í hug að hjóla að Þrastalundi.Við lögðum af stað með nesti og nýja skó frá Selfossi og gekk okkur vel að Þrastalundi þar ákvaðum við að stoppa smá stund og fá okkur smá pásu því að við vorum nokkð viss á því að erfiðara yrði að hjóla til baka þar sem var farið að blása nokkuð vel og var að byrja að rigna.Jæja til að stytta mál mitt þá var leiðin erfið heim (þó að manni finnist leiðin heim alltaf styttri) mikil umferð,rok og erfiðar brekkur.Já það erfiðar að það tók ansi hressilega í fætur og ýmislegt annað þannig að smá stopp urðu að eiga sér stað.Það var hefur verið mjög gaman að taka þátt í átakinu hjólað í vinnuna og erum við sammála um það að framhaldið sé núna einvörðungu undir okkur sjálfum komið.

        Verið þið blessuð og sæl öll sömul.

        Liðstjóri Armstrong Uno og liðsmenn

        Anna Þóra, Hermann og Eygló
      • Heimir Óskarsson, liðstjóri Íslenska 3 hjá Íslensku Auglýsingastofunni
        sendi okkur þessa sögu. Höfundur sögunnar vill ekki láta nafns síns getið en hann er liðsmaður stofunnar.

        Vakinn metnaður

        Konan hans gat aldrei sætt sig við ríkjandi ástand, gat aldrei verið ánægð með tilveruna þó að allt væri í himnalagi. Tvennt sífraði hún mest um: hana langaði í nýtt húsnæði og hún vildi að hann hreyfði sig meira. Þau bjuggu í þokkalegri sérhæð í Hlíðunum en hún saknaði þess að eiga ekki sérgarð. Hún vildi geta gróðursett sína runna og rótað í sínum beðum án nokkurra afskipta nágranna. Mestan augastað virtist hún hafa á raðhúsum í úthverfunum.

        Hann langaði ekkert að flytja. Hann vildi búa hér, í grónu hverfi, innan um gömul hús.

        Hún sagði að hann væri byrjaður að fitna og væri ekki nógu frísklegur. Hún stakk upp á því að hann gengi í vinnuna enda ekki nema kortersgangur. “Bull og vitleysa”, hugsaði hann en sagði fátt, hummaði þetta fram af sér í dálítinn tíma.

        Svo fór að rifjast upp fyrir honum hvað það hafði verið gaman að hjóla þegar hann var krakki. Hvað hann varð glaður þegar hann fékk bláa 3ja gíra DBS-reiðhjólið í fermingargjöf. Úti í bílskúr var lítt notað fjallahjól sem konan hafði gefið honum í afmælisgjöf án þess að ráðfæra sig hið minnsta við hann. Ætlunin var að fá hann með sér í hjólatúra sem síðan varð ekkert úr – því alltaf hummaði hann slíkt fram af sér. Hann hafði varla stigið á fjallahjólið. Það þurfti bara að pumpa lofti í dekkin, annars var það klárt og eins og nýtt.

        Konan var himinlifandi þegar hann stakk upp á því að fara á hjólinu í vinnuna. Þá myndi hún kannski vera ánægð í dálítinn tíma og hætta að tala um að flytja, hætta að hrella hann með fasteignablaðinu og senda honum linka á fasteignaauglýsingar í í tölvupósti í vinnutímanum.

        Hún var harla glöð með hann. Kvaddi hann með kossi þegar hann renndi úr hlaði á glettilega mildum en sólarlausum föstudagsmorgni í byrjun apríl. Sjálf vann hún heima, ritstýrði prjóna- og uppskriftablöðum, nettengd inni í vinnuherbergi. Í frístundum fór hún reglulega í kraftgöngur með vinkonum sínum, klædd timmgalla og með rauð eyrnaskjól og gjarnan með létt handlóð sem hún sveiflaði taktbundið.

        Það kom honum á óvart hvað það var erfitt að hjóla. Hann hafði að vísu gefið sér lítinn tíma til líkamsræktar mörg undanfarin ár en hann minntist hjólreiða sem laufléttrar skemmtunar. Það var greinilega langt síðan hann hafði notið slíkrar skemmtunar. Núna var þetta bara erfiði. Jafnvel að hjóla eftir jafnsléttu tók í lappirnar og brekkurnar fór hann móður og másandi með harmkvælum.

        Kannski var þetta eftir allt saman ekki góð hugmynd. Hann var varla sestur við borðið sitt í vinnunni þegar hann uppgötvaði að teinóttu buxurnar voru orðnar blettóttar og rykugar eftir túrinn. Og það var komin svitalykt í skyrtuna.

        En um helgina fór eiginkonan með hann í innkaupaleiðangur: hjálmur og hjólaföt. Á mánudegium var hann því töluvert vígalegri þegar hann settist á fákinn og auk þess varð hann ekki alveg eins þreyttur á leiðinni.

        Svo tók hann að njóta túranna betur, dag frá degi. Það var óneitanlega fersk tilbreyting að hjóla eftir götunum sem hann hafði áður ekið og horfa á bílaumferðina. Það var vor í lofti og því fylgdi notaleg frelsistilfinning að fara hindrunarlaust um götur borgarinnar og teyga að sér útiloftið, í stað þess að sitja fastur inn í bíl í umferðarhnútum.

        Þrekið jókst og hann fór að hjóla meira. Tók langa túra á kvöldin. Konan var ánægð með hann en það eina sem skyggði á hans gleði var að hún tók aftur að angra hann með draumum sínum um að selja íbúðina í Hlíðunum, kaupa raðhús í úthverfi og rækta garðinn sinn.

        Hann fór að gorta sig af hjólamennskunni í vinnunni. Flestir vinnufélagar hans komu á bílum og voru síðan í stökustu vandræðum með að finna sér stæði. Hann tók að blanda meira geði við þá fáu sem ferðuðust á reiðhjóli og talaði hástöfum við það fólk um hjólreiðar. Hann sagði að það væri aumingjaskapur og leti að fara allra sinna ferða á bíl og það væru margir á þessum vinnustað sem ekki veitti af hollri hreyfingu.

        Röskum mánuði eftir að hann gerðist hjólreiðamaður rann upp átakið Hjólað í vinnuna. Og skyndilega efldist mjög hjólreiðaáhugi á vinnustað hans. Dögum saman var ekki talað um annað en átakið og vinnufélagar hans voru staðráðnir í því tryggja vinnustaðnum sigur í fyrirtækjakeppninni.

        Starfsmannastjórinn skráði fólk til leiks. Alls 30 manns ákváðu að hjóla í og úr vinnu næstu vikurnar. Okkar maður var ekkert allt of ánægður með þetta svona innst inni. Hann hafði notið þess að vera einn af örfáum hjólreiðamönnum fyrirtækisins. Núna hafði hann enga sérstöðu lengur.

        Bílastæðin á planinu fyrir utan skrifstofuhúsið voru nú nánast auð upp við húsið stóðu reiðhjól í mörgum og löngum röðum.

        Á þriðja degi átaksins breyttist blendin ánægja hans með átakið í skelfingu. Árangur hvers og eins hafði verið skráður á veggspjöld sem blöstu við öllum inni í skrifstofusalnum. Af 30 þátttakendum fyrirtækisins í keppninni Hjólað í vinnuna var hann lægstur. Allir aðrir bjuggu lengra frá vinnustaðnum og þurftu því að hjóla lengri vegalengd til og frá staðnum.

        Þetta var óþolandi. Það hvarflaði að honum að skrá sig úr keppninni og byrja aftur að keyra í vinnuna. Vonbrigðin voru yfirþyrmandi. Stolt og sjálfsánægja síðustu vikna höfðu gufað upp í einu vetfangi.

        Mitt í angistinni sótti að honum furðuleg hugmynd. Hann fletti nokkrum nýlegum tölvupóstum frá eiginkonunni og skoðaði fasteignalinkana sem hún hafði sent honum.

        Einn af þeim vísaði ágætt raðhús uppi í Grafarholti. Það hafði aldrei hvarflað að honum að flytja þangað. En það voru heilir 20 kílómetrar þangað frá vinnustaðnum. Það þýddi 40 kílómetra túr á dag. Það þýddi að vera efstur á listanum á þessum vinnustað.

        Hann hringdi heim í konuna og sagðist vilja skoða raðhús. Sem allra fyrst. Þau mættu engan tíma missa.

        Hún var ánægð en steinhissa.

        “Mér líst best á húsið uppi í Grafarholti”, sagði hann.

        “Hvernig stendur á þessum stakkaskiptum?” spurði hún.

        “Mér finnst þú bara eiga skilið að fá þinn eigin garð”, svaraði hann. “Það er löngu orðið tímabært.”
      • Anna Þóra, liðsstjóri Armstrong Uno
        Mig langar að segja litla sögu af sjálfri mér.
        Þannig er að fyrir svona mánuði síðan bað vinur minn mig að koma út að hjóla með sér sem ég þvertók með öllu þar sem ég hef ekki hjólað síðan ég var 12 ára. Svo leið nú tíminn og að lokum fékk hann mig til að prófa. He he jú ég gerði mitt besta þar sem ég þurfti að finna jafnvægið, ná kröppum beygjum og réttum tökum á bremsunum. Allt þetta þurfti ég að læra uppá nýtt, svo klaufsk var ég að ég fékk þá hugmynd að best væri bara að ég fengi mér hjálpardekk. Þar sem þessi hugmynd mín féll vini mínum svo illa varð ég bara að þrákálast við og gefast ekki upp sem að tókst auðvitað, seig kella. Þar sem ég er mikið fyrir útiveru fann ég strax hvað þessi hreyfing hentaði mér vel. Við fórum út að hjóla á hverjum degi uns það var ákveðið þegar ég hafði náð góðum árangri að skrá okkur í átakið hjá ÍSÍ Hjólað i vinnuna. En í fæstum orðum þá er þetta orðið að rútínu. Það er æðislegt að hjóla þar sem heyfingin gerir mér gott, úthaldið eykst og svefninn er orðin allt annar, nú er gott að leggast út af að kveldi. Ég tek hjólið með mér þegar ég þarf að fara eitthvað eins og t.d Reykjavíkur og þvælist þar um allt og tek svo rútuna til baka (ég bý út á landi). Í dag fer ég eiginlega ekkert nema hjólandi og eins og ég sagði áðan er þetta orðið að rútínu og mikið vantar þegar ekki hefur verið stigið á hjólið dag hvern. Ég hvet ykkur öll til að prófa, kannski er það erfitt fyrst en verður aðeins frábært.
        Gangi ykkur vel.
        Liðstjóri Armstrong Uno
        Anna Þóra
      • Dofri Hermannsson, varaborgafulltrúi Samfylkingar sendi okkur þessar línur:
        Oddviti Samfylkingarinnar, Dagur B Eggertsson, átti erindi upp í Vegagerð ríkisins í morgun og fór að sjálfsögðu þangað á hjólhesti sínum. Þegar þangað kom áttaði hann sig á því að hjá Vegagerð ríkisins er engin hjólagrind! Segir það okkur eitthvað?!

        Þess má geta í framhjáhlaupi að samkvæmt lögum ber samgönguyfirvöldum ekki að leggja hjólastíga meðfram stofnbrautum. Ef borgarbúar vildu gera hross að samgöngutæki sínu myndi þetta horfa öðru vísi við. Samgönguyfirvöldum er nefnilega skylt að leggja reiðvegi meðfram þjóðbrautum!

        Dofri skoraði á borgarstjórnarmeirihlutann að keppa um það hvort lið hjólar fleiri daga og fleiri kílómetra í vinnuna á meðan á átakinu stendur. Lesa má nánar um áskorun Dofra á heimasíðu hans hér
      • Grunnskólinn á Tálknafirði
        Hér í GT (Grunnskólanum á Tálknafirði) hafa starfsmenn tekið þátt í átakinu og lagt í það mikinn metnað að ganga eða hjóla í vinnuna sína. Til að auka enn frekar slagkraft átaksins gekkst græna nefndin í skólanum fyrir hreyfingarátaki meðal nemenda sem og þemadaga sem gengu út á umhverfisvernd, umhverfis- og útikennslu og vinnu með endurnýtanleg efni. Þátttaka nemenda í þessu heilsuátaki sem stóð yfir dagana 7. - 12. maí var mjög góð og endurspeglar finnst mér áhuga starfsfólks GT á þátttöku á átaki ÍSÍ Niðurstöðurnar fylgja með í smá skjali sem birt var á lokadegi heilsuátaksins. Þann dag, kosningadaginn 12. maí, var nokkurskonar uppskeruhátíð þar sem sýnd voru verk sem nemendur höfðu unnið að á þemadögunum, hvatt var til þess að allir kæmu hjólandi eða gangandi og síðan var frítt í sund í sundlaug Tálknafjarðar fyrir alla, bæði bæjarbúa og gesti. Við í grænu nefnd GT sem er umhverfisnefnd skólans vorum mjög ánægð með þátttöku bæjarbúa í þessum degi. Með þakklæti fyrir að fá að taka þátt.Starfsfólk og nemendur GT, umsjónarmaður Ingólfur Kjartansson

        Ps.Það skal tekið fram að ef þær ferðir sem nemendur fóru eru reiknaðar saman, en að meðaltali er um að ræða um 2 kílómetra hvora leið, þá má sjá að nemendur GT hjóluðu eða gengu alls 210x4= 840 kílómetra þessa 5 daga sem átakið stóð. Það er allgóð viðbót við þá kílómetra sem starfsfólk GT hefur hjólað síðustu vikur (476 km). Nemendur GT eru 45 og af þeim eru 43 gjaldgengir, meðaltalið er 19,5 km á hvern nemanda þessa viku.
      • Glergengið
        Heil og sæl. Hér í Glergenginu hefur gengið á ýmsu, hetjan okkar hún Sigrún lenti í árekstri við krakka sem teymdi hjólið sitt í veg fyrir hana, svo núna hjólar Sigrún sína km. með öðrum fæti, hinn fór af við öxl. Hún hefur hjólað með barnið í leikskólann og síðan í vinnuna eins og ekkert sé. Ég fór af stað um daginn í góðu verðri og ætlaði að vera snögg á Stuðlahálsinn, viti menn er ekki búið að saga í sundur göngustíga og götur? Þetta var nú rétti tíminn til að leggja ljósleiðarana. En með góða skapið í farteskinu og flugnaskít í andlitinu hélt ég á hjólinu yfir þessar hindranir. Þau voru nú eitthvað að furða sig á klæðnaðinum á föstudaginn. Þó maður vilji líta þokkalega út þegar maður þeysist í vinnuna ( smá mont.) Pétur situr ber að ofan yfir "Gæðastöðlum" á meðan hann kælir sig niður. Strákarnir eru "öfundsjúkir" yfir athyglinni sem Pétur fær hjá stelpunum, en svona er þetta engin afrek,engin athygli..Það hefur aldeilis verið tekið á því síðustu daga. Enda margir fegnir að losna undan "hjólað í vinnuna -pressunni". Palli El sem hefur hjólað í 16 ár í vinnuna hefur ekki getað tekið þátt í þessum leik, hjólið bilaði akkúrat þegar átakið byrjaði og hefur lent í skömm fyrir að vera ekki með. Það eru samt ótrúlega margir sem hafa tekið þátt og haft mjög gaman af. Þetta er glæsileg frammistaða hjá okkur í Vífilfelli. Knus og kram Þura, Þuríður Ólafsdóttir.
      • Biskupsstofa
        Heil og sæl. Okkur langaði að vekja athygli ykkar á því að Biskupsstofa útbjó stutt myndband um þátttöku sína í þessu frábæra átaki. Það er hægt að horfa á það og lesa stutta frétt á vef Þjóðkirkjunnar. Vefslóðin er:http://www.kirkjan.is/?frettir/2007?id=194 Bestu kveðjur, Árni Svanur Daníelsson og Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir
      • Verksmiðjuhópur - Vífilfell
        Í verksmiðjuhópnum okkar er hann Siggi okkar Ben. Siggi hefur ekki hreyft sig mikið á síðustu árum af heilsufarsástæðum, þótt erfitt að ganga og verið þreklaus. Þessi hetja fór í hjartaaðgerð í vetur og hefur verið í stöðugri sókn síðan. Hann fór að ganga í vinnuna og nú er hann búinn að dusta rykið af hjólinu sínu og láta setja á það kílómetramæli, takk fyrir.
        Hann er því orðinn virkur þáttakandi í keppninni "Hjólað í vinnuna" og hans kílómetrar og þáttökudagar eru samviskusamlega skráðir. Þarna sjáum við hverju hægt er að áorka bara ef viljinn er fyrir hendi. Þarna er keppnin virkilega að ná tilgangi sínum. Hér eru líka ólíklegustu menn farnir að ganga og hjóla og öllum finnst þetta bara gaman, sumir kannski bara búnir að gleyma því hvað það er gott að hreyfa sig. Hópeflið, hvatning og keppni innanhúss er ótrúlega skemmtilegur leikur.
        Áfram og allir út að hjóla. Bestu kveðju Guðrún Gunnarsdóttir, gæðagenginu hjá Vifilfelli.
      • Vogaskóli í Reykjavík
        er með um 60 starfsmenn. Þátttakendur í átakinu Hjólað í vinnuna eru nú þegar orðnir 30, þ.e. þrjú lið og það stefinir allt í það að þau verði fleiri. Einn sem ekki var með í byrjun kom hjólandi um 10 km leið í dag og átti svo eftir að hjóla aftur til baka að loknum vinnudegi og hann ætlar að halda áfram og það er öruggt að í nýja liðinu verða fleiri sem nú hafa smitast af kappsemi þeirra sem byrjuðu strax. Margrét Eiríksdóttir.
      • Snælandsskóli
        tekur í ár þátt í keppninni í fyrsta sinn. Þegar eru 5 lið skráð í keppnina. Liðin keppa innbyrðis innan skólans og hafa hannað hvert sitt barmmerki og keppst er um að yrkja baráttusöngva fyrir liðin. Starfsmenn flykkjast að tölvunum í frímínútum til að mæla vegalengdir á Borgarvefsjá.is. Umferð hjólandi og gangandi fólks um Fossvogsdalinn í morgunsárið hefur snaraukist undanfarna daga og greinilegt að þátttakendur eru margir á ferð um hjólreiðastíga borgarinnar í tilefni af þessari skemmtilegu keppni. Kristín Arnardóttir
      • SBD- group Liðstjórnun í vaktavinnu.
        Halló. Einn af þeim stóru vinnustöðum sem er í keppninni er Landspitalinn og er mitt lið af slysadeildinni. Þar eru tvö lið og há þau harða baráttu sín á milli. Vaktarvinnan gerir liðstjórnun svolítið erfiðari, þar sem maður hittir aldrei alla meðlimi liðsinns saman. En hvatningar og upplýsingar fara fram með e-maili og uppýsingatöflu á kaffistofu. Fólk er einnig í mismikilli vinnu og sumir þegar farnir að hafa áhyggjur að ná ekki að taka þátt því mætingin er ekki 14x yfir tímabilið /þetta hvetur jafnvel til aukavakta :) Áfram SBD -group Kveðja Sigrún G. Pétursdóttir, liðstjóri.
      • Guðný Svavarsdóttir, Höfn.
        Þessi er frá 3. maí, svo látum við vita hvernig gengur. Þegar Björg Erlingsdóttir á Höfn tók fram reiðhjólið í morgun hafði þröstur gert sér hreiður í körfunni á hjólinu. Björg segist hafa séð mosatægjur í körfunni í gærkvöld og þá hefur þrösturinn trúlega verið byrjaður að leggja grunn að hreiðrinu en klárað verkið í nótt. Hún fór þó á hjólinu til vinnu í morgun enda tekur hún þátt í átakinu Hjólað í vinnuna og bíllinn auk þess bilaður. Hún segist spennt að vita hvort þrösturinn haldi áfram að innrétta hreiðrið í kvöld og verði jafnvel búinn að verpa í fyrramálið. Ef svo fer ætlar hún að taka körfuna af hjólinu svo þrösturinn geti lagst á í friði. Það er haft á orði á vinnustað Bjargar að þröstinn hafi langað í hjólhýsi og því valið þennan hreiðustað. Guðný Svavarsdóttir, Höfn.
      • Sigrún, liðsstjóri Skráveifa - Krabbameinsfélagi Íslands
        “Þriðji í hjóli” og rífandi gangur hér á Krabbó, 5 lið og mikil stemmning og metnaður í gangi. Fjöldi reiðhjóla er við innganginn og bílastæðavandinn leystur!

        Fyrir nærri 40 árum var ég ung menntaskólamær á hjóli á leið í skólann. Strolla af krökkum hljóp á eftir mér og hrópaði: “Kona á hjóli, kona á hjóli” Ég er enn á hjóli en enginn gerir hróp að mér lengur, breyttir tímar. Í dag á ég afmæli (40+ !) og hvorki get ég svikið mitt góða samstarfsfólk um að koma með glaðning með morgunkaffinu né liðið mitt, Skráveifur, um að koma á hjólinu. Hvað er til ráða? Ég baka dýrindis skúffuköku með gulrótum og döðlum, (holl og orkurík) skelli henni í kassa sem er kirfilega festur á bögglaberann og legg í hann. Leið mín úr Seljahverfinu í Skógarhlíð er rúmir 9 kílómetrar, en kakan komst heil og rjóminn óstrokkaður í hús. Verði ykkur að góðu! Sigrún, liðsstjóri Skráveifa - Krabbameinsfélagi Íslands
      • VSB verkfræðistofu í Hafnarfirði
        Góðan daginn , "Hjólað í vinnunna" fór vel af stað hjá okkur hér í VSB verkfræðistofu í Hafnarfirði. 18 manns eru búin að skrá sig og í morgun voru 12 menn og konur mættar á fákunum sínum. Mikill keppni er kominn milli liðanna , Koma Svo og Rjúkandi Pedalar. Allt fór stórslysalaust fram og er helst að segja frá Mikael (Rjúkandi Pedalar)sem missti vinstra sveif og fótstig uþb. 10 sinnum af hjólinu á 5 km leið. Hann keypti sér svo sterkt lím og munum við frétta á eftir hvernig það gekk. Óskar bætti duglega í km pottinn með því að hjóla 40 km í vinnuna á 500 gramma hjólinu sínu. Sævar hjólaði ekki eins mikið eins og hann ætlaði því hann læsti hjólinu sínu vandlega þegar hann var kominn í vinnuna en uppgötvaði svo þegar hann ætlaði heim að hann var ekki með lykill! Stelpurnar klikkuðu í gær nema Sigrún sem stóð sig hetjulega og barðist í gegnum mikinn rigningarskúr með 2 kassar af berlínar bollum á bögglaberanum.Hinar stelpurnar mæta svo í dag þegar þær eru búnar að festa körfurnar á hjólin sín. Við höldum áfram í dag! Kveðja , Liðstjórar
      • Kristjana H. Kjartansdóttir liðstjóri Táps
        Ég ætla að segja ykkur aðeins frá okkur hér í Garðinum. Við stofnuðum tvö lið og nefndum þau Táp og Fjör og voru 10 í hvoru liði. Þetta gekk mjög vel hjá okkur, þó komu smá frávik s.s. utanlandsferð, nemendaferðalag og veikindi, svo ekki gátu allir verið með allan tímann.
        Skólastjórinn, Erna Sveinbjarnardóttir, dreif í að kaupa sér nýtt hjól og var góð fyrirmynd í átakinu. Við tvær erum elstar hér í skólanum 63ja og 64ra ára og erum báðar duglegar að hjóla og auðvitað notum við hjálma. Fleiri eru hjólandi, enda mjög gott að hjóla hér í Garðinum, engar hæðir!
        Ein tveggja barna móðir og á von á því þriðja í ágúst, ákvað að ganga þótt hún þyrfti fyrst að fara með yngri soninn til dagmömmu og þann eldri á leikskólann. Þetta var skemmtileg tilbreyting í daglega lífið og ég sé ekki betur en það skili sér í meiri áhuga á að nota eigin orku til að komast á milli staða, enda er okkur engin vorkunn, því hér er allt í göngufæri sem við þurfum á að halda. Með bestu kveðju, Kristjana H. Kjartansdóttir liðstjóri Táps.
      • Kveðja Halldóra
        Það er alltaf gaman að taka þátt í þessu verkefni, það drífur mann af stað. Akranes er kjörið til að hjóla, allt svo slétt. Helstu vandamálin eru glerbrot. Eins gott að vera vel vakandi á hjólinu. Sumir ganga reyndar í vinnuna, en það er líka hið besta mál. Kveðja Halldóra
      • Salka Fiskmiðlun
        Góðan daginn. Við hér hjá Sölku Fiskmiðlun erum með í átakinu hjólað í vinnuna í fyrsta skipti. Okkur gengur bara frekar vel, mun betur en við þorðum að vona í byrjun. Í gær, í tilefni afmælis liðsstjórans, ákváðum við að fara saman lengri leiðina í vinnuna og hjóluðum við sveitahringinn í Dalvíkurbyggð (29 km. í vinnuna). Ein okkar var að hjóla þetta í fyrsta skipti og sagðist hafa verið afar þreytt í gærkvöldi, en að samaskapi afar ánægð með að vera búin að gera þetta. Þarna hjólar maður úti í náttúrunni laus frá nær allri umferð (fórum af stað uppúr 6 að morgni) og nutum fuglalífsins. Sáum tildæmis að Krían var komin enda á hún að vera komin á afmælisdaginn minn og sáum nokkurra klukkutíma gamalt folald. Þetta gekk rosalega vel, ekkert klikkaði enda vorum við bara 97 mínútur sem er nú bara ágætt af okkar hálfu. Við þökkum fyrir þetta frábæra framtak, þetta er svo gaman, fylgjast með hvað aðrir eru að gera og reyna að keppa við þá. Bestu kveðjur, Lilja Björk liðsstjóri Hjallaspíranna.
      • Hvítpúðruð fjöll og hiti, rétt lufsas upp fyrir núllið
        Átakið fór mjög vel af stað, enda eindæma blíða í síðustu viku, en nú eru góð ráð dýr. Sem betur fer eru tvö lið innan fyrirtækisins og reynum við liðstjórar að hvetja fólk með áskorunum. Við í liði Speedy Gonzales ætlum auðvitað að standa okkur betur en FireFox og að launum fá boð í mexikanska veislu með nachos, sombreros og mariachi-tónlist. Ef ekki þá verðum við að bjóða FireFox liðinu í veislu með FireFox þema... hvað ætti það að vera?Refaveiðar? Sigríður Hrefna Pálsdóttir, liðstjóri Speedy Gonzales
      • Við hjá Danfoss hf
        erum að taka þátt í annað sinn. Við erum þrír sem höldum uppi merki fyrirtækisins, en erum með stöðuga pressu á starfsfélaga okkar að taka þátt. Var að hugsa það í gær á leiðinni heim, það er sama hvert maður er að fara það er alltaf mótvindur. Þá var mér hugsað til framboðs Sólskinsflokksins hér um árið, þeir lofuðu öllum hjólreiðamönnum meðvindi ef þeir kæmust að. Hvernig væri að einhver af núverandi stjórnmálaflokkum mundu taka þetta upp. Þá mundu miklu fleiri hjóla. Jóhannes Skarphéðinsson
      • Týndi skórinn
        Einn góðviðrisdaginn síðasta sumar ákvað ég að hjóla í vinnuna. Ég setti fötin mín í lítinn bakpoka og skóna í svona ólar sem eru utan á pokanum (pokinn var svo lítill að skórnir komust ekki í hann). Svo hjóla ég af stað, alsæl yfir þessari frábæru hugmynd hjá mér, í vinnuna . Þegar ég kem þangað átta ég mig á því mér til mikillar skelfingar að ég hef týnt öðrum skónum á leiðinni. Ég sá sjálfa mig ekki alveg í anda vera á tánum í vinnunni allan daginn og geta ekki staðið upp frá skrifborðinu. Hefði kannski getað verið huggulegt, "Æ ertu ekki til í að færa mér kaffi með smá mjólk og súkkulaðikex - get nebblilega ekki farið á tánum fram í kaffistofu!"
        Ég fékk samstarfskonu mína til að rúnta með mér leiðina sem ég hjólaði í vinnuna. Við leituðum á öllum stöðum þar sem skórinn hefði getað farið. Þrátt fyrir mikla leit fundum við ekki skóinn. Ég hugsaði mér nú bara gott til glóðarinnar og sá að þetta var nú bara gott tækifæri til að kaupa mér nýja skó. Þegar ég var svo á leiðinni heim var ég alltaf svona að kíkja í kring um mig hvort ég sæi skóinn en var eiginlega alveg hætt að gera mér vonir um það en viti menn allt í einu sá ég glitta í græna skóinn í grasinu við gangstéttina, ég náttúrlega krossbremsaði svo að það lá við stórslysi. Ég var svona eftir á mátulega sæl yfir að hafa fundið fj.... skóinn. Ég var bara eiginlega hálf fúl - ég var alveg búin að sjá fyrir mér nýju skóna. Hjólakveðja Guðný
      • Fengum þessa skemmtilega vísu senda frá Unni Sólrúnu Bragadóttur.
        Á farartækjum ýmis konar ferðumst við öll flugvél nota margir sem ber þá yfir fjöll bílar eru algengastir í óhófi þá nýtum en allt of lítið göngum ef til framtíðar lítum. ____ Reiðhjólið er frábært mér finnst það engu líkt fáðu þér í einum grænum endilega slíkt það brunar með þig áfram á ótrúlegum hraða og ósköp smáar líkur á þú hljótir af því skaða. ___________ Og þú sem ert að hjóla að þér útilofti andar útivist og ánægju á snjallan hátt þar blandar og ekki ertu að menga svo mikið er víst á milli staða hljóðlega þú einfaldlega skýst.
      • Raunasaga rauparans:
        ,,Hjólað í vinnuna” hófst í vikunni og því var ekki úr vegi að draga fram hjólið, hjálminn og láta sjá sig úti meðal alls þessa hrausta útivistarfólks sem svífur um ýmist skokkandi eða hjólandi daginn langan.
        Ég skeiðaði af stað út innkeyrsluna og fram hjá bílnum sem horfði þögull og hissa á aðfarirnar. -Fyrir hornið –æ, Gunnar á sjö hefði mátt setja garðaúrganginn sinn innar á gangstéttina. Rétt náði að sveigja fram hjá aspargreinum og sölnuðum laufblöðum sem gægðust út úr svörtum ruslapoka.
        Niður brekkuna lá leiðin næst, ég gaf vel í og var á blússandi ferð þegar ég sá frekar umfangsmikla konu bíða við strætóskýli neðst í brekkunni.. Úbbs, ég mundi ekkert eftir flottu bjöllunni vinstra megin á stýrinu, baðaði út höndunum til skiptis og rak upp hálfkæft óp. Konan skildi sneiðina, hopaði,hálfan metra og ég sneiddi faglega framhjá. Þar skall hurð nærri hælum!
        Næst tók við kafli á jafnsléttu niður þar sem ég gat virt fyrir mér umhverfið og látið hugann reika. Á sígrænkandi greinum runnanna héngu plastpokatægjur hvers konar og alls kyns rusl lá víða í beðum meðfram gangstéttinni, nútímamaðurinn klikkar ekki, það er augljóst. Ánamaðkarnir voru komnir á kreik eftir vætu næturinnar. Ég reyndi að sneiða hjá þeim, tuttugu og sjö lágu þó í valnum áður en ég hafði hjólað niður að sundlaug.
        Ég hjólaði framhjá World Class, þar sem bílstjórar kepptust um að leggja gljáfægðum gæðingum sínum sem næst aðaldyrum stöðvarinnar. Skiptu þar skilti um bílastæðabönn augljóslega engu máli, þeir gætu auðvitað orðið af mínútum við að ganga lengra frá bílum sínum.
        Ég þurfti að fara yfir götu skömmu seinna, það var þrautin þyngri. Bílar þutu hjá á ógnar hraða, jú þarna stansaði grannleit kona á ljósleitum Fíat. Ég æddi af stað yfir en var næstum keyrð niður af glænýjum, nýbónuðum ljósgráum jeppa. Fremur forstjóralegur, velklipptur ungur maður talandi í farsíma sat undir stýri. Hann sá mig augljóslega ekki.
        Í vinnuna komst ég, þökk sé mínu rauða hjóli og bláa hjálmi. Ég var nú harla ánægð með mig og hlakkaði til að hvíla mig. Þetta tók á en auðvitað á maður að vera meira úti, stressa sig niður og njóta náttúrunnar – á hjóli. -En bíddu við, var eitthvað talað um að ,,hjóla heim úr vinnunni”?.......
        Áslaug Ívarsdóttir
      • Leikskólanum í Stykkishólmi
        Við hérna í Leikskólanum í Stykkishólmi erum komnar alveg á fullt í hreyfingunni. Flestar völdu að hjóla eða ganga í stað þess að skauta eða skríða í vinnuna (við vildum bjóða upp á sem flesta möguleika til að hafa sem flesta með þið skiljið). Þar sem þátttakan er svo góð hjá okkur, eða 20 starfsmenn með af 21, þá þurftum við að skipta í 2 lið. Það var nú smá titringu í hópnum vegna þessa , þar sem allar hafa mikið keppnisskap, en enn hefur ekki komið til átaka. Helstu vandamálin þessa fyrstu daga eru rasssæri, gleitt göngulag og erfiðleikar við að setjast á klósett. Þetta hefur líka aðeins bitnað á faglegu starfi, þar sem starfsfólk getur ekki tekið þátt í leik á gólfi með börnunum, setið í samverustundum eða söngstundum. Við tökum heldur ekki þátt í eltingaleikjum, boltaleikjum eða öðrum hreyfileikjum, þar sem við erum að safna kröftum fyrir heimferðina. Kær kveðja Garparnir í Leikskólanum í Stykkishólmi.